Íklæðast sínu eigin

Íklæðast sínu eigin

Það er oft þannig að okkur liggur á ferð okkar. Gefum okkur ekki tíma til að staldra við og viðurkenna fyrir okkur sjálfum og öðrum að við vitum oft ekki hvert við erum að flýta okkur á hvaða leið við erum.

Jóh.14.1-11

I

Þetta atvik átti sér stað fyrir níu árum síðan. Hann brosti breytt. Hann var í jakkafötum, hvítri skyrtu bindi, bjartur yfirlitum, nýfermdur og sagði: „nú er ég fullorðinn!“ Æskan speglaðist í augum hans. Við tókumst í hendur um leið og ég hváði…ætlaði að segja eitthvað við hann en gafst ekki ráðrúm til þess. Ég kastaði kveðju á hann. Ég sá undir sólana á nýjum spariskóm hans. Honum lá á. Hann hrasaði, brosti til mín…tók síðan hringstigann er liggur úr safnaðarheimilinu í þremur eða fjórum skrefum í faðm fullorðinsheima, sem biðu eftir honum eftirvæntingafull eins og hann nýfermdur “karlmaðurinn.” Stuttu seinna kom hann aftur-hann hafði tekið í flýtinum rangan jakka.

Skyldi það vera svo, hugsaði ég með mér þegar ég horfði á fermingakyrtlana hanga yfirgefna á slánni í safnaðarheimilinu, í kyrrðinni, sem sogaðist að í kjölfar spennu og hamingjuóska, stundu áður. Fermingakyrtlar sem nokkru áður voru fylltir lífi eftirvæntigafullra barna. Þolinmóðir bíða þessa að aðrir einstaklingar fylltir æskufjöri máti sig í þeim. Skyldi það vera svo, að sá eða sú sem fermist klæði af sér æskuna, að hún verði eftir í hvítþvegnum straujuðum kyrtlinum?

Víst er að í huga einhverra er það svo, við því er ekkert að gera en óneitnalega leggst að kvíði í huga. Ekki skelfing eins og sagði frá í upphafi guðspjallsins. Hvort heldur það er skelfing sem sækir að eða kvíði þá getum við verið viss um hvort heldur að við getum lagt hverja þá tilfinningu sem við berum í huga í hönd þess sem þið kæru fermingarbörn Fanney Rún Jónsdóttir og Kristinn Logi Auðunsson játist senn að gera að leiðtoga lífs ykkar. Því hann þekkir kvíða. Á þeim degi sem hann neytti síðustu kvöldmáltíðarinnar með lærisveinum sínum – skírdag – hann gekk til móts við pínu og dauða án þess að hrasa.

Það er svolítið mikið að gera einhvern að leiðtoga lífs síns. Reyndar er það ekki bara einhver en samt stór ákvörðun.

II

Þið tvö hafið hafið ákveðið að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs ykkar. Ég veit að þið vitið að leiðtogar koma og leiðtogar fara. Við höfum fengið að kynnast því hér á landi undanfarin misseri. Það hefur mannkynssagan líka kennt okkur. Það sem einkennir margan veraldlegan valdsmanninn að margir þeir eiga það sammerkt að eiga lygina að förunaut. Þótt hvergi sé að finna stafkrók um það. En við vitum það og skynjum það. Þessvegna eru þeir dæmdir til að falla um sig sjálfa. Líf hið sanna líf byggist á sannleikanum einum. Sá eða sú sem ekki gengur hreint fram, gengur fram í sannleikanum, glatar sér, týnir sér í viðhorfum annarra. Þið munuð efast um ykkur sjálf og annað það sem mætir ykkur á lífsvegi ykkar. Það er nauðsynlegt að efast og spyrja spurninga eins og Tómas gerði og sagði frá í guðspjallinu. Hann hafði kjark til þess að standa frammi fyrir skjálfum sér ráðvilltur og leita svara. Það eru margar spurningar og mörg svör sem ekki endilega liggja á glámbekk á unglingsárum. Heimurinn að opnast í víðáttu sýn. Það sem þótti sjálfsagt er allt í einu ekki eins sjálfsagt og ykkur þótti þegar þið voruð yngri. Tilveran fer að vera eilítið meira flókin. Kann að vera sú staðreynd ein kalli fram kvíða eða óttatilfinningu. Við sem eldri erum höfum farið þennan veg áður. Á þeim vegi eru vörður sem visa í áttina. Þið hrasið örugglega um þá tilfinningu kannski ekki í skíðabrekku sem þið þekkið betur en margur annar að vera misskilin heldur hinum ýmsum öðrum brekkum unglingsáranna. Þrána eftir því að vera viðurkennd. Fyrir það eitt að vera eins og þið tvö eruð sem einstaklingar. Það að vera unglingur er ekki vandamál heldur aðeins vörðuð leið sem fara verður til þess að lokum að öðlast sjálfstæði að verða fullorðinn og taka ábyrgð á sínum eigin gerðum.

III

Fanney Rún og Kristinn Logi - ekki fara fram úr sjálfum ykkur heldur njótið þeirra ára sem framundan eru og vonandi áhyggjulaus að mestu hvað varðar ytri aðbúnað. Því ég lofa ykkur því að seinna meir eigið þið eftir að líta til baka og minnist þessa dags og þeirra daga sem framundan eru í áhyggjulausu skjóli foreldra og MSN skilaboða.

Ég get sagt ykkur það að lygin er þarna fyrir utan. Sannleikurinn er þar líka. Þið hafið ákveðið með því að fermast að ganga veg sannleikans. Eða eins og Jesús sagði við Tómas. “Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.” Það er ekki auðvelt. Það verður reynt að bregði fæti fyrir ykkur. Miskunnarleysið er algjört og þið í augum þeirra sem ganga erinda lyginnar eruð ekkert annað markaðsvara niðurrifsafla.

IV

Það er oft þannig að okkur liggur á ferð okkar. Gefum okkur ekki tíma til að staldra við og viðurkenna fyrir okkur sjálfum og öðrum að við vitum oft ekki hvert við erum að flýta okkur á hvaða leið við erum. Sagan af fermingardrengnum sem ég sagði frá í upphafi gerðist. Hún er ekki merkileg vegna þess að hún er alltaf að gerast í okkar lífi eða annarra. Þrátt fyrir það megum við ekki missa sjónar á að hvert andartak og hvert verk okkar er merkilegt. Þessi saga eða mynd af sögu vil ég meina að tali til ykkar Fanney Rún og Kristinn Logi á þessum hátíðisdegi ykkar og ekki aðeins ykkar heldur og til okkar allra sem hér erum.

Ég er ekki að segja ykkur þetta svo að þið munið allveg örugglega fara í réttum fötum í allt um faðmandi fjölskyldu ykkar hér á eftir og uppskera bros og knús frá foreldrum, systkinum, öfum, ömmum frænkum og frændum og vinum og vinkonum - Ég er að segja ykkur þessa sögu vegna þess að ég treysti á skynsemi ykkar. Ég er líka að segja ykkur frá þessum atburði sem ratar ekki í sögubækur til að skerpa á þeirri athygli sem þið eigið og þurfið að hafa á umhverfið ykkar allt. Því ef þið haldið að umhverfið og það skemmtilega sé það sem gerist annarsstaðar – einhverstaðar í fjarlægri veröld - þá skjátlast ykkur! Hún er hér núna! ekki á morgun heldur akkúrat núna!

Það sem gerist hvort heldur við viljum kalla það ómerkilegt eða merkilegt skulið þið gefa ykkur tíma til að staldra við. Leyfa skynseminni að hvísla í eyru ykkar – flýtið ykkur hægt! Íklæðist þeirri vissu að þið eruð að gera rétt. Mamma og pabbi verða ekki alltaf nálægt til að hafa augu á og redda málum og skipta á því sem þið tölduð vera ykkar yfir í það sem er í raun og sann er ykkar.

Við getum sagt að þessi saga sem ég sagði og er sönn og gerðist hér í kirkjunni í Árbænum fyrir einum níu árum síðan sé nútíma dæmisaga. Þetta er ekki saga sem gerðist og dagar sem liðnir eru síðan hafa fótum troðið hana því hún er að gerast í dag. Hún er að gerast á þessu augnabliki í lífi einhvers þarna úti í veröldinni sem þið senn heilsið sem fermdir einstaklingar. Hún er að gerast í lífi einhvers sem einhverra hluta vegna var að flýta sér á stundu sem engin nálægur, engin sem lét sig varða af kærleika að koma auga á og segja að þú hefur íklæðst – ekki þínu eigin. Þegar það gerist er voðin vís og bjargir þeirra sem hafa augun hjá sér í kærleika kunna oftar en ekki vera fjarri á þeirri stundu. Hvað þá að leggja við hlustir og hlýða á þann sem þið játist sem leiðtoga lífs ykkar.

Þegar þig afklæðist fermingarkyrtlunum hér á eftir í safnaðarheimilinu kæru fermingarbörn gætið þess að taka með og skilja ekki eftir í þeim æsku ykkar og þrótt í einhverjum tilbúnum “raunveruleika” flýti. Það er beðið eftir ykkur bæði af þeim sem þykir vænt um ykkur og lengra úti af þeim sem láta sig ykkur engu varða. Þeim sem þykir vænt um ykkur eru tilbúin að bíða eftir ykkur svo framalega að þið komið íklædd sátt við sjálf ykkur og tilveruna alla. Amen

Þegar þið farið héðan út á eftir í faðmi fjölskyldna ykkar og í huga einhverra ykkar hvíslar rödd sem segir að nú er ég kominn í fullorðinna tölu bið ég þau hin sömu að taka skrefin sem skilur ykkur frá þeim heimi með varúð og yfirvegun taka eina tröppu í einu.

Hringstigi lífsins er einn og það er auðvelt að hrasa á þeim stiga ef mikið liggur við. Guð gefi ykkur kæru fermingarbörn Fanney Rún og Kristinn Logi gæfu og þor til að takast á við lífið í sannleika - ætíð. Þann sannleika gaf Jesú Kristur ykkur í skírninni og þið staðfestið senn í fermingu ykkar.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen