Kristniboð hefur verið á dagskrá þjóðkirkjunnar ár hvert frá 1936. Einu sinni á ári a.m.k. Svo er enn í ár. Meginástæðan er að góður maður stóð uppi á fjalli með hópinn sinn kringum sig fyrir tæpum 2000 árum og sagði: Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum. Reyndar stóð ekkert um að það væri bara einu sinni á ári. En einu sinni á ári er góð byrjun.
Nálægt einu sinni á ári
Mörgum finnst kristniboðið svo fjarlægt. Kannski er ekki nema von því fólk fer yfir hálfan hnöttinn til að stunda það. En kristniboð verður aldrei unnið nema það sé jafnframt nálægt. Hópurinn sem staðið hefur að baki þessu starfi hefur þekkt það, lifað í því, beðið fyrir því og gefið til þess. Sumt fólk hefur fært miklar fórnir. Kristniboðið er fjarlægt en þarf líka að vera nálægt.
Tilgangur kristniboðsdagsins er að færa kristniboðið nær, skapa því nálægð í söfnuðum landsins. Stíga enn eitt skref í áttina að því að kirkjan verði öflugari kristniboðskirkja. Erfitt er að skilja arfinn frá Jesú og postulunum á annan veg en að í kristniboðsstarfinu sé fólgin tilveruréttur kirkjunnar. Þar er hlutverk hennar. Kristniboðið þarf þess vegna að nálgast söfnuðinn og söfnuðurinn að nálgast kristniboðið. Auglýst er eftir hagnýtum lausnum!
Meginhluti kirkjuársins er eftir páska, hvítasunnu og þrenningarhátíð. Undir lok þess tíma er kristniboðsdagurinn. Kristniboðið er unnið á forsendum krossfests og upprisins frelsara. Hann hefur sigrað dauðann og vald óvinarins. Hans er valdið og þess vegna segir hann: „Farið því.“ Í ljósi páskanna á það að sjálfsögðu við oftar en einu sinni á ári. Rétt eins og páskaboðskapurinn, gleði og raunveruleiki páskanna, mótar kirkjuna allt árið, þá hljótum við að þurfa að huga að kristniboði allt árið.
Einu sinni á ári verður oftar á ári
Kristniboðsdagurinn er góð áminning um að tími sé til að taka næsta skref. Einu sinni á ári getur orðið oftar á ári. Kristniboð allt árið er að sjálfsögðu draumurinn og hugsjónin. Að við minnum hvret annað á þessa ábyrgð okkar reglulega, allt árið um kring. Að kristniboðsstarfið sé samofið starfi safnaðarins, frá sunnudegi til laugardags. Að eldurinn logi í hjörtum sem flestra, sem oftast og sem lengst.
Kristniboð er að bera Jesú Kristi vitni allt til ystu endimarka jarðarinnar. Samofið starfinu er fjölbreytt þrónuar- og hjálparstarf: Heildræn birting á kærleika Guðs sem gaf son sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Enginn trúir án þess að honum sé boðað. Kjarni starfsins er boðun, að fólk sjái Jesú og fylgi honum. Að fólk sé gert að lærisveinum Jesú Krists.
Nú er lag að slást í hópinn með einum eða öðrum hætti. „Allt gott byrjar með bæn“ varð einhverjum að orði. Líklegast verður mesta breytingin í átt að ábyrgð safnaðanna fyrir kristniboði ef þeir taka að biðja fyrir því í ríkari mæli.