Sjáum og verum séð

Sjáum og verum séð

Ljósið að handan lýsti upp jörð, filmu og hans eigið líf. Hann var í ljósför sjálfur, en uppgötvaði svo að hann sjálfur var upplýstur og framkallaður. Hugleiðing í messu 12. apríl var um plúsana í trú og kirkju og fer hér á eftir.

Sjáum, virkjum, treystum Í nokkrar vikur hef ég verið að íhuga hvað verður til að fólk vilji taka þátt í starfi kirkjunnar. Ein vídd þeirrar íhugunar er hvernig fólk trúir og hvað það leggur sjálft til mótunar trúarhugmynda. Getur nokkur trúað nema tengjast sjálfur og leggja eitthvað til? Ekkert starf er sjálfsagt og verður sjálfkrafa, kirkjustarf ekki heldur. Það er ekki rekið af englum, heldur mennskum verum. Sömuleiðis er trú er ekki bara eitthvað, sem við þiggjum í arf. Nei, slíkt nefnist arfur eða hefð og vissulega er sístæð sú hætta, að kirkjan verði hefðbundin en ekki frjáls, arfur en ekki lifandi mótunaraðili. Hvernig starfar lifandi kirkja og hvað einkennir hana? Fyrst tvær sögur um tvo kirkjumenn. Önnur að norðan og hin hér úr Neskirkju.

Jesúsamkoma fyrir unglinga Fyrir skömmu fékk ég tölvupóst frá gömlum félaga í unglingastarfi Neskirkju. Hann heitir Jónas Þórir og er organisti og rifjaði upp í skeytinu hátíð á vordögum 1972. Æskulýðsstarf kirkjunnar var mjög öflugt á þeim árum og í fylkingarbrjósti hér í Neskirkju voru sr. Frank M. Halldórsson og Sigurbjörn Guðmundsson, verkfræðingur. Þeir voru óþreytandi að tala við okkur unglingana, fræða og fara í ferðir. Okkur var treyst og við virkjuð, okkur voru falin verkefni við hæfi og treyst til átaka. Það var unglingaaðferð þess tíma: Virkja og treysta.

Við Jónas Þórir fengum þá hugmynd að efna til Jesúsamkomu og bjóða unglingunum í kirkjuna. Tillögur okkar voru samþykktar. Sóknarnefndin heimilaði að prentað yrði Jesúplakat. Stíll þess var í anda ameríkaniseraðs hippatíma. Jesús Kristur eftirlýstur stóð þar, eins og leitað væri alræmds krimma, sem þyrfti að góma.

Jónas Þórir hafði samband við bestu hljómsveit landsins Trúbrot og fékk Kalla Sighvats, heitinn, til að lána hið fræga Hammond-orgel sitt.

Unglingarnir fjölmenntu og kirkjan fylltist. Reyndar bilaði Hammondinn í miðju kafi og tónlistaratriðin urðu ekki alveg eins stórfengleg og við höfðum vonað. En allt fór vel fram, mikið var sungið og Guðsorðið túlkað.

Margir tugir plakatsins voru hengdir á veggi í forkirkju og kirkju sem og á súlurnar. Í lok samkomunnar og flestir á útleið var tilkynnt, að þau sem vildu mættu taka með sér eintak. Þá varð uppþot og stympingar þegar unga fólkið kepptist um að ná þessum eftirlýsta Jesú Kristi. Í mörg ár héngu plakötin í mörgum herbergjum hér í hverfinu. Virkja og treysta, það var aðferðin. Og stór hópur ungs fólks starfaði í kirkjunni og vildi síðan þjóna hinum kristna boðskap með ýmsum hætti í samfélaginu.

Samkoman Jesús Kristur Eftirlýstur var merkileg og nú erum við að íhuga að efna til nýrrar samkomu undir sama heiti og virkja popparana.

Sr. Pétur og Bolli Þá er það hin sagan og hún er að norðan, um aðrar aðstæður en eitt virkjun. Bolli Gústavsson, prestur og vígslubiskup, var borinn til grafar á mánudag. Hann var yndislegur maður, leiftrandi kennimaður og mannvinur. Hann þjónaði sem prestur í Hrísey, var í aldarfjórðung prestur í Laufási og síðasta áratug embættisferils síns var hann vígslubiskup Hólastiftis.

Athyglisvert er hvernig Bolli tengdist kirkjustarfi og fékk áhuga á kirkjunni og kristninni. Pétur Sigurgeirsson bylti barna- og unglinga-starfi á Akureyri þegar hann kom þangað til starfa sem prestur 1947. Meðal aðferða hans var að virkja unglinga og fela þeim verkefni við hæfi, treysta og hvetja. Í Bolla sá hann góðan penna og áhugamann orðsins. Hann fól honum því ritstjórn æskulýðsblaðsins og hvatti til góðra verka. Og Bolli óx við áraun og traust, fékk áhuga á að læra guðfræði og verða prestur en hefði allt eins getað orðið rithöfundur, söngvari eða myndlistarmaður – og margt fleira. En Bolli vildi þjóna kirkjunni og varð öflugur málsvari kristni í landinu, afkastamikill penni og listprestur.

Virkjun, traust og gott líf Sögurnar af organista og presti, sögur að norðan og héðan úr hverfinu eru dæmi um hve virkjandi leiðtogar geta eflt fólk til starfa. Ef fólki er treyst og hvatt til verka og fær frelsi til átaka geta orðið kraftaverk og líf fólks mótast til framtíðar. Að verða prestur eða organisti er ekki sérstakt markmið, heldur að elska menn og elska Guð, þjóna góðum málum, efla friðinn, styðja fræðslu, líkna þeim sem eru hryggir eða sjúkir. Hver hefur sína hæfni og færni og á að starfa við sem hugur stendur til og nýtir getu og gáfur best.

Þjóðkirkjan breytist hratt þessi misserin og starf hennar vex mjög. Spennandi tími er runninn upp í lífi kirkjunnar. Fjöldi fólks vill gjarnan leggja lið og virkja krafta í þágu kristninnar, safnaðarstarfs, samfélags, s.s. messu- og matarhópar, kórar, nefndir á vegum sóknarinnar, sjálfboðaliðar o.s.frv. Við þurfum að temja okkur að sjá fólk. Allir þarfnast þess að vera séðir. Ekki síst í barna- og unglingastarfi þarf stefnan að vera ákveðin virkja og treysta.

Að sjá og sjá ekki Í texta dagsins setur Jesús fram andstæðuna að sjá og sjá ekki. Hann segir í guðspjallinu: “Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.“ Til að virkja og treysta verður að sjá fólk, manngildi þess og hæfni. Til að virkja og treysta verður að horfa á fólk með augum elskunnar. Það er Guðstillitið.

Jesús notaði gjarnan stíll andstæðna og þverstæðna til að fá fólk til að hugsa og bregðast við. “Að sjá og sjá ekki” voru viðvörunarorð hans til undirbúnings lærisveinunum fyrir atburði kyrruviku og páska. Að sjá og sjá ekki hefur verið arfur og aðstaða kristinna manna um allar aldir. Lærisveinarnir voru ekki fullkomnir en þeir, sáu, skildu og gerðu eins vel og þeir gátu. Við erum ekki fullkomin og sjáum ekki allt rétt, vitum ekki allt fullkomlega og höfum ekki fullkomna kristinfræði upp á vasann, klára og algilda, meitlaða í grjót.

Hvernig mótast trúin? Sjáum við Jesú vel? Hver er myndin af Jesú í huganum? Er það einhver skuggamynd hið innra? Það hvernig við horfum og þar með skilgreinum Jesú Krist er jafnframt vísbending um trú eða trúarvitund okkar og guðsmynd. Er hann þér nálægur sem vinur eða kannski eins og björgunarmaður á vegum Landsbjargar, góður í neyðartilvikum en best að þurfa sem minnst af honum að segja! Er þessi upphafsmaður kristninnar eins og Jón Sigurðsson, fallegur á blaði og því hæfur til eftirprentunar, ef ekki upp á vegg þá alla vega á sögubækur og safn. En er ekki slíkt bara arfur, glansmynd úr fortíð?

Virkni og sjálf En þá er komið af “virkja og treysta” þættinum. Hvar komum við sjálf við sögu, viljum við virkja okkur og treysta til að nálgast Jesúmálið. Jesús Kristur er ekki einkamál prestanna heldur varðar okkur öll. Engin ein kenning um Jesú hefur einkarétt á heiminum. Jesús Kristur er meiri en svo að við tæmum skilgreiningu hans með nokkrum orðum og hugtökum. Kristnin er ekki einsýn og einhæf hvorki í Jesúfræði sinni né nokkrum kenningum og störfum sínum.

Unglingaplakatið sagði: Jesús Kristur eftirlýstur. Á öllum tímum hafa menn lýst eftir Jesúsýn og Jesúmynd, sem dugar lifandi fólki, reynt að skilgreina og endurskilgreina eðli, hlutverk og tilgang Jesú Krists. En hverju skipta skilgreiningar, ef þær eru þér bara kenningar, ef þú tengist þeim ekki persónulega. Jesús verður þér einskis virði, ekki annað en ímynd, ef þú hittir hann aldrei. Í því er hið mikilvæga fólgið, að samband við Jesú getur ekki lifað aðeins með fréttaflutningi eða fjarfundum. Trú er málefni hins innra, persónunnar. Trúrækt er samtal, þjónusta og samfélag.

Enginn verður áhugasamur trúmaður nema sjálfið verði virkjað. Ég get útlistað fyrir þér kenningar um Jesú en það hjálpar þér ekki til að kynnast honum. Ég get sýnt þér fjölda mynda úr af honum en þú ert engu bættari ef engin myndanna rímar við þína eigin upplifun. Þannig er með Jesúmyndina, þú mátt leggja til hennar. Þinn innri maður lýsir eftir Jesú, Jesús lýsir eftir persónu þinni.

Hinn eftirlýsti og upplýsandi Kristur Á plakatinu sem var prentað fyrir Neskirkju á sínum tíma var mynd af Jesú Kristi. Það var felumynd, sem varð ekki sýnileg eða augljós nema fólk horfði með eftirtekt. Myndin á sér þá sögu, að ljósmyndari hljóp út í vorið og var að hugsa um Guð og eigið líf. Hann var að vinna verkefni um hvernig veturinn missir tak og sól og hiti bræða frerann og lífið sprettur fram. Þegar hann framkallaði filmuna sá hann allt í einu hvernig snjóskaflar og jarðvegur mynduðu mannshöfuð í líkingu rómantískra Jesúmynda. Ljósmyndaranum varð mikið um, hann skildi hinn himneska húmor og boðskap. Ljósið að handan lýsti upp jörð, filmu og hans eigið líf. Hann var í ljósför sjálfur, en uppgötvaði svo að hann sjálfur var upplýstur og framkallaður.

Sjáum vel, sjáum fólk, virkjum og treystum. Leyfum kirkjulífinu að blómstra með fólki sem vill starfa og gleðjumst yfir að boðskapur Jesú virkjar fólk í þágu góðra verka í samfélaginu. Leyfum okkur að sjá Jesú með okkar augum og túlka veru hans. Hann lifnar ekki í lífi okkar nema við sjáum, tökum okkar mynd, leggjum í hana og túlkum. En á okkur er horft með elskuaugum. Lærum að sjá veröldina með þeim augum líka. “Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.”

Amen

Hugleiðing flutt í Neskirkju, 3. sunnudag eftir páska. 12. apríl, 2008.

Lexía: Jes 43.16-19 Svo segir Drottinn sem lagði veg yfir hafið og braut yfir hin ströngu vötn, hann sem leiddi út vagna og hesta ásamt öflugum her en þeir liggja kyrrir og rísa ekki aftur, þeir kulnuðu út eins og hörkveikur. Minnist hvorki hins liðna né hugleiðið það sem var. Nú hef ég nýtt fyrir stafni, nú þegar vottar fyrir því, sjáið þér það ekki? Ég geri veg um eyðimörkina og fljót í auðninni.

Pistill: Heb 13.12-16 Þess vegna leið Jesús fyrir utan hliðið, til þess að hann helgaði lýðinn með blóði sínu. Göngum því til hans út fyrir herbúðirnar og berum vanvirðu hans. Því að hér höfum við ekki borg er stendur heldur leitum við hinnar komandi. Með hjálp Jesú skulum við því án afláts færa Guði lofgjörðarfórn, ávöxt vara er játa nafn hans. En gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.

Guðspjall: Jóh 16.16-23 Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.“ Þá sögðu nokkrir lærisveina hans sín á milli: „Hvað er hann að segja við okkur: Innan skamms sjáið þér mig ekki og aftur innan skamms munuð þér sjá mig, og: Ég fer til föðurins?“ Lærisveinarnir spurðu: „Hvað merkir þetta: Innan skamms? Við vitum ekki hvað hann er að fara.“ Jesús vissi að þeir vildu spyrja hann og sagði við þá: „Eruð þér að spyrjast á um það að ég sagði: Innan skamms sjáið þér mig ekki og aftur innan skamms munuð þér sjá mig? Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð gráta og kveina en heimurinn mun fagna. Þér munuð hryggjast en hryggð yðar mun snúast í fögnuð. Þegar konan fæðir er hún í nauð því stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því að maður er í heiminn borinn. Eins eruð þér nú hryggir en ég mun sjá yður aftur og hjarta yðar mun fagna og enginn tekur fögnuð yðar frá yður. Á þeim degi munuð þér ekki spyrja mig neins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður.