Prestur í 30 ár

Prestur í 30 ár

Í dag 12. júní árið 2013 eru nákvæmlega 30 ár síðan ég vígðist til prests í Dómkirkjunni í Reykjavík. Ég horfi um öxl, en ég horfi líka fram á veginn bjartsýn fyrir hönd kirkjunnar eins og ég hef alltaf verið.

Í dag 12. júní árið 2013 eru nákvæmlega 30 ár síðan ég vígðist til prests í Dómkirkjunni í Reykjavík. Þá lagði herra Pétur Sigurgeirsson heitinn ásamt vígsluvottum hönd á höfuð mér og eftir það var ég orðinn prestur. Ég hélt samt áfram að vera ég sjálf og engin umbreyting varð á mér sem manneskju. Samt var allt breytt. Ég var að hefja krefjandi starf sem prestur í Þjóðkirkjunni og þar hef ég starfað allar götur síðan.

Þessi dagur fyrir 30 árum var sólríkur, en kaldur. Með mér vígðust sr. Flóki Kristinsson sóknarprestur á Hvanneyri og sr. Bjarni Th. Rögnvaldsson, sem hefur látið af störfum. Eftir vígsluna í Dómkirkjunni buðu foreldrar mínir fjölskyldu, vinum og vígsluvottum til hádegisverðar á Reynistað.

Um kvöldið buðu herra Pétur og frú Sólveig nafna mín gestum í kvöldverð heim í biskupsgarð. Allt var þetta ógleymanlegt og dásamlegt. Ég held að aldrei hvorki fyrr né síðar hafi verið sagt eins oft við mig og þennan dag: Guð blessi þig.

Og það hefur svo sannarlega Guð gert. Guð hefur blessað mig óendanlega mikið í starfi mínu. Ég hef þurft að ganga erfið spor og gleðispor með sóknarbörnum mínum í borg og í sveit. Ég hef alltaf fundið fyrir nærveru Guðs og blessun við það allt saman. Ég hef fundið mig veika og ég hef fundið mig sterka, en án Guðs hefði ég ekki gert neitt.

Mér þykir óendanlega vænt um kirkjuna mina. Henni hef ég helgað líf mitt. Stundum finnst mér ég hafa helgað henni allt líf mitt þannig að ég hef oft vanrækt fjölskyldi mina og látið starfið ganga fyrir. Prestsstarfið er nefnilega ekki eins og önnur störf þar sem við förum í vinnuna og förum úr vinnunni. Við fáum það oft á tilfinninguna að við séum alltaf í vinnunni. Ég var búin að vera prestur í mörg ár, ég man ekki hvað mörg, þegar ég áttaði mig á mikilvægi þess að gera greinarmun á þessu og læra að takmarka mig. Samt á ég ennþá svolítið erfitt með það.

Þegar ég horfi yfir farinn veg og hugsa: Hvað er það mikilvægasta sem ég hef gert á þessum 30 árum, þá þarf ég ekki að hugsa mig um. Allra, allra mikilvægasta starf prestsins er barna- og unglingastarf. Alls staðar hef ég lagt höfuðáherslu á það, í Bústaðakirkju, Seltjarnarneskirkju og á Möðruvöllum.

Og nú þegar ég er komin til Hóla og hef tækifæri til að tala í söfnuðum víða um norður- og austurland þreytist ég ekki á því að tala um mikilvægi þessa starfs. Á þessu sviði á fagmennska okkar að njóta sín best.

Í dag 12. júní árið 2013 horfi ég um öxl, en ég horfi líka fram á veginn bjartsýn fyrir hönd kirkjunnar eins og ég hef alltaf verið.