Að mæta hinu ókomna

Að mæta hinu ókomna

Upphafsreitur nýs árs er tilefni til að mæta hinu ókomna. Og leiðum við mörg hugann að börnunum. Í gamla daga þegar skopteiknarinn Sigmúnd skreytti forsíðu Moggans þá dró hann upp mynd af smábarni með borða um axlirnar þar sem á stóð hið nýja ártal. Við hlið þess var öldungur með hið liðna.

Ég rifja þessa sögu oft upp og þá einkum á dögum sem þessum þegar skyndilega hlánar og stöðuvötn myndast á götum og gangstígum.


Pollur


Eitt sinn var ég á gangi með dótturdóttur minni í svona úrhellisrigningu, hérna í Vesturbænum. Hún var nýfarin að ganga og hluta af þessum labbitúr hafði hún hvílt í fangi mínu. Hún tiplaði svo smáum fótum þess á milli. Sjálfur var ég orðinn langeygur eftir að komast í skjól en satt að segja þá miðaði okkur lítið áfram. En þá skyndilega nam hún staðar og horfði hugfangin á það sem fyrir augun bar. Þetta var pollur, af stærri gerðinni. Loks þegar hún fékkst til að hreyfa sig þá á leiðin beint út í þennan myndarlega drullupoll og þar hoppaði hún sigri hrósandi.

 

Já, hvað hafði ég séð þá marga – þessa moldargráu polla á hálfri öld? Engin leið er að kasta tölu á þann fjölda. En fyrir henni var þetta ævintýri líkast að geta öslað út í vatnið, heyrt skvampið og fundið hvernig smáir fætur hennar gátu svett vökvanum í allar áttir.


Barnið og furðan

 

Hér erum við jú komin að nokkru sem tengist mjög þessum degi – og þá á ég ekki aðeins við veðrið sem heilsaði okkur nú áðan, þegar við yfirgáfum heimili okkar. Barnið minnti mig á þessa tilfinningu sem dofnar svo mjög þegar árin líða, nefnilega undrunina, hæfileikann að verða dolfallin yfir einhverju því sem lífið færir okkur.

 

Og þannig er það líka, að oft þegar ég hef í gegnum tíðina sest niður við tölvuna og búið mig undir að skrifa nýárspredikun að mér hefur fundist eitthvað hálf óraunverulegt við að setja nýtt ártal.

 

Stundum hef ég lagt út af því sú tala hefur myndað einhverja samfellu, í henni hefur leynst hrynjandi – allt jafnar tölur eða að þversumman kemur vel út. Þannig gaspraði ég um það á sínum tíma að árið 2008 yrði örugglega farsælt. Ég hældi ártalinu 2020 í hástert enda einkar fögur tala. Eins og við vitum þá boðaði nýárssólin ekki eintóma hamingju á þeim herrans árum.

 

En 2024 finnst mér framandlegt, að við skulum vera uppi á þessum tímum sem hafa fyrir löngu siglt fram úr ártölum sem höfundar fyrri tíma notuðu í framtíðar- og vísindaskáldskap sinn. Svo fer fyrir því eins og öðru, að það sem í fyrstunni er nýstárlegt verður hversdeginum að bráð. Senn hripar maður það niður í hugsunarleysi vanans og veltir því ekki meira fyrir sér.


Að þroska af sér furðuna


„Tíminn líður hratt“ sungu þau eitt sinn og fylltu okkur hin eftirvæntingu um glæsta sigra. Raunin varð þó önnur. Sú vitund greypist smám saman inn í sálina og við verðum tortryggin, hikandi og eigum jafnvel von á hinu versta. Þannig vill stundum eftirvæntingin mengast af slíkum fyrirvörum, gleðin óhreinkast af þeim ugg að hún hljóti um síðir að taka enda.

 

Já, ferskleiki hins nýja árs er brothætt hugarástand. Árin og þetta sem við köllum þroska, fyllir okkur að alls kyns fyrirvörum og ugg sem dregur úr eftirvæntingunni. Við sjáum fyrir okkur nýfallinn snjó en bíðum þess eins að leirbrúnir farvegir bílanna risti rákir í hann þveran og endulangan.

 

Einmitt þetta – aldurinn gerir okkur að efasemdarfólki. Það eru einmitt þær kenndir sem við lesum um í guðspjalli þessa dags – þar sem margir fóru að trúa á Jesú en hann gaf þeim ekki öllum trúnað sinn, því hann vissi hvað bjó þar að baki. Já, hér lesum við einmitt um þennan fyrirvara sem kemur af því sem reynsla okkar af heiminum færir okkur.


Samlíðun

 

Jesús, í meðförum guðspjallamannsins vissi hvað átti eftir að bíða hans. Ljómi jólaguðspjallsins fölnaði líka fljótt og við tóku tímar ofsókna og svo krossfestingar. Þannig verður sögusviðið okkur öllum áminning um það að sannarlega er á öllu von í lífi okkar sem og í hinu stóra samhengi. Þjáningar systkina okkar eiga að vera okkar þjáningar. Þessi saga minnir okkur á listina að sýna hluttekningu, setja okkur í spor annarra.

 

Þær kenndir eru þó jafn brothættar og gleðin sem mætir okkur andspænis því sem er nýtt og framandlegt, hvort heldur það er ártal eða bleyta sem hefur safnast saman í einhverja dæld á leið okkar. Við getum líka orðið ónæm fyrir því sem aflaga fer í henni veröld þegar við fáum daglega fréttir af óréttlæti, styrjöldum, hamförum í náttúrunni.

 

Já nú á dögunum sá ég lista yfir þær fuglategundir sem líffræðingar telja að hafi orðið útdauðar á þessu ári. Þeirri upptalningu fylgdu myndir af litríkum fuglunum, en ef marka má fréttina er veröldin fátækari að þeirri líffræðilegu fjölbreytni og ekki sér fyrir endann á því.

 

Og við, dettum niður í gráan drunga vanans. Yppum öxlum og spyrjum hvað við getum gert í þessu. Ofan á það dynur á okkur síbyljan, þar sem hver vökustund er vöktuð af myndskeiðum og tónum svo að við förum nú örugglega ekki að brjóta okkur leið undan fargi afþreygingarinnar.


Áttadagur jóla

 

Gleðilegt ár segjum við og finnum jafnvel fiðring í maganum, ekki síst ef við nefnum ártalið svo nýtt og framandlegt sem það er.

 

Og þegar nýja árið gengur í garð hér á Íslandi standa jólin enn yfir. Það er þessi hátíð sem við kennum jú stundum við börnin.

 

Já, við treinum okkur jólin í þessa þrettán daga og erum því rétt rúmlega hálfnuð. Nýársdagur er hinn svo nefndi áttadagur jóla sem merkir einfaldlega að hann sá áttundi í jólum. Hér erum við vissulega stödd í mikilli flækju hátíðar- og tyllidaga sem hafa verið með ýmsu móti í gegnum tíðina. En hér stöndum við á þessum tímum og horfum til framtíðar.

 

Upphafsreitur nýs árs er tilefni til að mæta hinu ókomna. Og leiðum við mörg hugann að börnunum. Í gamla daga þegar skopteiknarinn Sigmúnd skreytti forsíðu Moggans þá dró hann upp mynd af smábarni með borða um axlirnar þar sem á stóð hið nýja ártal. Við hlið þess var öldungur með hið liðna.

 

Það endurspeglar jú í senn væntingarnar til nýja árs, hversu brothætt gæfan er – börn eru jú varnarlítil í hörðum heimi – en mögulega er það mikilvægasta: nefnilega þetta að hafa hæfileikann til að vera undrandi, furðulostin yfir þeim viðburðum sem hin eldri og reyndari taka með öllum fyrirvörum. Tilfinningarnar eru ekki faldar undir lögum af reynslu, tortryggni og vana. Þar getum við lært af þeim sem eiga að taka við þessum heimi af okkur.


Lykill að lærdómi

 

Já, þessi tiltekni pollur vakti jú gerólíkar kenndir með okkur. Hann er bara einn af óteljandi sem hafa orðið á leið minni, en í hennar tilviki var hann töfrum líkastur og ég gat gleymt því að við værum að fara heim á leið alveg í bráð.

 

Furðan og undrunin tengist því sem er nýtt og framandlegt. Við ættum að losa okkur undan þessu siggi sem sest á sálina, því sem gerir okkur tornæm eða jafnvel ónæm fyrir þessum mögnuðu kenndum og um leið deyfir þessar dýrmætu tilfinningar mennskunnar sem er hluttekningin, samlíðunin.

 

Undrunin er jú lykill að lærdómi, nýrri reynslu, hún hvetur okkur til að taka áhættu, færa fórnir. Það er mikilsvert að glata henni ekki niður.

 

Tökum því á móti nýju ári með þá hugsun að leiðarljósi. Látum það verða okkur hugstætt að umfaðma lífið og veröldina, bæði fegurð hennar og þær dekkri hliðar hennar sem við þurfum að vinna gegn og breyta.