Nú á dögunum tók útvarpsmaður viðtal við konu sem hafði þurft að flýja heimili sitt í Grindavík. Hún var á leið í Hallgrímskirkju þar sem fram fór helgistund. Hún hafði það þó á orði að hún væri lítill aðdáandi þessa Guðs kristninnar sem hefur völdin í hendi sér og hefði nú svipt fótunum undir tilveru hennar og annarra bæjarbúa.
Að steyta hnefann
Ekki álasa ég þessari konu. Hún er ein þeirra ótalmörgu sem hafa í gegnum söguna steytt hnefann upp til himins og harmað hlutskipti sitt. Enn aðrir hafa sjálfir nuddað salti í sárin og velt því fyrir sér hvaða ódæði þeir kunni að hafa framið sem verðskuldi þær hörmungar sem þeir hafa mætt.
Að baki býr þessi ráðgáta um böl heimsins og allt það ólán sem hent getur saklaust og heiðvirt fólk. Einu gildir hverrar trúar við erum, það er eins og við höfum í taugakerfinu hugmynd um að lífið hljóti að vera sanngjarnt. Nútíminn í allri sinni andlegu mósaík talar hiklaust um „karma“ já, „karmað lætur ekki að sér hæða. Þarna fékk hann makleg málagjöld“ Einmitt það, einhver illskuverk höfðu þær afleiðingar að kosmískt réttlætið lét mikla ógæfu skella á viðkomandi.
Þetta er meðal þeirra spurninga sem við berum undir fermingarbörnin. Þau hafa auðvitað sínar skoðanir á þessum málum og við okkar. Við deilum með þeim okkar sjónarmiðum. Við drögum nefnilega þann lærdóm af lífinu, rétt eins og hinir mörgu höfundar bóka Biblíunnar, að þetta sé sannarlega ekki með þessum hætti. „Karma“ er bara hugtak sem við grípum til þegar við reynum að fá einhvern botn í tilveruna. Vandinn er bara sá að stundum virðist hún vera botnlaus þegar við reynum að skilja hana og setja í röklegt samhengi.
Við fálmum stundum út fyrir þau mörk sem okkur eru sett – seilumst þangað þar sem við höfum hvorki skilning né áhrif. Við reynum að skilja og túlka það sem stendur handan okkar skilnings.
Og þetta getur haft slæmar afleiðingar. Því ef við skoðum það nánar þá leynist að baki þessari hugmynd harla grimm afstaða til þolenda. Ofan á þær þrautir sem lagðar eru á fólk, bætist við einhvers konar samviskukvöl þar sem manneskjan er plöguð yfir því að hafa mögulega gert einhverja yfirsjón. Þarna nuddum við semsagt salti í sárin.
Jú, vissulega líta margir svo á að það einmitt góð og gegn trú að halda því fram að allt sé verðskuldað – að ofar okkur tróni dómari sem lætur blessun í té þeim sem hegða sér vel en refsar öllum hinum. En svarið við þeirri hugmynd birtist úr óvæntri átt – nefnilega af síðum Biblíunnar.
Þar getum við jú lesið harða andstöðu við slíkar hugmyndir og þær birtast með margvíslegum hætti. Einhverju sinni komu menn með blindfæddan mann til Jesú – já maður þessi hafði fæðst blindur. Og þeir spurðu hann í anda þessarar hugsunar hvaða syndir það gætu hafa verið sem leiddu til þess að hvítvoðungur kom í heiminn án þess að geta séð. Varla var það synd hins nýfædda – en var það þá ekki bara föður hans eða móður að kenna? Um leið og sú ásakandi spurning er borin fram getum við ímyndaði okkur þjáningar foreldranna.
En Jesús svaraði á þann hátt að hvorugt væri rétt. Við ættum að túlka veikindi mannsins á annan hátt. Fötlun hans væri prófsteinn á siðferði þeirra sem geta séð og starfað óhindrað. Já, ekkert gefur betri mynd af samfélagi en það hvernig það hlúir að sínum minnstu systkinum, þeim sem þurfa hvað mest á hjálp að halda. Þarna fékk þjáningin siðferðilegt gildi – hún kallar fram í okkur tilganginn. Markmiðið í líf hverrar manneskju er að verða þeim að liði sem standa höllum fæti.
Hér áðan hlýddum við á lestur úr þessari bók í Gamla testamentinu sem fjallar um raunamanninn Job. Þegar þarna kemur sögu hefur sögupersónan glatað öllu, fjölskyldu, heilsu og eignum. Hann stendur eftir þakinn sárum og í þungu áfalli. Þá fær hann vini sína í heimsókn. Fyrst sitja þeir með honum um langa hríð í þögn, en svo tekur hún völdin þessi hugsun sem hér hefur verið lýst. Þeir reyna að setja þjáningar Jobs í það samhengi sem þeir þekkja:
Hugleiddu hvort saklausum hafi verið grandað, hvar réttlátum hafi verið eytt.
Það hef ég séð.
Þeir sem plægðu illsku og sáðu böli
hafa uppskorið samkvæmt því,
þeir hurfu fyrir andgusti Guðs,
fyrir reiðiblæstri hans urðu þeir að engu.
Með öðrum orðum: Þú hlýtur að hafa gert eitthvað illt, sáð illgresi vonsku og óréttlætis fyrst uppskeran er svo hörmuleg.
Þetta er í sjálfu sér ákveðin gerð af guðhræðslu – ef Guð er réttlátur þá hlýtur að vera einhver skýring á þessum óförum. En svar Jobs minnir á hróp konunnar frá Grindavík sem formælti hlutskipti sínu. Hann hafði ekkert til sakar unnið og það kemur líka skýrt fram í inngangi sögunnar þar sem hann er kynntur til leiks: Job var réttlátur maður og grandvar. Boðskapurinn þessarar frásagnar er einmitt sá að hin rétttrúaða afstaða um makleg málagjöld, er harðlega gagnrýnd.
Biblían gefur okkur ekki svart hvíta mynd af tilverunni. Þessi trú sem mætir okkur á síðum ritningarinnar er þvert á móti full af átökum, já glímu mannsins við tilveru sína og tilvist. Job rífst við Guð, kvartar hástöfum undan hlutskipti sínu og því óréttæti sem hann má þola. Hann samþykkir aldrei rök vina sinna sem reyna að finna einhverja vitræna skýringu á óförum hans.
Niðurstaðan verður einmitt sú. Lífið er stundum ólgandi óreiða sem við fáum engan botn í. Drottinn getur verið fjarlægur og þó ekki. Sagan er þrátt fyrir allt þetta samtal manns við Guð sinn. Þetta samtal eykur ekki endilega þekkingu okkar á Guði en eins og öll viðleitni okkar til að koma orðum að tilfinningum okkar og líðan þá hjálpar hún okkur að skilja aðstæðurnar, okkur sjálf.
Þetta samtal sjáum við í svo margvíslegri mynd: Fólk sinnir sínum störfum í byggðarlagi við suðurströndina, mætir til vinnu, smyr nesti handa börnunum, setur fötin í þvott og þurrkarann – hefur áhyggjur og umhyggju, svona eins og gengur og gerist. Í einni andrá er það orðið að flóttafólki í eigin landi. Fær að hlaupa inn á heimilið til að bjarga helstu verðmætum undir eftirliti embættismanna með skeiðklukku í hendi. Er eitthvert réttlæti í þessu? Svo ekki sé talað um fólkið á ófriðarsvæðum sem syrgir ástvini og horfir upp á aleigu sína fuðra upp eftir sprengjuárásir.
Hvar er Guð í þessum hildarleikjum?
Sagan um Job er saga þessa fólks. Hún birtir okkur mynd af því þegar manneskjan hrópar út í tómið og reynir að fá einhvern skilning í óréttláta tilveruna. Hann hrópaði á Guð eins og konan í Grindavík gerði, eins og fólkið í Úrkaínu, aðstandendur þeirra sem myrt voru á Nova tónlistarhátíðinni í Ísrael, fólkið á Gaza.
Óréttlætið birtist okkur í svo margvíslegri mynd. Og sumt er okkur um megn, við getum ekki skilið allt eða breytt öllu. Það er þó ekki þar með sagt að hendur okkur séu bundnar, þvert á móti.
Gildin standa fyrir sínu
Biblían miðlar til okkar þeim boðskap að ákveðin gildi standi óhögguð, algjörlega sönn og rétt hvernig sem við lítum á þau og hvaða örlög sem við kunnum að hljóta í lífinu. Réttlætið er alltaf markmið okkar, ekki til þess að við fáum verðlaun, heldur skiptir það máli alls óháð öllu öðru.
Það sama á við um heiðarleika, umhyggju fyrir öðrum, ástina til náungans, allt það sem við gerum til að bæta líf fólks, hlúa að börnum og komandi kynslóðum, já mæta þörfum þeirra sem búa við skert kjör eins og blindfædda mannsins í sögunni – í þessum efnum erum við ekki að leita viðurkenningar fyrir hugsjónir okkar og framtak. Því þarna leynist hvorki meira né minna en tilgangur hverrar manneskju.