Gráar hærur eru heiðurskóróna

Gráar hærur eru heiðurskóróna

Trúfesti Guðs við þau sem bera kórónu hinna hvítu hára og nærvera hans í blíðu og stríðu hefur fylgt þessu ágæta fólki á langri ævi þeirra.

Og hann sagði við þau: „Meðan ég var enn meðal ykkar sagði ég ykkur: Allt sem ritað er um mig í lögmáli Móse, spámönnunum og sálmunum á að rætast.“ Síðan lauk hann upp huga þeirra að þau skildu ritningarnar. Og hann sagði við þau: „Svo er skrifað að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum að taka sinnaskiptum og þiggja fyrirgefningu synda og hefja það í Jerúsalem. Þið eruð vottar þessa. Ég sendi ykkur andann sem faðir minn hét ykkur en verið kyrr í borginni uns þið íklæðist krafti frá hæðum.“ Síðan fór hann með þau út í nánd við Betaníu, hóf upp hendur sínar og blessaði þau. En það varð, meðan hann var að blessa þau, að hann skildist frá þeim og var upp numinn til himins. En þau féllu fram og tilbáðu hann og sneru aftur til Jerúsalem með miklum fögnuði. Og þau voru stöðugt í helgidóminum og lofuðu Guð. Lúk 24.44-53

Við skulum biðja. Þitt blessað ljósið lýsi mér svo lifi ég og fylgi þér á vísdóms vegi sönnum, en auk mér þroska, dyggð og dáð svo dafni ég í Jesú náð hjá Guði og góðum mönnum. (Matthías Jochumson)

Náð sé með ykkur og friður, frá Guði föður okkar og Drottni Jesú Kristi. Amen. Gráar hærur eru heiðurskóróna segir í Orðskviðum Salomons. Í dag minnumst við uppstigningu Jesú Krists og höldum hátíðlegan dag aldraðra í kirkjum landsins, en dagurinn er sérstaklega tileinkaður eldri borgurum og fjölskyldum þeirra. Trúfesti Guðs við þau sem bera kórónu hinna hvítu hára og nærvera hans í blíðu og stríðu hefur fylgt þessu ágæta fólki á langri ævi þeirra. Þau settu sitt traust á Skapara sinn og komust í gegnum þrengingar þeirra tíma með ótrúlegri þrautsegju og Guðs styrku hendi. Samband Guðs við manneskjuna hefur einkennst af kærleika hans og festu í garð barna sinna sem opinberast í náðarverkum hans sem veitti kynslóðinni öryggi og von.

Það er mikilvægt að við áttum okkur á því að þetta er sú kynslóð sem sáði í akurinn sem við í dag fáum að uppskera. Grundvöllur velferðar okkar yngri kynslóðanna byggist á erfiði hinnar eldri. Viska þeirra og reynsla hefur rutt okkur hinum brautina. Vinna hinna eldri, miðaði að því að bæta kjör komandi kynslóða. Skyldur hinna yngri við lífið eru þær að gleyma ekki þeim sem lögðu grunninn að velferð þessa lands.

Hér á árum áður kenndi ég íslensku í 3.bekk grunnskóla og kenndi m.a. námsefni sem heitir Ísland áður fyrr. Kennsluefnið er ítarleg lýsing á lifnaðarháttum, hýbýlum og störfum í íslensku bændasamfélagi fyrir og um aldamótin 1900. Þegar nemendur mínir og ég vorum búin að fara yfir námsefnið enduðum við á heimsókn í Árbæjarsafnið þar sem kona frá safninu fór yfir hin ýmsu húsakynni og störf þess tíma. Mér er það minnisstætt að við vorum stödd í gamla fjósinu í safninu þegar einn nemandi minn togaði í peysuna mína og hvíslaði að mér og sagði: ,,Auður, ég trúi ekki á Íslands áður fyrr!” Svo ótrúlegir voru lífshættir þess tíma að nútímabarn gat engan veginn skilið hvernig hægt var að lifa við svo kröpp kjör sem raun bar vitni. Kynslóðin varð að vinna myrkranna á milli til þess að að geta komið börnum sínum á legg og féll aldrei verk úr hendi. Atvinnuleysi var mikið hér á landi fyrir stríð og ekkert var velferðakerfið. Verkalýðsbaráttan var ekki búin að slíta barnsskónum og því voru kjör almennings afar slæm. Marga munna þurfti að seðja enda heimilin oft stór og barnmörg. Börnin farin að hjálpa til heima og ung voru þau farin að bera mikla ábyrgð. Fátæktin,kuldinn, myrkrið og hungrið voru yfirþyrfmandi og erfitt fyrir okkkur að skilja í dag. Þetta er kynslóðin sem kom af moldargólfi á marmara eins og einn maður hafði á orði um sína kynslóð og lýsir vel þeim gífurlegu breytingum sem urðu á lífsháttum hennar.

Á nýafstaðinni prestastefnu talaði biskup Íslands um þann mannauð sem við ættum í eldri borgurum landsins og sýndi því mikinn áhuga að fá þau sem hættir eru störfum til liðs við kirkjuna. Við sem erum uppkomin vitum hvílík viska og reynsla felst í eldri kynslóðinni. Mörg okkar lærðu bænir og sálmavers hjá ömmum okkar og öfum. Hefur svo verið í mörg hundruð ár að ömmur og afar til sjávar og sveita hafa sinnt trúaruppeldi barnabarna sinna. Um aldir hefur eldra fólkið sinnt ákveðinni barnafræðslu, sagt börnum sögur og gefið sér tíma til að sinna yngstu kynslóðinni. Gamlar sögur hafa gengið mann frá manni, fyrir tilstuðlan eldra fólksins og þannig hefur þessi þjóð geymt gersemar sínar.

Enn í dag koma ömmur og afar til sögunnar og uppfræða barnabörnin um gamla tíma og sjálf á ég margar slíkar í farteskinu sem ég sé eftir að hafa ekki skráð. Sögur sem svarar spurningunni um hver við erum. Sögurnar eru lykillinn að okkur sjálfum. Þessi kynslóð sem við heiðrum hér í dag er hafsjór af fróðleik sem við yngra fólk ættum að viða að okkur.

Það er ekki úr vegi að biðja eldra fólkið sem hætt er að vinna að kenna börnum okkar þá trúarlegu siði sem hafa fylgt þjóðinni í árhundruð eins og siðinn að signa börn áður en þau eru klædd í hreinan bol. Mín kynslóð sem eltist við tímaskort, ætti að biðja þau sem lifa á líðandi stundu að biðja fyrir þeim, sem telja sig of önnum kafin til þess. Jonathan Swift sagði: ,,Fæstir lifa í dag- flestir eru að búa sig undir að lifa á morgun.”

Það er einstaklega gefandi að vinna með öldruðum því þau kenna okkur að þakka hvern þann dag sem okkur er gefinn. Gildismat þeirra og áherslur eru önnur en við hin yngri höfum í lífinu.

Enginn verður hamingjusamur nema hann sé þakklátur. Kynslóðin sem við heiðrum í dag hefur unnið hörðum höndum alla ævi. Hún er þakklát, nægjusöm og kann að höndla hamingjuna. Öldungarnir í dag eru ekki þeir einstaklingar sem hafa eitt þjóðararfinum. Erlendar lántökur þjóðarinnar undanfarin ár eru ekki vegna eyðslu þessarar kynslóðar. Þetta er fólkið sem kann að fara með peninga og eyðir ekki um efni fram. Þau taka ekki lán og kaupa fyrir peninga sem eru ekki til og segir svo, ,, Þetta reddast allt saman.” Nei, þetta er fólk fyrirhyggjunnar, nýtninnar og sparseminnar sem við yngri kynslóðir ættum að taka okkur til fyrirmyndar.

Hallgrímur Pétursson orti í heilræðavínsum sínum:

Foreldrum þínum þéna að dyggð það mun gæfu veita, varast þeim að veita styggð viljirðu gott barn heita.

Heilræði er eitthvað sem er gott að fara eftir, eitthvað sem gott er að læra og gott veganesti út í lífið. Eins og fjórða boðorðið sem segir: Heiðra föður þinn og móður þína, svo að þú verðir langlífur í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér. Við eigum ekki einungis að heiðra okkar eigin foreldra, heldur einnig þau sem eldri eru. Boðorðið er fjórða í röðinni strax á eftir boðorðunum sem minna okkur á að gleyma ekki skaparanum. Ritskýrendur Biblíunnar segja að mikilvægustu boðorðin komi fyrst. Áherslan er ótvíræð. Hér er ekki áhersla á ungdóm og ungdómsdýrkun, þó svo ungdómurinn eigi að sjálfsögðu skilið skilning og virðingu. Fórnfýsi foreldra okkar er umhugsunar- og þakkarverð.

Það gerðist bara Börnin vöktust og klæddust. Grauturinn eldaðist og átst Það bjóst um rúmið og sópaðist. Þvotturinn þvoðist og hengdist upp. Það gerðist við og stoppaðist í. Það saumaðist og prjónaðist. Tertan bakaðist og borðaðist. Það vaskaðist upp og gekkst frá. Börnin hugguðust og hjúfruðust. Það breiddist yfir þau og þau kysstust góða nótt. Þegar þau voru spurð: hvað gerir mamma þín? urðu þau undirleit og svöruðu lágt: Ekkert, hún er bara heima. (Ellimálaráð)

Ljóðið, sem samið er fyrir Ellimálaráð er lýsand dæmi fyrir allt það sem þakka ber. Þeir sem eldri eru hafa átt sínar væntingar og drauma og vita best, að lífið fer öðruvísi en við ætlum eða eins og Sigurður Nordal sagði: ,, Sjaldan verður ósinn eins og uppsprettuna dreymir.” Þeir sem komnir eru af léttasta skeiði hafa ákveðna sögu að segja og af reynslu að miðla.

Þessi kynslóð hefur vissulega skilað sínu til samfélagsins, bæði í sköttum og skyldum og eiga því skilið að dagsverki loknu að uppskera ávöxt erfiðisins. Stöðugt er þrengt að öldruðum með niðurskurði og hagur þeirra skertur. Stjórnvöld sníða öldruðum mun þrengri stakk heldur en talist getur mannsæmandi í nútímaþjóðfélagi og er það áhyggjuefni. Kynslóð fyrirhyggjunnar og sparseminnar á betra skilið.

Kynslóðin sem við heiðrum í dag hefur í áföllum lífsins sett traust sitt á Jesú Krist og komið heil út úr þrengingum sínum. Samfylgd þeirra með Guði sínum gaf þeim von á lífsins erfiðu stundum. Fyrirheit Guðs eru eins og stjörnur - því myrkari sem nóttin er, þeim mun skærara skína þær (David Nicholas).

Jesús var með Guði í upphaf sköpunarinnar en þegar tímar liðu gleymdi maðurinn Guði og snéri sér frá honum. Gjá myndaðist milli skaparans og hins skapaða. Því var það að Jesús steig niður af himni og gerðist maður til þess að leiða manninn aftur til Guðs síns og koma á tengslum milli Guðs og manns. Hann boðaði vilja Guðs og gerði okkur fært að nálgast hann að nýju. Jesús gekk í dauðann til þess að koma á sátt milli Guðs og manna. Skömmu fyrir dauðann sagði hann lærissveinum sínum að hann myndi ekki skilja þá eftir munaðarlausa, heldur myndi hann, þegar hann stigi upp til himins, senda hjálparann, heilagan anda sem styður okkur, styrkir og leiðbeinir í trúnni. Við þökkum fyrir þetta fyrir þetta fyrirheit hér í guðsþjónustunni í dag. Við þökkum einnig fyrir eldri borgara landsins en að vera öldungur er virðingarstaða. Gráar hærur eru heiðurskóróna. Biblían hefur mýmörg dæmi þar sem talað er um öldungana, hina eldri og vitrari. Í 3M (19:32) stendur „Þú skalt standa upp fyrir hinum gráhærða og heiðra gamalmennið, og þú skalt óttast Guð þinn.“ Á degi aldraðra fyllumst við þakklæti, virðingu og auðmýkt fyrir fórnfýsi þeirra og leiðsögn í lífinu.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.