Það er lán í Örláni

Það er lán í Örláni

Einn smellur á músina og Sarin Morn gift 37 ára þriggja barna móðir í Batambong í Kambódíu hefur fengið 25 dollara að láni af þeim 1000 sem hún þarf þarfnast til að kaupa skellinöðru til að flytja meira magn af fiski á markaðinn.
fullname - andlitsmynd Guðni Már Harðarson
11. mars 2011

Kiva

Einn smellur á músina og Sarin Morn gift 37 ára þriggja barna móðir í Batambong í Kambódíu hefur fengið 25 dollara að láni af þeim 1000 sem hún þarf þarfnast til að kaupa skellinöðru til að flytja meira magn af fiski á markaðinn. Vegna örlánsins mun hún geta aflað sér meiri tekna en áður og safnað í sjóð fyrir menntun barnanna. Annar smellur til og 25 dollarar eru lánaðir til Les Vaillants De Romeo Group 15 einstaklinga á Haíti sem ætla að stofna bakarí og matvöruverslun sem vantar í sárlega á Trou-du-nord svæðinu á Haítí. Þau vantar samtals 2600 dollara og eitthundrað aðrir aflögufærir víða um heiminn munu lána þeim 25-50 dollarra hver og hjálpa þannig þessum efnalitla hópi að standa á eigin fótum.

Örlánakerfi Kiva hefur frætt mig um umheiminn, kynnt mér aðstæður og lifnaðarhætti fólks í mörgum löndum sem ég vissi lítið um. Án Kiva hefði ég hvorki vitað af né getað hjálpað flatbrauðsgerð 56 ára gamallar ekju í Tatjkitstan, lært um og styrkt 28ára járnsmið í Líbanon til kaupa á brýni, vitað af hópi fólks sem vildi byrja með saumastofu í Afganistan, Mothers blessing group sem hefur stofnað veitingastað í Liberu eða áttað mig á því að frystikistukaup gætu bjargað lifibrauði einstæðrar móður og smásala í Nígeríu.

Örlánin eru veitt í gegnum heimasíðuna www.kiva.org sem sérhæfir sig í örlánastarfssemi. Lánin eru unnin í samvinnu við hjálparsamtök víða um veröldina. Hjálparsamtökin taka við umsóknum, ráðleggja við áætlanir, taka myndir af umsækjendum, skrifa um aðstæður þeirra og ástæður lánaþurftar, gera raunhæft endurgreiðsluplan og sjá um að greiða peninganna til baka inná Kiva-reikning þess sem lánaði.

Örlánið verður mjög persónulegt þar sem myndir og greinargóðar upplýsingar fylgja hverju láni sem fólk velur sér og þannig skapast gagnvirkni. Ekki er óalgengt að um 20-200 lánendur séu að baki hverju láni og hafa lánþegar lýst því yfir að það sé þeim hvatning að vita af fjölþjóðlegum hópi sem sem hafi valið að styðja einmitt þau.

Í gegnum þessa persónulegu nálgun verður til aukinn hvati lánþega til að annars vegar standa í skilum og hins vegar til að að lána síðar áfram til annarra þegar hagurinn vænkast. 98.95% lánanna skila sér tilbaka og afskriftir því óverulegar, endurgreiðsluna geta lánendur í gegnum Kiva.org vitanlega notað til að lána áfram í önnur valfrjáls verkefni eða fá peningin greiddan tilbaka og ráðstafa honum til eigin nota eins og gildir með önnur lán.

Kiva er hlutlaus þegar kemur að trúmálum, þar lána í raun allir öllum. Sjálfur heyrði ég af vefsíðunni frá góðum vini mínum sem er djákni og síðar á GLS á Íslandi eða Global leadership summit, sem er árleg ráðstefna haldin víða um heim fyrir kristna leiðtoga.

Það er hins vegar í trú minni og helgri bók sem ég finn hvatninguna til að stunda styðja við hjálparstarf. Það er ekki margt sem Biblían undirstrikar jafnoft og mikilvægi þess að standa með og styðja fátæka. Kristur segir að okkar minnstu bræður og systur beri okkur að meðhöndla eins Guð sjálfur sé á ferð. Jesaja spámaður brýnir okkur í að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjáls hin hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok, það er, að miðla hinum hungruðu af brauði okkar, klæða klæðalaus, hýsa bágstödd og hælislaus. Og þó að efnahagsástandið hér heima sé lakara en um tíma, eru vandamál okkar af því tagi að yfirgnæfandi meirihluti jarðarbúa myndi skipta um stöðu við hvern einasta íslending. 93% jarðarbúa eiga til dæmis ekki einkabíl. Enginn á Íslandi deyr úr hungri nema hann hafi ekki haft fyrir því að leita aðstoðar. Það sama verður ekki sagt um rúmlega 30.000 börn sem deyja á hverjum sólarhring vegna sjúkdóma sem auðvelt væri að koma í veg fyrir með næringu og lyfjum. Það gera tæplega 1300 börn á klst, rúmlega 21 barn á mínútu. Með Örlánum má leggja fólki úr nærumhverfi og jafnvel foreldrum þessarra barna lið.

Gleymdu ekki þínum minnsta bróður, hjálpaðu honum að öðlast reisn og getu til að standa á eigin fótum. Það er reynsla mín og tugþúsunda annarra að það er sannarlega Lán í Örláni.