„Ég man þig“

„Ég man þig“

Það er sem að tíminn sem fyrir fáeinum dögum ætlaði að fara fram úr sjálfum sér og skilja okkur eftir hafi skipt um skoðun og kyrrð alls sest að, hinkrað við, beðið eftir okkur, ekki ólíkt snöggum veðrabrigðum sem við könnumst mæta vel við. Loftið mettað eftirvæntingu ungra sem aldna, sætur ilmur fyllir skilningarvit.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
24. desember 2010
Flokkar

Aðfangadagskvöld kl.18.00 Árbæjarkirkja

„Ég man ég þig“

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

I

Um daginn í mitt önnum aðventunnar las ég bókina „Ég man þig“ eftir Yrsu Sigurðardóttur. Ég ætla ekki að fara efnislega í þá bók hér þar sem hún er eflaust sveipuð jólapappír undir einhverju stoltu ljósum prýddu jóltrénu heima í stofu og bókin leyndardómsfull bíður spennt eftir því að vera upplokin af lesanda sem að líkum mun sogast inní atburðarásina þannig að hárin nái að rísa. Ég nefni hana hér í upphafi vegna titils hennar „Ég man þig.“ Jólahátíðin er svo mikið þannig að engin er gleymdur heldur eftir er munað. Við leggjum okkur fram við að hugur hvílir hjá þeim sem við jólaborðið sitja og þeim sem eru burt kallaðir úr veröld þessari. Þess vegna eru jólin eins og viðkvæm brothætt jólakúla þar sem ásjóna liðinna jóla speglast í augum þess sem á lítur. „Ég man þig“ er skálduð saga sem fær ýmindunaraflið til að fara á yfirspinn á meðan lestri stendur og sækir hugan heim þegar síst skyldi eftir lestur bókarinnar. Sagan og örlög sögupersónana situr eftir í huga þannig að brestur í heyrist eins og einhver eða eitthvað sæki mann heim , sem á ættir að rekja í myrkrið. Ég man þig er líka saga okkar - aldrei sem á jólum. Fátt þráir maður meira en ljósið í þeim aðstæðum. Við könnumst við það sem búum hér á norðuhveli jarðar. Þar sem andstæður myrkurs og ljóss takast á í huga teygja okkur og skæla. Það er manneskjunni eðlilegt að segja og hlýða á sögur. Hvernig við tökum þær inn fer auðvitað eftir þroska hvers og eins. Svo að ég ljúki samanburðinum á sögu Yrsu og þeirri hátíð sem við erum kölluð til prúðbúin og „frjálsleg í fasi“ eins og segir í einu laginu; ég hef reyndar aldrei skilið þetta frjálslega fas, en það er allt annað. „Ég man þig“ hennar Yrsu og jólin eiga titilinn einan sameiginlegan því aldrei sem á jólum „Man ég þig.“ Þetta gæti hljómað sem spurning en er það ekki heldur fullyrðing. „Ég man þig.“ Það er ekki hægt að ganga frá henni eða fela sig fyrir henni. Jólin, hátíðin atburðurinn sem við horfum til og erum aldrei nærri en í kvöld, segja nefnilega ég man þig. II Ég hér áður fyrr velti löngum fyrir mér þessari spurningu um hið „frjálslega fas“ einkum á æskuárum mínum. Var reyndar ein jólin mjög upptekinn við það þegar ég komst að því hjá mér eldri systkinum að frjálslegt fas sem um er rætt í laginu væri að mynda hinar ýmsu geiplur og grettur í andliti annars kæmu jólin alls ekki. Þegar þetta tvennt kom saman að vera prúður og frjálslegur í fasi þá var ekki að sekum að leita hver það væri sem færi ekki eftir því hverning jólin ættu að vera-prúðbúin og frjálslegur í fasi vægt til orða tekið. Þegar skoðaðar eru svarhvítar ljósmyndir frá þessum árum æsku minnar má glögglega sjá að ég fór alla leið í að vera prúðbúin í matrósufötum og frjálslegu fasi. Hvert sem fas jólanna kann að vera hér fyrrum og í dag í kvöld og næstu daga. Þá verður ekki á móti mælt að þau muna eftir okkur-jólin og við þeim. Sameiginlega takast jólin og við í hendur og gerum úr þeim það sem við innst inni þráum heitar en annað „Ég man þig“ með því að senda jólakort eða kveðju í útvarpi-jólakveðju að ekki sé talað um jólaboðin og heimsóknir ættingja og vina dagana um jólin. Jólakveðjur eru miklu eldri en okkur hefur órað fyrir eða falla ekki skilaboð engilsins á Betlehemsvöllum undir þá skilgreiningu til fjárhirðanna eða eins og ungur strákur sagði á innsoginu í einni leikskólaheimsókninni í aðventunni hér í kirkjunni því hann vissi sko allveg hver hafði fyrst heyrt að Jesúbarnið væri fætt ;það var nefnilega (...)eftir smá umhugsun „það var sko kyndarinn sem heyrði það fyrst“ lét reyndar fylgja með á eftir að hann væri búin að missa tvær tennur og gleypti aðra óvart – sofandi þ.e.a.s. strákurinn því það fylgir ekki sögunni hversu vel tenntir þeir voru kyndararnir á Betlehemsvöllum. Það var allt upp á borðum hjá þessum unga dreng og hinum sem með honum voru-engin leyndar eitthvað hyggja. Hann var bókstaflega eins og dægurtextinn margumræddi frjálslegur í fasi sá stutti í krummafót, úfið hár og fjólubláa kúlu á enni eftir að hafa rekið sig væntanlega á horn veraldarinnar eða hún á hann skiptir ekki máli það eina sem skiptir máli er að Guð almáttugur man eftir okkur og gerðist maður meðal manna. Hann man þig. Þrátt fyrir annríkri man hann þig. Það sama verður sagt um okkur. Þrátt fyrir annríki dagana fyrir jólin man ég þig. Hann kom ekki með hávaða né í dýrð heldur látleysi og hógværð. Andartökin fyrir var ekkert sem minnti á eða segði til um að Guð almáttugur lægði sig í að gerast maður meðal manna lagður í jötu því foreldrarnir voru seinir til að að fatta að koma nógu snemma til þorpsins Betlehem að fá gistingu á almennilegu gistiheimili og var úthýst í útihúsi á stalli dýranna sem þar höfðust við og létu sér væntanlega fátt um finnast að barnsgrátur gáraði mjúkt svart myrkrið þannig um stund varð það að láta eftir vald sitt og á tíðum þrúgandi þagnareið sem velmegandi hafði breitt frekjulega úr sér. Hversdagsleg nóttin frá því að vera það sem hún var vön og gerði best að fylla upp í hvern krók og hvern afkima veraldar, fela það sem fela þurfti varð upplýst um eitthvað annað og meira sem ekki var áður. „Kyndararnir“ á Betlehemsvöllum eins og sá stutti sagði með birtu dagsins og framtíðarblik alla í augum í leikskólaheimsókn nútímans í sóknarkirkjunni sinni urðu óttaslegnir, því við óttumst það ókunnuga, það breytist aldrei. Það sem gæti verið, en við vitum ekki hvort og hvernig verður. III Þannig er það í dag þannig var það dagana fyrir nokkrum dögum og enn nær fyrir fáeinum stundum að ekki sé talað um mínútur áður og augnablikið er kirkjuklukkur landsins rufu myrkrið sem umlykur okkur og kallaði okkur til helgrar hátíðar. Það er ekki hægt að færa hugsun þá sem sækir okkur heim, heima og að heiman í orð sem mætti verða til þess að uppljúka fyrir okkur þeirri tilfinningu sem fyllir andrúm allt á aðfangadagskvöldi. Það er sem að tíminn sem fyrir fáeinum dögum ætlaði að fara fram úr sjálfum sér og skilja okkur eftir hafi skipt um skoðun og kyrrð alls sest að, hinkrað við, beðið eftir okkur, ekki ólíkt snöggum veðrabrigðum sem við könnumst mæta vel við. Loftið mettað eftirvæntingu ungra sem aldna, sætur ilmur fyllir skilningarvit. Um stund fáum við að upplifa þessa dýrð alls. Jólin eru gengin í garð með öllu tilheyrandi, grænum baunum, rauðkáli og rjómasósu og steik, heimatilbúnum ís, samveru fjölskyldna. Tilveran öll prúðbúin og frjálsleg í fasi því það er hátíð. Ekki ólíkt vitfirringunum þremur eins og litla stúlkan aðspurð hvernig hafi verið í kirkjunni, sagði við móður sína eftir að hafa hlýtt á jólaguðspjallið, komum við víða að og setjumst niður við jólaborðið, njótum samverunnar, þessa sem stefnt var að, óljóst þrátt fyrir væntingar um hvað yrði. Þá situr óttinn um að ef gerast skyldi, að ekki færi eins og væntingar stóðu til. Myrkrið þrengir sér að. Birta vonarinnar um að fá að ganga með hirðunum á Betlehemsvöllum að jötu drauma okkar og væntinga svipt mætti sínum, en það verður aldrei á jólum. Því boðskapur englanna var og er sá að okkur er boðið að vera með – Þú ert ekki gleymdur. Ég man þig. Því verður ekki á móti mælt að djúpt kann að vera á jötu hugans á þessum tíma hjá einhverjum sem hafa misst. Myrkrið umlykur og bindur huga böndum sem erfitt er að leysa að sátt náist. Sátt Guðs við okkur menninna var að sonur hans fæddist. „Sjá ég boða yður mikinn fögnuð, yður er í dag frelsari fæddur...“ voru m.a. orð englana á Betlehemsvöllum. Þessi orð, þetta skúbb er ekki endilega að fá heilsíðu í huga okkar svona hversdags. Í kvöld og næstu daga verður það svo. Á jólum hlustum við á andardrátt lífsins sem gleymdi okkur ekki heldur færði okkur sanninn um að hið veika og smáa í hverju og einu okkar nær að lyfta af sér oki hversdagsleikans og myrkursins sem umlykur okkur og birta vonarinnar nær að snerta okkur smáum fingrum sínum. Umbreyta í von þá sem býr innra með okkur öllum að við gleymum ekki hverju öðru ekki aðeins hverju öðru heldur og líka hversvegna höldum við hátíðleg jól. Ég man þig er inntak jólanna. Engin er svo smár eða svo stór að geta ekki leyft sér að gleðjast á jólum með glöðum. Guð gefi ykkur gleðilega jólahátíð. Friður Guðs, sem æðri er öllum skilningi, varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú. Amen