Salt og ljós

Salt og ljós

fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
04. nóvember 2007
Flokkar

Guðspjall: Matt. 5. 13-16 Lexia: 5. Mós. 33. 1-3 Pistill: Opb. 7. 13-17

Það er ekki hægt að hrósa samferðafólki okkar betur en að segja að viðkomandi hafi haft mikil og jákvæð áhrif á samfélag sitt með ýmsum hætti. Hann eða hún er sannkallað krydd í tilveruna segjum við stundum um fólk sem við þekkjum af góðu einu og hefur jafnan haft góð áhrif á umhverfi sitt fyrir verk sín og orð á vegferð sinni í gegnum lífið.

Jesú þekkti notagildi saltsins og notaði það við kennslu sína eins og guðspjall dagsins gefur til kynna en þar segir hann við lærisveina sína:“Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á þá að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum”.

Til forna var salt mikils metið. Grikkirnar kölluðu saltið guðdómlegt. Rómverjar töldu að ekkert væri nytsamlegra en sólin og saltið. Á tímum Jesú taldi fólk saltið hafa þrjá eiginleika.

Í fyrsta lagi tengdist saltið hreinleika. Án efa benti litur þess til þess að það væri hreint. Rómverjar sögðu að það væri hreinast alls vegna þess að það væri runnið frá því sem væri hreinast alls, sólinni og sjónum. Saltið var frumstæðast allra fórna sem guðunum voru færðar. Gyðingar færðu saltaðar fórnir. Af þessu má sjá að þegar Jesús Kristur segir að vilji kristið fólk vera salt jarðar þá eigi það að vera öðrum gott fordæmi um þennan hreinleika með dyggðugu líferni sínu. Dyggð er ákveðin og viðvarandi tilhneiging til að gera hið góða og að gefa það besta af sjálfum sér. Það er afleiðing þess að leitast við að breyta samkvæmt vilja Jesú Krists og að taka framförum í því sem gott er. Hinar kristnu höfuðdyggðir eru trú, von og kærleikur. Af þeim spretta allar aðrar dyggðir.

Þetta ætti kristið fólk að gera að takmarki sínu. Ef við lítum á heiminn í dag þá sjáum við að við þurfum að ganga inn í okkur sjálf og bæta ráð okkar að þessu leyti. Mælikvarði iðni, samviskusemi og siðferðisgilda hefur lækkað svo að ekki verður lengur við unað. Kristur bendir á að kristnu fólki beri skylda til að halda á lofti og heiðra mælivarða hreinnar hugsunar, orða og verka. Enginn má víkja frá þeirri reglu að vera heiðarlegur né lækka siðferðisþröskuld sinn í heimi þar sem allt virðist vera leyfilegt, þar sem tálbeitur syndarinnar eru á hverju götuhorni. Enginn má þó draga sig í hlé úr þessum heimi heldur ber honum eins og postulinn Jakob segir að “varðveita sjálfan sig óflekkaðan af heiminum”. (Jak.1.27) Til þess þarf sérhver að brýna viskuna, hugrekkið og réttlætiskenndina og bera ábyrgð gagnvart eigin breytni. Þetta eru dyggðir sem sérhver kristinn einstaklingur ætti að heiðra.

Í öðru lagi var saltið notað til forna til varðveislu. Það var notað til þess að forða ýmsu frá því að skemmast og eyðileggjast og spillast. Það var notað til þess að haldna úldnun í skefjum . Ef kristið fólk á að vera salt jarðar þá ber því að hafa rotverjandi áhrif á líf sitt svo að það fái varðveist lýtalaust og óflekkað. Þetta er vandasamt og erfitt lífsverk því að syndin er lævís og lipur og læsir klóm sínum fyrr en varir í sálartetrið. Fyrr en varir bregðumst við skyldum okkar og saltið dofnar.

Rousseau sagði einu sinni að æskan sé hinn rétti tími til að læra viskuna, ellin til þess að framkvæma hana. Richter sagði að hugrekki fælist ekki í því að loka augunum fyrir hættunni heldur hinu að horfast í augu við hana og vinna bug á henni. Ágústínus kirkjufaðir sagði að ríki án réttar og réttlætis væri ekki annað en risavaxinn ræningjaflokkur. Kristnum einstaklingi ber að berjast gegn hvers kyns spillingu með þeim vopnum sem honum eru gefin, t.d. viskunni, hugrekkinu og réttlætiskenndinni.

Í þriðja lagi hefur saltið þá eiginleika að það bragðbætir. Kristin trú á að vera það sem saltið er fyrir fæðuna. Ef kristinn einstaklingur á að vera salt jarðar þá verður hann að haga breytni sinni svo til orðs og æðis að hann hafi jákvæð og þroskandi áhrif á samfélag sitt. Það er auðvelt að verða fyrir áhrifum frá slæmum félagsskap þar sem siðferðisleg kristin gildi eru fótum troðin. Ef kristið fólk lendir óvart í slíkum félagsskap þá er mikilvægt að sýna hugrekki sitt í orði og verki og neita að taka þátt í vafasömu líferni sem spillir lífi og heilsu.

Kristin trú getur haft þveröfug áhrif ef trúað fólk leggur ekki rækt við trú sína á hverjum degi og ber fagnaðarerindinu vitni með gleðiríkum hætti: Í þessu sambandi sagði maður nokkur eitt sinn: “Ég hefði orðið trúboði ef nokkrir prestar sem ég þekkti hefðu ekki litið út og starfað eins og þeir sem eru að taka grafir allan daginn”. Robert Louis Stevenson skrifaði eitt sinn í dagbók sína: “Ég sótti kirkju í dag og ég fylltist ekki þunglyndi”.

Það er mjög mikilvægt fyrir presta og aðra sem sinna kristilegu starfi að brenna ekki upp í starfi vegna álags. Þeir verða að ná að hvílast og endurnærast til þess að þeir geti eftir sem áður haft mannbætandi áhrif fyrir orð sín og gjörðir. Ef þeir gera það ekki þá getur sú stund runnið upp að þeir finnist þeir vera einskis nýtir. Mér finnst Kristur vera að tala t.d. um þessa hættu þegar hann talar um að saltið geti dofnað. Hver og einn kristinn einstaklingur verður að skoða stöðu sína að þessu leyti.

Jesús segir: “Þér eruð ljós heimsins. Borg sem á fjalli stendur fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar á meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum”. Hér býður frelsarinn hinum kristna einstaklingi að vera það sem hann sagðist sjálfur vera, ljós heimsins. Það er mikilvægt að ekkert fái skyggt á þetta ljós. Kristið fólk á að vera gagnsætt. Við erum kölluð til þess að láta þetta ljós skína í venjulegu daglegu atferli gagnvart hverjum sem er og við allar kringumstæður. Það ætti ekki að fara framhjá neinum að við erum kristið fólk sem heldur í kristin siðgæðisgildi. Við eigum daglega að vísa öðrum veginn, gefa öðrum gott fordæmi. Það er skylda kristinna að taka málstað smælingjanna, að vísa þeim veginn sem skortir styrk og hugrekki og áminna þá sem fara villu vegar í þjóðfélaginu á nærgætinn hátt. Dýrlingar og helgir menn eru dýrmætar fyrirmyndir á vegi trúarinnar. Í fornum textum eru þeir gjarna nefndir árnaðarmenn hjá Guði og talið að fyrirbænir þeirra hafi sérstakt gildi. En einn er þó meðalgangari Guðs og manna, Jesús Kristur.

Í okkar kirkju tengist allra heilagra messa minningu þeirra sem farin eru á undan úr þessum heimi. Allra sálna messa var 2. nóvember og þá var látinna minnst. Það er góður siður að minnast hinna látnu en muna jafnframt að ekki eru allir látnir dýrlingar og ekki eru heldur allir dýrlingar dánir. Allra heilagra messa er alla vega hátíð minninga og þakklætis, kærleika og virðingar. Þá beinum við huga og hjarta til himinsins og þess sem bíður að loknu þessu lífi. Og við sækjum huggun í texta trúarinnar.

Pistillinn úr Opinberunarbókinni þykir mér merkilegur. Þar segir: “Einn af öldungunum tók þá til máls og sagði við mig: Þessir, sem skrýddir eru hvítu skikkjunum, hverjir eru þeir og hvaðan eru þeir komnir? Og ég sagði við hann: Herra minn, þú veist það. Hann sagði við mig: Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins”.

Þegar ég hugleiði þennan texta þá finnst mér að þeir sem eru skrýddir hvítu skikkjunum séu skírnarbörnin í skírnarkjólunum sem vitna um sakleysi barnanna. Þegar þau vaxa úr grasi til fullorðinsára þá flekkast þau en fyrir Jesú blóð, en hann er lambið, þá hreinsast skikkjurnar og verða hvítar á ný. Hér kemur vald fyrirgefnarinnar í ljós sem nær út yfir gröf og dauða inn í ríki upprisunnar og lífsins. Jafnframt verður okkur ljóst að skírnarkjóllinn táknar réttlætiskápu elífðarverunnar, barnsins sem er skapað til eilífs samfélags við Drottin, endurfætt til lifandi vonar um að Drottinn Jesús Kristur muni vera með því alla daga og veita því hlutdeild í lífinu eilífa þar sem engin synd, sorg og dauði er framar til og allt er fagurt, heilt og bjart.

Við þökkum Guði fyrir allar konur og karla sem vitna um hann með lífi sínu og eru öðrum ljós á vegi. Við þökkum honum fordæmi og fyrirmyndir sem uppörva og vekja og þau sem þjóna honum í hinu smáa. Og við biðjum að lofgjörð okkar í dag megi óma í himninum og í hinum mikla alheimskór kirkju hans.

Guð gefi að við kristið fólk megum vera salt og ljós fyrir hann í þessum víðsjárverða heimi. Amen.