Í þéttri drífunni

Í þéttri drífunni

Er það ekki annars hlutverk listamannsins að teygja sig út fyrir landamæri þess sem við þekkjum og skiljum? Við erum jú með einhvers konar svæði umhverfis okkur þar sem flest er okkur sæmilega skýrt og auðskilið. Þar fyrir utan liggja huliðsheimar hins óþekkta - rökkvaðir stígar og hríðarél tilveru og tilvistar.

Flutt 4. febrúar 2018 í Neskirkju

Þótt ásókn okkar í lífinu snúist að miklu leyti um þægindi, meira svigrúm og vafalítið einhver völd, er staðreyndin engu að síður sú að sitthvað endist mun betur en flest þau gæði.

Tímalaust

Í sumar heimsótti fjölskyldan listasafnið Louvre í París og við gengum þar um salina sem geyma dýrgripi frá öllum heimshornum. Staðurinn var auðvitað þéttskipaður ferðamönnum. Engin leið er að reyna að giska á verðmæti þeirra listaverka sem þarna voru. Í mörgum tilvikum eru þau ómetanleg, dýrgripir sem eru ekki aðeins eign safnsins eða franska ríkisins, ekki aðeins vísbending um landsvæði og tímabil heldur til marks um afrek mennskunnar. Já, þar og þá sem aðstæður gerðu það kleift vann mannsandinn slík afrek að það sem eftir stendur, hefur sig yfir stað og stund. Mannsævin er takmörkuð, stórveldi rísa og falla en listin lýtur ekki þeim lögmálum.

„Listin er eilíf en lífið er stutt“ sögðu Rómverjar og höfðu mikið til síns máls. Þegar við lítum yfir þá þætti sem lifa af samfélög eru það ekki stjórnkerfin, ekki leiðtogarnir og víst eru það ekki öll hægindin sem fólk kemur sér upp. Nei, þegar við metum menningarsamfélög þá er það einmitt - já einmitt, menningin sem situr eftir, listaverkin sem unnin hafa verið og gerð á einhverju tímabili, hvort heldur það kallast blómaskeið eða krepputíð.

Hvert er það starf listamannsins sem hefur hann yfir hið tímanlega og veldur því að fólk á öllum tímum getur hrifist og dáðst að verkum hans ef vel tekst til?

Þorsteinn frá Hamri

Áður en lagt er í að svara þeirri spurningu er rétt að leiða hugann að takmörkum ævinnar og hinni sígildu list. Nú á sunnudaginn var sáum við á eftir merkum listamanni. Þorsteinn frá Hamri er fallinn frá og við stöndum í þakkarskuld við hann og það mikla starf sem hann vann. Árið 2002 gaf hann út ljóðabókina, Meira en mynd og grunur. Þar má lesa þetta ljóð sem ber heitið „Þorradægur“:

Líttu á þessi kvæði
blað fyrir blað.

Á meðan vildi ég
helzt fá að halla mér aðeins.

Það verður komið rökkur
þegar ég rumska

og drífan þéttari.
Gatan mér ókunn úti.

Við þokumst, færumst
með húsinu hægt úr stað.

Þorsteinn heitinn, beinir huga okkar að skáldlistinni á meðan hann, höfundurinn sjálfur dregur sig til hlés. Já, manneskjan stígur til hliðar en sköpunin lifir. Þarna er tímaleysi listarinnar undirstrikað en svo í lokin kemur hann inn á það sem mögulega gerir listaverkin svo einstök og að sama skapi þau sem upphugsa þau, sníða og smíða. Þeir sem þau skapa, starfa í þéttri drífunni og á hinni ókunnu götu. Er það ekki annars hlutverk listamannsins að teygja sig út fyrir landamæri þess sem við þekkjum og skiljum? Við erum jú með einhvers konar svæði umhverfis okkur þar sem flest er okkur sæmilega skýrt og auðskilið. Þar fyrir utan liggja huliðsheimar hins óþekkta - rökkvaðir stígar og hríðarél tilveru og tilvistar. Þegar við rýnum í verkin, hvort heldur það er ljóðlist, myndlist eins og sú sem við börðum augum í Frakklandi í sumar, tónlistin eða hvert sá gjörningur sem við fellum inn í þann rann, þá er það viðfangsefnið að leiða okkur út fyrir hring hins þekkta og skiljanlega.

Biblían sem listaverk

Í dag er Biblíudagurinn og fyrir því er löng hefð í kristnum heimi að líta á Biblíuna sem listaverk. Orðið sjálft, Biblía, merkir jú bækur og hún er að sönnu réttnefnt bókmenntaverk. Allt frá upphafi var það iðja fræðimanna að túlka einstaka texta Biblíunnar, rétt eins og við rýnum í hvert annað myndmál og tákn sem birtast okkur eða óma úr fjársjóðum listaheimsins.

Hefðin er að túlka þessa texta út frá ferns konar sjónarhorni: Fyrst hið bókstaflega, þá út frá þeim lærdómi sem við getum dregið af því, næst er það hinn siðferðilegi boðskapur og loks er það huggunin sem kristinn maður getur sótt í textana. Sjálfur Hallgrímur Pétursson dregur fram þessa ferns konar túlkun í yfirskrift Passíusálma sinna þar sem hann talar um historíuna (hið sögulega), og svo hvernig við lesum hana okkur til lærdóms, áminningar og huggunar. Fer vel á því að hugleiða þá þætti nú þegar fastan er á næsta leyti og sálmar Hallgríms eru lesnir í útvarpinu.

Rýnendur og ritskýrendur hafa kynslóðum saman lesið Biblíuna og túlkað út frá þessum forsendum. Sem slík er viðfangsefni hennar hið rökkvaða og óljósa, þar sem öll sköpun á sér stað. Hún færir okkur frá hinu þekkta til hins óþekkta og byggir í raun brú þar á milli með líkingum, sögnum, frásögum og ýmiskonar túlkun sem lesandinn getur mögulega tengt sig við. Til þess nota höfundar texta hennar ýmsar aðferðir: Goðsagnir, frásögur og myndlíkingar.

Í guðspjalli Biblíudagsins hittum við fyrir slíkan texta. Þar er sjálft orð Guðs til umfjöllunar. Það er í anda þess sem að ofan er sagt að frásögnin er ekki sett fram á hinn einfaldasta hátt heldur eru kallaðar fram myndir í huga þess sem á hlýðir. Líkingamál og dæmisögur hafa einmitt þann tilgang að láta viðtakandann sjálfan leita tenginga við það sem fjallað er um. Þetta er sú sköpun sem heillar okkur og veldur því að sum listaverk verða ekki hrörnun að bráð eins og flest annað. Þar er óskapnaður færður í eitthvert form og úr verður skiljanlegt samhengi.

Og þar sem eitthvert mark er takandi á afurðum mannsandans varpa þau raunsærri mynd af lífinu og þeirri baráttu sem við heyjum í erli daganna. Sagan af sáðmanninum sem stráði korninu er framan af mikil harmsaga. Hún lýsir því hvernig hið góða og fagra visnar, treðst undir, kafnar og týnist í öllu því fánýti sem sækir á okkur mennina á lífdögum okkar. Já, það er ekki sjálfgefið að það sem býr yfir frjómagni og hefur fólginn í sér vísi að einhverju stórbrotnu hljóti þær viðtökur sem það verðskuldar.

Haukur Morthens söng á angurværan hátt um fræin sem fengu þann dóm að falla í jörð en verða aldrei blóm. Það er einmitt harmleikurinn sem við fáum á Biblíudaginn. Og veruleiki hennar birtist okkur víðsvegar um heiminn þar sem kristnir menn sæta ofsóknum og hið lífgefandi orð Biblíunnar er fótum troðið. Hér á Íslandi rísa upp kynslóðir þar sem dægradvölin er komin á það stig að hún nánast yfirgnæfir aðra þætti tilverunnar. Þægindaleitin er ekki rík að innihaldi. Þá hefur enginn tíma fyrir sögur Biblíunnar í allri sinni dýpt og innsæi.

Lýsing Krists á hlutskipti sáðkornsins í guðspjalli dagsins er sagan af starfi postula kristninnar í gegnum aldirnar sem vilja flytja áfram lífgefandi og eilífan boðskap. Þetta fagnaðarerindi er, rétt eins og sáðkornið, ekki alltaf mikið fyrir að sjá í fyrstu og má sín lítils andspænis ljósadýrð og hávaða samtímans. Innra með sér geymir það mátt sem gerir því kleift að vaxa og eflast þar sem skilyrðin eru rétt.

Saga kristninnar er ekki lýsing á því hvernig við færumst til meiri léttúðar og lífsgæða frá einum tíma til annars. Hún lýsir þvert á móti erfiðu hlutskipti fólks, sögu af þrælum sem losna undan fjötrum sínum en þurfa fyrst að ferðast um eyðimerkur og óbyggðir. Hún er áminning til okkar allra að leita ekki auðveldustu leiðarinnar þegar við veljum okkur hlutskipti í lífinu. Aðrir kostir kunna að vera meira virði, fela í sér aukinn tilgang og leit að dýpri markmiðum. Allt þetta skiptir manninn grundvallarmáli og, þegar við skoðum það ofan í kjölinn - reynist það mun meira virði og eldist betur heldur en nánast allt annað sem eftir okkur liggur.

Sjálfur veitti Þorsteinn frá Hamri ómetanlega hjálp við að miðla kristnum boðskap til íslendinga, hann las yfir texta og lagði gjörva hönd á alls kyns útgefið efni, þótt hann hafi ekki farið fram á að nafn hans kæmi þar fram.

Líttu á þessi kvæði

Þar sem við virtum fyrir okkur stórvirki mannsandans í listaverkasölum Louvre safnsins fór ekki á milli mála hversu auðugur sjóður frásagnir Biblíunnar hafa verið listamönnum á öllum tímum. Endurreisnarmálararnir kalla fram sterkar tilfinningar og nístandi raunsæi á andlitum þeim sem birtast á striganum. Þær verða einhvern veginn svo mikil andstæða við okkur túristana sem látum ekki nægja að festa verkin á filmu heldur stillum okkur sjálfum upp fyrir framan linsuna eins og við eigum þá einhverja hlutdeild í listinni. Erum þó flest á hlaupum á milli staða og gefum hverjum þeirra ekki nægilegt tóm til að geta dregið til okkar alla þá fegurð sem þar býr.

„Líttu á þessi kvæði
blað fyrir blað

Á meðan vildi ég helzt fá að halla mér aðeins“

Svona yrkir Þorsteinn frá Hamri og það er eins og hann tali fyrir mun listamanna á öllum tímum. Orð hans minna líka á starf sáðmannsins sem stráði korninu yfir jörðina og hélt svo leiðar sinnar. Allt veltur á þeim sem við tekur. Hver kynslóð fær fjársjóðinn í hendur og það er á hennar ábyrgð að miðla honum áfram og láta hann vaxa og dafna.