Þar nýtur þú skjóls

Þar nýtur þú skjóls

fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
09. júní 2012
Flokkar

Ég hef komist að því að náin tengsl eru hálfgerð skógrækt, ekki hefði mér að vísu dottið það í hug þegar ég fjórtán ára gömul vann sumarlangt við trjáplöntun í Hólaskógi í Hjaltadal. Það get ég sagt ykkur að fá störf hafa haft jafn víðtæk áhrif á mig og þetta skógræktarstarf í denn. Að planta trjám er frábært starf, kannski eitt besta starf í heimi, ekki síst þegar sólin skín og þýður vindur leikur um hár manns og kinn. Í rigningu og sudda minnir það mann á að lífið er líka áreynsla, þið vitið, að grafa í blautri mold íklæddur þykkum gúmmíhönskum en lyktin undan þessu hönskum situr enn í huga mér eins og ógleði vanfærrar konu. Maður er eitthvað svo einn inn í rigningarskógi, blautur og hrakinn, svangur og fullkomlega skilningsvana á tilgangi þessara starfa, að planta trjám í íslenskum afdal. En svo birtir aftur til og árin líða og dag einn gengur þú opinmynntur um þennan þéttvaxna skóg og þú nýtur skjóls milli stórvaxinna trjáa og minnist þess að eitt sinn voru þau græðlingar í höndum þér og þú hafðir val þann dag um að koma þeim niður í nærandi mold, og sólin og rigningin skiptust á um að koma þeim upp, af þvi að það þarf bæði sól og rigningu til að vaxa, hvort sem um er að ræða tré eða náin tengsl.