Synd er ekki það sama og sekt

Synd er ekki það sama og sekt

Hjálpræðið sem manninum er boðað í fagnaðarerindinu gengur út frá hjálpræðisleysi manns og heims. Það ástand er skilgreint í Biblíunni með hugtakinu synd, en í samtímanum er það aftur á móti mjög svo misskilið.
fullname - andlitsmynd Sigurjón Árni Eyjólfsson
22. desember 2011

1. Inngangur

Hjálpræðið sem manninum er boðað í fagnaðarerindinu gengur út frá hjálpræðisleysi manns og heims. Það ástand er skilgreint í Biblíunni með hugtakinu synd, en í samtímanum er það aftur á móti mjög svo misskilið.1 Allt tal um synd og sekt mætir bæði innan og utan kirkjunnar vissri blöndu af áhugaleysi og tortryggni.

Áhugaleysinu veldur hve óljóst syndarhugtakið er þrátt fyrir mikla notkun þess. Það virkar sem innantóm formúla sem hvorki hefur beina tilvísun né skýrandi kraft. Það er því ofureðlilegt að hugtakið veki tortryggni. Hún er auk þess studd af þeim grun að öll umræða kirkjunnar um synd stafi af þeirri viðleitni að kalla fram samviskubit í einstaklingum til þess að halda þeim niðri og gera fólk meðfærilegra.2 Allt syndar tal hafi það markmið að ná valdi yfir mönnum og viðhalda því.3 Mannréttindafrömuðir hafa bent á þennan þátt í notkun og beitingu syndarhugtaksins í almennri þjóðfélagsumræðu og innan kirkjunnar hafa fulltrúar frelsunarguðfræðingar gert hið sama. Kvennaguðfræðingar sem tilheyra þeim hópi hafa sýnt fram á að hugtakið synd hefur verið markvisst notað sem kúgunartæki feðraveldisins.4 Tortryggni gagnvart hugtakinu er réttlætanleg og ber að draga af henni guðfræðilegar ályktanir.

Ástæða þessarar misnotkunar hugtaksins er m.a. að leita í því að syndarhugtakið er notað til að lýsa eðli einhvers í stað sambands. Mönnum yfirsést að hér er fyrst og fremst um trúarlegt eða guðfræðilegt hugtak að ræða, sem lýsir sambandi Guðs og manns. Ef hugtakið er rifið úr þessu samhengi brenglast merkingin. Í kristinni trú er erfitt og jafnvel ómögulegt að greina glötun og hjálpræðisleysi heims og manns, ef sú sýn er ekki tengd beint við Guð og fyrirgefningu hans. Það er Guð sem frelsar manninn frá glötun og úr viðjum syndarinnar. Þegar þessi guðfræðilega notkun hugtaksins er skoðuð, kemur skýrt í ljós að hér er um sambandshugtak að ræða. Hugtakið synd er í Ritningunni og innan evangelískrar guðfræði því fyrst og fremst notað þegar samband mannsins við Guðs er skilgreint. Það fjallar um stöðu mannsins gagnvart Guði og skilgreinir afneitun hans á Guði sem vantraust og vantrú. Ástæðu þess ber að leita í því að maðurinn virðir ekki þau mörk sem eru á milli hans og Guðs. Hann vill þannig ekki leyfa Guði að vera Guð og þar með sjálfum sér að vera maður. Samkvæmt Ritningunni er syndin því fyrst og fremst sambandshugtak er lýsir firrtu sambandi mannsins við Guð. Syndina er því ekki hægt að afmarka við einhverja gjörð heldur er hugtakið skilgreining á afstöðu mannsins til Guðs, sjálfs sín og heimsins. Í íslensku er orðið synd skrifað með ypsiloni af því það er dregið af orðinu sundur. Þannig vísar orðið sjálft til aðskilnaðarins. Hann kemur m.a fram í vantrú og vantrausti mannsins til Guðs og náungans eða í efa og hroka í garð okkar sjálfra og umhverfisins. Hann herjar á persónu hvers og eins og eyðileggur sjálfsmynd einstaklingsins.

Í kristninni hefur verið kennt að reynsla mannsins af fyrirgefningu Guðs og réttlætingu syndarans gerir manninum mögulegt að átta sig á veruleika syndarinnar.5 Það er fyrst í ljósi náðarinnar að maðurinn greinir á milli syndar og syndarans. Fyrirgefning Guðs gerir manninum mögulegt að virða fyrir sér þverstæður eigin sjálfs, án þess að hann steypist niður í örvæntingu. Ef þessi tengsl syndar og náðar eru ekki virt verður hugtakið annaðhvort að innantómri formúla eða það er einskorðað við siðferðilega breytni og úrelta siði. Undanfarna áratugi hefur áhugi manna innan fræðanna á syndarhugtakinu og skilgreiningu þess aukist.6 Þessu veldur m.a. það böl sem menn hafa síðastliðna öld í krafti eigin þekkingar og tækni kallað yfir heilu samfélögin og lífríkið. Menn greina vel að maðurinn er ófeiminn að nota þekkingu sína til að beita náungann valdi og að hið illa – hvort sem það er í formi skeytingarleysis eða haturs – hefur bæði aðdráttarafl á einstaklinga sem og heilu samfélögin.

Til að nálgast það sem Biblían á við með hugtakinu um synd er þarft að huga að notkun syndar og sektarhugtaksins í samtímanum. Merkingarsvið hugtakanna skarast þótt þau tilheyri mismunandi sviðum.

2. Synd og sekt í daglegri málnotkun 2.1 Hugtakið synd Samkvæmt Orðabók menningarsjóðs er synd skilgrein sem „yfirsjón, brot á réttri hegðun; brot gegn boðorðunum og vilja guðs“.7 Almennt er í erlendum orðabókum bent á að hugtakið synd sé trúarlegt hugtak og tákni brot gegn Guði. Áberandi er hve mótandi hin siðferðilega áhersla er í skilgreiningunni á hugtakinu. Það er oft tengd við gömul og úrelt siðaboð, sem eiga að beinast gegn lífsnautnum og eðlilegum hvötum. Hugtakið er hér notað til að fella dóm yfir broti gegn þeim. Aftur á móti virkar hlýðni við slík boð framandi og jafnvel hjákátleg. Þessi notkun á hugtakinu hefur gert það í daglegu tali merkingarlaust, innantómt og broslegt. Í nútímanum virðist afhelgun syndarhugtaksins vera komið á það stig að það hefur enga skírskotun. Það er búið að gera úr því „meinleysislegt grey“. Þessi staða hugtaksins gefur tvennt til kynna. Annars vegar að fólk vill ekki lengur taka alvarlega úrelta lifnaðarhætti og hugsunarhátt sem tengdir eru við hugtakið, og hins vegar hefur hugtakið verið um of tengt við brot einstaklings eða samfélagsins á vissum boðun og bönnum. Í málnotkun er áberandi hve algeng tengslin eru milli hugtaksins og kynlífs. Syndin er hér tengd því sem er bannað en er aftur á móti freistandi og eftirsóknarvert. Af þessu má draga þá ályktun að hugtakið synd hafi verið notað – í beinni andstöðu við skilning Ritningarinnar – til að tengja hið kynferðislega við hið illa og afskræma það. Nægir hér að vísa til orða sambandsins „að lifa í synd“ um óvígða sambúð. Hér er ekki bara búið að tengja syndina svo við viss siðferðileg viðmið og reglur heldur er það sett að jöfnu við visst sambúðarform. Sambandsskilningurinn sem hugtakið byggir á hefur vikið fyrir siðvæðingu þess.

Það er líka áberandi hvernig tengslin milli syndar og valds hefur vikið úr vitund fólks. Þau eru ein af grundvallaráherslum Nýja testamentisins. Í daglegu tali er meira um það að ræða að valdið sé tengt við djöfulinn eða hið illa, en við syndina sem sambandsslit og firringu. Þessi árátta gæti verið vitnisburður um hvernig nútíminn reynir að ýta til hliðar veruleika hins eyðandi valds, jafnt í lífi einstaklinga og samfélagsins, með því að siðvæða, skrumskæla og hæðast að synd og djöfli. Þannig veruleika á maðurinn sannarlega erfitt með að virða og hvað þá lifa með þeirri vissu.

2.2 Hugtakið sekt Þetta er ekki uppi á teningnum um hugtakið sekt. Það er merkingarhlaðið hugtak og mjög miðlægt í umræðunni í samtímanum, þá jafnt innan réttarkerfisins, á sviði stjórnmála, að ekki sé minnst á siðfræðina. Þessu veldur meðal annars að vegna félagslegra rannsókna er vitund manna um uppbyggingu samfélagsins orðin miklu ljósari. Menn greina vel hvernig valdbeitingu er háttað innan þjóðfélagsins og hvernig uppruni, umhverfi og samfélag hefur áhrif á beitingu valds. Það er búið að leggja nokkuð vel fram hvernig áhrif foreldra, hinna ýmsu gilda og venja geta haft bein og óbein áhrif á viljaafstöðu fólks. Uppbygging og stofnanir samfélagsins eru greindar og áhrif þeirra skilgreind. Þessi þekking hefur aftur á móti ýtt undir þá tilhneigingu manna sem er mun sterkari í dag en áður að sjá sjálfan sig ekki bara sem ábyrgan einstakling heldur líka sem fórnarlamb. Menn skilgreina sekt sína í ljósi uppruna og umhverfis og í ljósi þess benda þeir á sakleysi sitt. Þetta hefur leitt til þess að óæskileg og óréttmæt sektartilfinning hefur verið yfirunnin, en líka til þess að sektin er losuð úr tengslum við persónur og hlutgerð.8 Hér ber að hafa í huga að það tilheyrir mennsku mannsins að geta axlað ábyrgð og gengist við sekt sinni ef hún er til staðar eða varið sig gegn röngum ásökunum.

Annar þáttur sem einnig áberandi er það hve ófús samtíminn er til að taka við skakkaföllum og óáran sem örlögum. Í því samhengi má nefna stríð, deilur, drepsóttir, umhverfisvanda o.s.frv. Menn leita frekar uppi hinn seka og vilja draga hann til ábyrgðar og refsa honum. Þeir eiga að bæta fyrir skaðann. Hér er um visst samspil í nútímanum að ræða á milli þess að finna hinn seka og vísa sektinni frá sér en einnig að horfast í augu við eigin sekt og ábyrgð.

2.3 Munurinn á synd og sekt Andspænis því hvernig hugtakið synd er meðhöndlað í daglegu tali væri ef til vill nær að grípa til annarra hugtaka eins og firringar, mistaka, þverbrests. Í samhenginu um sekt væri hægt að tala um ábyrgð og ábyrgðarleysi. En vandinn er ekki orðið heldur viðfangsefnið sem slíkt. Samkvæmt Biblíunni er hér um að ræða grundvallarstöðu mannsins sem er brotthvarf hans frá lífi, eða réttara sagt samfélagi. Maðurinn hefur rofið möguleika sinn að ná sambandi við Guð, hann lifir svo að segja í trufluðu sambandi við sjálfan sig, náungann og Guð. Syndina ber að túlka í ljósi þeirrar stöðu firringar og glötunar sem maðurinn finnur sig í, en ekki endilega sem uppreisn gegn Guði og brot á einhverjum reglum. Afleiðingar slíks „reglu-syndarskilnings“ eru þær að menn breyta einfaldlega reglunum ef þeir geta ekki uppfyllt þær. Í nútímanum væri ef til vill nær að tengja syndarhugtakið við lífsóttann, veraldarangistina og óvissuna. Guðfræðingurinn Wilfried Härle segir í þessu samhengi að hugtakið synd beinist að tengslum. Það beri að túlka það í samhengi við tengsl mannsins, þess að vera sviptur einhverju sem maðurinn þráir og þarfnast mest, eins og t.d. ást, vináttu, tryggð, samfélagi o.s.frv. Syndin er það sem spillir því að maðurinn geti lifað í ást og notið hennar. Veruleiki hennar kemur ef til vill best fram í því ef við hugum að því lífi sem maðurinn fer á mis við vegna þess ástleysis sem hann líður, að vera ekki elskaður eða vera meinað um að elska. Þrá mannsins eftir viðurkenningu og ást, þá í ljósi verkaréttlætingar, hefur svipt margan þeirri ást sem einmitt var stefnt að. Ástinni getur þannig verið hafnað, menn glatað henni og misst marks, já svikið hana í hræðslu eða út af hræðslu. Það er einnig hægt að glata henni fyrir þrjósku, skilningsleysi eða skeytingarleysi. Og alla jafna bitnar það ekki einungis á einstaklingnum heldur kallar óhamingju yfir náungann.9

Þessi greining Härle er hjálpleg, en nauðsynlegt er þó að greina betur veruleika syndar og sektar. Svið þessara hugtaka skarast vissulega, en það er munur á þeim. Syndin lýsir ástandi sem maðurinn sjálfur getur ekki losað sig úr, sektin aftur á móti beinist að ástandi eða stöðu sem maðurinn getur oft unnið úr og bætt fyrir.

Nauðsynlegt er í þessu samhengi að greina á milli syndar og sektar. Það mætti gera á eftirfarandi máta: Fyrir það fyrsta er syndarhugtakið fyrst og fremst trúarlegt — og/eða guðfræðilegt hugtak sem er notað til að skilgreina stöðu mannsins sem fallinnar veru frammi fyrir Guði. Um er að ræða sambandshugtak sem snýr að tengslum Guðs og manns. Það á ekki að nota til að skilgreina eðli mannsins, heldur samband hans við Guð. Syndin er því alla jafna innan evangelískrar hefðar útskýrð sem vantraust eða vantrú á Guði, það er grunneðli hennar og tengist þannig eðli mannsins. Maðurinn uppfyllir fyrsta boðorðið í trú og brýtur það með vantrú. Guð vill trú okkar og það samband er til umfjöllunar í boðorðum 1.-3. Náunginn þarfnast aftur á móti verkanna og eðli þeirra er tekið fyrir í boðorðum 4-10. Þannig tengir Guð saman bæði meginsvið mannlegrar tilveru, hið andlega og hið veraldlega. Þau mætast sviðin í sérhverjum einstaklingi í afstöðu hans til Guðs og náungans. Guð kallar manninn til ábyrgðar og hana sýnir maðurinn gagnvart Guði í trúnni og náunganum með verkum sínum. Og þau leiðir Guð til góðs. Guð tengir þannig saman bæði sviðin þar sem maðurinn í trú bindur traust sitt við Guð og í því trausti sinnir hann náunganum í kærleika. Farvegur hans, kærleikans, eru verkin sem boðorðin skilgreina. Þannig vitnar oft ábyrgðarlaus hegðun um truflað samband við Guð eða vantraust og vantrú á Guði sem kallast í Ritningunni synd.

Þessi staða verður manninum fyrst endanlega ljós í trú á Krist og fyrir fyrirgefninguna. Syndarhugatakið er þannig séð andhverfa náðarhugtaksins.

Sektarhugtakið snýr aftur á móti frekar af samskiptum manna á meðal og broti gegn einhverjum mælikvörðum sem maðurinn brýtur gegn. Það er miðlægt innan kristinnar siðfræði þar sem boðorðin skipta máli, og innan heimspeki sem vísar til grundvallandi boða eins og t.d. Immanúel Kant. Það á aftur á móti ekki svo við um nytjahyggjuna.

Ef menn nota þessa skilgreiningu þá á helst að nota hugtakið synd um tengsl mannsins við Guð og firringuna og þverbresti mannsins í ljósi þeirra tengsla (1-3. boð). En hugtakið sekt um samband manna á meðal (4-10. boð).

Samkvæmt þessu er varhugavert að nota hugtakið synd um einhverja afmarkaða hegðun manna. Þá er það rifið úr samhengi sínu sem skýringarhugtak á tengslum Guðs og manns. Virða menn syndarhugtakið ekki sem sambandshugtak, verður afleiðingin sú að hugtakið er „siðvætt“ eða „móraliserað“ og menn lenda í þeim ógöngum að binda það við einhverja hegðun eða brot á siðareglum eins og kom og kemur m.a. fram í umræðu um kynhegðun, heiðarleika, rétt einstaklinga til lífs, réttlætis og viðurværis o.s.frv. Sé skipt út orðinu synd og sett orðið sekt í staðinn, þá kemur vandinn strax í ljós. Spurningar vakna eins og: Sekur fyrir hvað, brot á hvaða reglum er um að ræða og hver setur þær o.s.frv.?

Það verður því að fjalla um synd í tengslum við náðina eða samband Guðs og manns þ.e. í samhengi boðorða 1–3. Sektin snýr aftur á móti frekar að gjörð og þeim reglum sem þær eiga að lúta. Um sektina ber því að fjalla um í samhengi boðorða 4–10. Fyrirgefning Guðs opnar augu mannsins fyrir þeim veruleika sem verkin lúta og koma í veg fyrir að sektin skilgreini endanlega hver maðurinn er.

Sektin vísar þannig til veruleika syndarinnar en ekki er mögulegt að leggja hana að jöfnu við syndina.

Tilvísanir

1 Hér er m.a. stuðst við framsetningu Wilfried Härle Dogmatik, Berlin 1995, 456–492. Otto Weber, Grundlagen der Dogmatik, 1 bindi, 5. útgf. Neukirchen-Vluyn 1977, 640–695. Wolfgang Trillhaas, Dogmatik 4. útgf. Berlin 1980, 189–205. Wolfhart Pannenberg, Das Glaubensbekenntnis, 5. útgf. 1990, 167–176. Christof Gestrich, Die Wiederkehr des Glanzes in der Welt, 2.útgf. Tübingen 1996.

2 Christof Gestrich, Die Wiederkehr des Glanzes in der Welt, 14–15.

3 Sígilda framsetningu á þessari skoðun er að finna hjá Friedrich Nietzsche, Zur Genealogie der Moral, 2. Abhandlung, Fiedrich Nietzsche. Sämtliche Werke. Bd. 5. Kritische Studienausgabe, ritstj. Giorgio Colli og Mazzino Montinari, Berlin & New York 1988, 291–337.

4 Christine Axt–Piscalar, „Sünde VII“, TRE 32, 427–428. Gunda Schneider–Flume, „Frauensünde? – Überlegungen zu Geschlechtterdifferenz und Sünde“, ZThK 91 (1994), 299–317.

5 Christine Axt-Pscalar, „Sünde VIII“, TRE 32, 428–429.

6 Sjá m.a. yfirlitsgrein Christine Axt-Pscalar, „Sünde VIII“, TRE 32, 400–436 og bók Christof Gestrichs, Die Wiederkehr des Glanzes in der Welt.

7 Íslensk orðabók, 2.útgf. 4. prent., Ritstjóri, Árni Böðavarsson, Reykjavík 1990, 1015.

8 Harmut Genest, „Schuld III“, TRE 30, 588 [596–591].9 Wilfried Härle Dogmatik, 466.