Kyrrðardagar í Colorado

Kyrrðardagar í Colorado

fullname - andlitsmynd Elínborg Gísladóttir
13. apríl 2008

Ég hef augu mín til fjallanna hvaðan kemur mér hjálp? Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar. (Sálm.121:1-2)

Það var í ágúst árið 2007 að ég fór á kyrrðardaga í Benedikts klaustrið í Snowmass í Colorado USA ásamt öðrum íslendingum. Kyrrðardagarnir byggðust á hugleiðslu- og íhugunaraðferð er nefnist Centering Prayer.

Þegar við komum til Snowmass sem er einn af dölum Aspenhéraðs, keyrðum við heim að kyrrðarsetrinu og stigum út úr bílnum. Þá virti ég fyrir mér það sem fyrir augu bar og það sem eyrað nam í kyrrðinni og hugsaði með mér - þetta er heilagur staður. Náttúrufegurðin var ólýsanleg og augun staðnæmdust strax við fjallið, sem blasti tignarlega við, litasamsetningin meistaraverk og ekki bara það heldur var eins og kraftur streymdi frá því. Mig setti hljóða um stund og ég sagði í hálfum hljóðum við samferðafólkið - þetta er eins og Paradís.

Fjallið heitir Sopris og er nafnið komið frá indjánum sem bjuggu þarna áður fyrr og var þessi staður sérstakur tilbeiðslustaður þeirra. Sopris þýðir móðir og fjallið er líkt móður sem er að fara að fæða barn. Þegar horft er á fjallið mótar fyrir andliti, brjósti og maga. Tákn um nýtt líf, upphaf lífs.

Þegar inn í húsið var komið tók á móti okkur yndislegt starfsfólk og falleg húsakynni sem voru byggð þannig að útsýnið fékk að njóta sín. Í kapellunni þar sem íhugunin fór fram, sneru gluggarnir að fjallinu.

Ég hef augu mín til fjallanna hvaðan kemur mér hjálp? Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar. (Sálm.121:1-2)

Þetta ritningarstaður fékk í huga mínum nýja vídd, skaparinn virtist svo nálægur þar sem ég stóð við gluggann í kapellunni og horfði á sköpunina og á krossinn sem hékk á veggnum.

Við komum okkur fyrir í björtum og rúmgóðum herbergjum og það var komið kvöld hinn fyrsta dag. Ég lagðist til hvílu og sofnaði út frá „baulinu“ í bjarndýrunum sem ómaði í kyrrðinni frá klettafjöllunum.

Í níu daga var dvalið í kyrrð, fræðslu, íhugun og gönguferðum. Munkarnir Thomas Keating og William A Meninger sáu m.a. um fræðsluna. Fræðslan miðaðist af því að kynna fyrir okkur íhugunaraðferðina Centering Prayer.

Kjarninn í Centering Prayer er að dýpka samband okkar við Krist og styrkja tengsl á milli manna í gagnkvæmri vináttu og kærleika.

Verið kyrrir og viðurkennið að ég er Guð (Sálm. 46:10)

Það voru forréttindi að fá að hlýða á fræðslu þessara vitru munka. Nærvera þeirra var einstök, einkenndist af friði og jafnvægi.

Það var um tíu mínútna gangur frá kyrrðarsetrinu að klaustrinu þar sem helgihaldið fór fram og þar bjuggu munkarnir. Það var yndislegt, í birtingu, að ganga þennan spöl til morgunmessu, heyra fuglasönginn og hljóminn í náttúrunni og sjá geisla sólarinnar breiðast yfir dalinn og hindina hlaupa um með kálfa sína.

Himnarnir segja frá Guðs dýrð, festingin kunngjörir verkin hans handa. Hver dagur kennir öðrum og hver nótt boðar annarri speki. Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra. Þó berst boðskapur þeirra um alla jörð og orð þeirra ná til endamarka heims.(Sálm.19:1-5)

Kirkjan var látlaus, lítill steindur gluggi með mynd af Maríu með Jesúbarnið blasti við á altarisveggnum þegar ég opnaði dyrnar inn í kirkjuskipið. Ég gekk inn og fann friðinn sem þar ríkti, settist niður á hörðu bekkina sem voru þar og tók þátt í messunni ásamt öllum hinum sem voru líka komin til að taka þátt í helgihaldinu og ró færðist yfir mig.

Eftir messuna gengum við í þögninni og kyrrðinni til baka að kyrrðarsetrinu og þar beið okkar listilega fram borinn morgunverður, girnilegur en ekki síður góður, fallega samsettur þar sem litir ávaxtanna fengu að njóta sín. Við settumst við borðið, héldum áfram að dvelja í þögninni og fundum friðinn sem ríkti. Allt var samhljóma á þessum stað, fegurðin í því sem var á borð borið, fegurðin í náttúrunni, fegurðin í helgihaldinu, fegurðin í kyrrðinni, fegurðin í fólkinu.

Veisla fyrir skynfærin. Hinn ytri og innri maður nærður. Guð allt í öllu -jafnvægi alls staðar. Endurnærð og endurnýjuð hélt ég brott glöð í hjarta.

Sannarlega var það dýrmæt upplifun og reynsla að vera á kyrrðardögum í Snowmass. Fyrir ykkar sem viljið vita meira um Centering Prayer þá er William A. Meninger munkur í Snowmass frá Colorado að koma til Íslands. Hann verður kyrrðardegi í Neskirkja 19. apríl. Sjá: www.neskirkja.is

Einnig er hægt að fræðast meira um William A Meninger og Centering Prayer á heimasíðu hans. www.contemlativeprayer.net. Sjá einnig: http://www.snowmass.org