Skín á himni

Skín á himni

fullname - andlitsmynd Bolli Þórir Gústavsson
24. desember 2007
Flokkar

Þessi jólapredikun er úr nýútkominni bók “Lífið sækir fram”, val ljóða og prédikana eftir sr. Bolla Gústavsson. Hún var flutt árið 1982.

Lúkasarguðspjall 2. 1-14

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Skín á himni heimi sendir bjarma sinn komin enn með bjarmann sinn jólastjarnan mín og þín.

Segðu okkur enn í dag um frelsarann sem fæddist fæddist til að boða frið og fæddist fyrir mig og þig.

Skín á himni heimi sendir bjarma sinn jólastjarnan mín og þín. Brennur hún í austri brennur hún af sorg. Enn brenna í austri ómáttugar þjóðir brenna af sorg brenna af kvöl þjóðirnar í austri brenna af kvöl.

Segðu okkur enn í dag um frelsarann sem fæddist. Segðu að hann komi enn og breiði friðarfaðminn sinn móti heimi okkar og móti mér og þér. Að hrópað geti allir svo sorg hennar slokkni sorg hennar slokkni stjörnunnar okkar „Yður er í dag frelsari fæddur sem er Kristur Jesús í borg Davíðs.“

„Brennur hún í austri, brennur hún af sorg.“ Svo segir um stjörnu jólanna í ljóði ungrar skáldkonu, Nínu Bjarkar Árnadóttur. Það er vert umhugsunar, hve ung skáld á okkar tímum víkja oft að uppsprettu kristindómsins, leita að tilgangi mannlífs á jörðunni í kjarna þeirra atburða, sem við minnumst á þessari þekku hátíð.

Frásögnin af þeim er eins og rammger viti, sem stafar sterku ljósi út í dimman sorta, er verður að láta undan þeim skæra bjarma. „Komin enn með bjarmann sinn“. Ennþá, þrátt fyrir allar hrakspár um að sá tími komi, að jólasaga Lúkasar verði undir í öllu amstri og áhyggjum manna, falli í gleymsku vegna spánýrra hugsjóna og þeirrar háreysti, sem þeim fylgir. „Heimi sendir bjarma sinn“ og hann nær að skína í gegnum öll myrkur, honum tekst að yfirskyggja alla falsglýju. En jafnframt vitum við fullvel, að oft brennur jólastjarnan af sorg. Um þessar mundir brennur hún af sorg yfir því ofurkappi voldugra þjóða, sem hervæðast og stofna mannkyni í geigvænlega tortímingarhættu. Um alllangt skeið hefur fjöldinn reynt að leiða hjá sér líkur á þeirri hættu, reynt að kæfa kvíðann með þrotlausu amstri og hugvitssemi í gerð fjölbreyttra afþreyingarmeðala. En nú dylst engum að jólastjarnan logar af sorg heilla þjóða, ekki einungis í austri, heldur í öllum áttum vegna þeirrar þrákelkni metnaðargjarnra valdhafa og ágjarnra vopnasmiða.

Hvert ljós, sem tendrað er á þessum jólum lýsir upp eitt orð skráð og hrópað á öllum tungumálum: Friður. Þjóðirnar gera sér glögga grein fyrir því, að það verður ekki þaggað né ljós þess kæft og fjöldahreyfingarnar, sem hrundið hefur verið af stað í þágu friðar, verða ekki stöðvaðar.

Ýmsir spekingar halda því fram, að ótal tákn séu á lofti, sem minni á aðdraganda þeirra stórátaka, sem fyrr á þessari öld leiddu óumræðilegar hörmungar yfir heimsbyggðina. Þeir fullyrða margir, að hér sé um óhagganlegt lögmál að ræða, sem verði að hafa sinn gang. Þetta er skelfileg villukenning, sem við verðum allir að kveða niður og til þess hjálpar okkur sá, sem í upphafi tendraði þá jólastjörnu á himni, sem nam staðar yfir fjárhúsi við Betlehem.

Nú kann einhver að spyrja: Til hvers er að flytja þennan boðskap hér í fásinninu á norðurslóð? Það er annar misskilningur, úrelt fullyrðing um óbreytanlega staðreynd. Hér er ekkert fásinni lengur eða einangrun, sé miðað við samgöngur og aðstæður til mannlegra samskipta á tækniöld.

Þeir eru ófáir í samfélagi okkar við nyrsta haf (við austanverðan Eyjafjörð), sem hafa heimsótt fjarlæg lönd og hingað koma menn frá ýmsum heimshornum og blanda geði við okkur. Þá er þáttur fjölmiðla ótalinn. En hér er þó skemmra litið en skáldið Davíð Stefánsson gerði, er hann sagði: „Það er sagt, að við búum á ysta hjara veraldar. Það hef ég aldrei skilið. Hitt veit ég, að sú jörð, sem við byggjum, er ein af stjörnum himinsins.“

Þessi orð skáldsins bregða ljósi yfir jólamynd skáldkonunnar ungu, þegar hún yrkir um stjörnu, sem brennur af sorg og þjóðir, sem brenna af sorg og kvöl. Stjarnan er tákn lífsins, tákn hjartans, sem slær ýmist ört af gleði og hamingju eða þrútið af sorg, órótt af kvíða. Síðar í sömu hugleiðingu segir Davíð: „Þegar stjórnmálaskörungar stórveldanna þrýtur visku, grípa þeir til helsprengjunnar, tákns heimsku og guðleysis.“

Á Íslandi hefur þjóð búið í þúsund ár, hafnað öllum hergögnum, og að þessu leyti gerst fyrirmynd annarra þjóða heims. Hún hefur skapað andleg verðmæti, ræktað og rutt vegi, og síst eru lífskjör og menntun almennings minni hér en með stórþjóðum. Ennþá lesum við þjóðleg fræði og helgirit, en í þeim búa meginkraftar, sem yfirbuga alla tísku og stundarfyrirbrigði, en glæða vöxt hins innsta kjarna, gáfur þjóðarinnar. Vel fer á því, að hún ávarpi hvern forráðamann sinn líkt og sænsku dalakarlarnir Gustav Vasa forðum: „Fylgir þú okkur að málum, ert þú stórmenni, snúist þú gegn okkur, ert þú einskis virði.“

Þessi tímabæra ræða skáldsins frá Fagraskógi er dæmi um hversu misjafnt gildi orðanna getur verið. Þau höfða til okkar hér á þessari stundu, ekki síður nú en fyrir aldarfjórðungi, þegar þau voru mælt á hátíðarstundu á miðju sumri við Lagarfljót. Í þeim felst veigamikill hluti svarsins við þeirri spurn, sem varpað var fram hér á undan: Til hvers er að flytja þennan boðskap hér? Það sem á skortir svarið varðar þig, einstaklinginn, viðhorf þitt og sálarástand. Þegar þar að kemur er mikilvægt að nota hátíðarfriðinn, helgina hljóðu eftir allt amstrið, til þess að spyrja sjálfan sig: Á ég friðinn? Þann innri frið, sem lýsir mér áfram og hærra og eykur birtuna í kringum mig, hefur bætandi áhrif á aðra í kringum mig, þá sem ég umgengst í daglegu lífi.

Allur boðskapurinn, sem grundvallaður er á lífi barnsins, er lagt var í jötu í lágu fjárhúsi við Betlehem fyrir nær 2000 árum, hann miðar að því, að gefa þér sannan frið í sálu og lífi þínu háleitan tilgang. Myndin, sem þú átt svo skýra í huga þínum af þeim atburði minnir þig á, hvað þú þarft fyrst að gera. Þú sérð fjárhirðana, fátæka erfiðismenn í slitnum ígangsklæðum krjúpa við jötuna. Þú þarft að gera það sama og þeir: Krjúpa niður í auðmýkt og einlægni og játa: Ég er í þörf fyrir hjálp þína, Kristur, ég vil fylgja þér frá jötunni, áfram þótt leiðin sé grýtt, allt að krossinum. Þar tek ég óverðugur við gjöf þinni, öðlast hlutdeild í sigri þínum yfir synd og dauða, geng fagnandi til móts við ljós eilífs lífs. Á þeirri leið á ég þess kost að vinna gegn því, að jólastjarnan þurfi að brenna af sorg.

Hvert uppörvunarorð við raunamædd meðsystkin, hvert handtak til hjálpar og liðsinnis breytir skini stjörnunnar, gjörir það mildara og bjartara. Gætum að því, að gjöra ekki lítið úr áhrifum orðanna, þau geta byggt upp og brotið niður, veitt dýpri sár en nokkurt lagvopn, grætt og bætt meira en dýrustu læknislyf. Og máttur bænarinnar er dýrmætasta gjöf, sem okkur er rétt. Hér er bænastaður, mikilvægasta aflstöð þessa byggðarlags. Og þú átt hér mikilvægu hlutverki að gegna, ef þú kærir þig um. Bæn þín fyrir friði sameinast milljónum bæna, sem verða voldugasta aflið gegn því myrkravaldi, sem ógnar lífinu á jörðinni.

Hinn kunni rithöfundur, Ólafur Jóhann Sigurðsson, annar þeirra Íslendinga, sem hlotið hafa bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, skrifaði mér kveðju fyrir síðustu jól. Þar segir m.a: „Þegar þú kemur hingað suður, þá væri ráð að líta inn til mín, þó ekki væri nema til þess að ræða um heiminn.“ Skáldið telur hann ekki í góðum höndum og bætir við: „Og full þörf á því að liðsinna höfundi vorum í baráttunni við makt myrkranna.“ Þetta kunna einhverjir að kalla of mikla bölsýni. Ólafur Jóhann er dulur maður, alvörugefinn drengskaparmaður, einn þeirra miklu listamanna, sem háð hafa harða innri baráttu, sem horfir um síðir til traustrar trúar. Ég tel mig ekki bregða trúnaði við hann, þótt vitni ég til þessara orða, því að þau eru í einlægni rituð og hvatning til okkar allra, að sameinast í máttugri bæn fyrir innri og ytri friði. Og áþekk orð felast í eftirfarandi ljóði Ólafs Jóhanns:

BARIÐ

Göngumóður á grimmri öld glataðra drauma og vígafars einn ber að dyrum undir kvöld ævi þinnar, og bíður svars.

Rétt eins og forðum ferðast sá fylgdarlítill um þennan heim. Hleypir þú loku hurðum frá? Hvernig skal taka gesti þeim?

Á þessari hátíð hlýtur sú spurn skáldsins að vera áleitin. Hleypum við lokunni frá og tökum fagnandi á móti þeim hógværa gesti, sem englaskarar fylgdu til jarðar með dýrðarsöngnum:

„Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem Hann hefur velþóknun á.“

Guð gefi að við undir tökum öll þann englasöng. Í Guðs friði. Amen.