Hvenær er nóttin liðin og dagur runninn?

Hvenær er nóttin liðin og dagur runninn?

"Stef guðspjalls dagsins eru áþekk og í Davíðssálminum og Filippíbréfinu. Trú, von og kærleikur og einnig: Sorg, vanmáttur, varnarleysi og reiði."
Mynd

“Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi”. Amen.

Sorg.

Fyrirgefning.

Miskunn.

Trú.

Von.

Hjálpsemi.

Kærleikur.

Þetta eru meðal annarra: umfjöllunarefni  130 Davíðssálms.

Textinn er frá því nokkrum hundruðum árum fyrir fæðingu Jesú Krists en umfjöllunarefnin þekkjum við úr hinum daglega veruleika.

Sístæð, sígild.

Við höfum tekist á við þau í ýmsum myndum: stundum með djúpum tilfinningum eða tærri gleði.

Sum höfum við grátið af sorg eða gleði.

Þráð fyrirgefningu og miskun eða fyrirgefið og miskunað okkur yfir einhverju eða einhverjum.

Þegið von og hjálp Guðs og gefið öðrum von og hjálp.

Séð náunga okkar og miðlað áfram trú, von og kærleika.

Þarf maður að þekkja sjálfan og sjá sjálfan sig til að þekkja og sjá aðra?

Í umhugsunarveðri fyrirsögn eins dagblaðanna í gær segir meðal annars: í viðtali við leikritarhöfund og leikskáld í tilefni af frumsýningu í Þjóðleikhúsinu

“Málið er að við þekkjum okkur ekki sjálf og í leikhúsinu getum við kynnst okkur sjálfum betur.”

“Við höldum oft að við þekkjum annað fólk, en blekkjum okkur, en oft er það líka þannig að við þekkjum ekki okkur sjálf jafnvel og við höldum.”

Er eitthvað til í þessu?

Hvað er það að vera manneskja?

Í bókinni “Orð í gleði” er eftirfarandi saga eftir Buber:

“Rabbíinn spurði lærisveina sína hvernig maður geti vitað hvenær nóttin er liðin og dagur runninn. 

„Er það þegar maður getur úr fjarlægð þekkt hund frá lambi?“spurði einn lærisveinanna.

„Nei,“ svaraði rabbíinn. 

„Er það þegar maður getur úr fjarlægð greint fíkjutré frá mórberjatré?“ spurði annar. 

„Nei,“sagði rabbíinn.

„Hvenær þá?“spurðu lærisveinarnir. 

„Það er þegar þú sérð ókunnuga manneskju og þekkir þar bróður þinn eða systur. 

Fyrr er dagur ekki runninn.

                  ______________________

Sérð þú sjálfa eða sjálfan þig í lífinu eða náunga þinn?

Ræður trú, von og kæreikur þar för?

Getur þú kynnst öðrum, talað við annað fólk og hlustað á það?

Látið til dæmis: umburðarlyndi, hluttekningu, jákvæðni,  virðingu víðsýni, skilning og gleði ráða för?

Gefið birtu og breytt dimmu í dagslós?

Tengt með hlýju við tilfinningar samferðafólks þíns hér á jörð?

Verið styðjandi og hvetjandi?

Umvafið þig einhvern veginn í orðum þeirra, sem á vegi þínum verða og miðlað af uppsprettum hjarta þíns?

                  ________________________

Hvernig tökust við á við ýmis lífsins stef og allar þær tilfinningar sem þeim fylgja?

Til dæmis: sorg eða gleði?

Marteinn Lúther spurði á sínum tíma: 

Hvar finnur maður fegurri orð í gleði og dýpri orð í sorg en í Davíðssálmunum?”

Davíðssálmarnir eru rík uppspretta mikilla tilfinninga og þeir hafa öðlast líf við notkun.

Þeir voru þýddir og færðir í sálmabúning á sextándu öld og sr. Valdimar Briem orti til dæmis: sálma út frá öllum Davíðssálmunum við lok 19. aldar. 

Margir hafa heyrt brot úr Davíðsálmum við útfarir og sumir finna fyrir persónulegri uppbyggingu í þeim.

“Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta”

Sá eða sú, sem les eða heyrir getur fengið orð til dæmis: þegar kjark brestur og tekið til sín næringu úr þeirri von um breytingu, sem skín í gegnum fjölmarga Davíðssálma.

Þegar Marteinn Lúther spyr hvar finna megi fegurri orð í gleði og dýpri orð í sorg en einmitt í Davíðssálmunum, þá skýrir hann það að nokkru leyti með því hversu vel þeir hafa elst. 

Í Davíðssálmum talar maðurinn við Guð af dýpstu hjartarótum

Ég ákalla þig Drottinn úr djúpinu, viltu hlusta á mig?

Ég vona á þig, ég treysti á þig.

Umfjöllunarefnin úr Filippíbréfi Páls, postula, sem lesið var á áðan eru einnig sígild.

Hugrekki.

Trú.

Hjálpsemi.

Dauði.

Von.

Kærleikur.

Þegar Páll skrifaði Filippíbréfið sat hann í fangelsi, boðaði Guðs orð og leitaðist við að vera náunganum náungi í orði og verki.

Þótt ýmislegt væri Páli í mót gafst hann ekki upp.

Hugrakkur, vonaði og treysti á kærleika Guðs.

Stef guðspjalls dagsins eru áþekk og í Davíðssálminum og Filippíbréfinu.

Trú, von og kærleikur og einnig:

Sorg, vanmáttur, varnarleysi og reiði.

Guðspjallið á sér stað í sorgarhúsi.

Lasarus, bróðir Mörtu og Maríu var búinn að vera látinn í fjóra daga.

Nafnið Lasarus merkir: sá sem Guð hjálpar.

Lasarus er sístæður.

Rithöfundar og leikritarskáld eins og: Dostojevský, Mark Twain og Eugen O´Neil hafa fjallað um hann í verkum sínum.

Tónlistarmenn eins og: David Bowie og Nick Cave hafa sungið upp Lazarus.

Rapparar hafa notað hann í lögum sínum, hann hefur verið til umfjöllunar í kvikmyndum og tölvuleikjum og áfram mætti upp telja.

Af hverju er Lasarus sístæður, sá sem Guð hjálpar?

Jesús Kristur þekkti Lasarus og systur hans.

Þær voru búnar að senda boð eftir Jesú og var efalaust farið að lengja eftir honum en Betanía var ekki langt frá Jerúsalem. 

Marta fór á móti Jesú og sagði við hann: ef þú hefðir komið fyrr þá væri Lasarus ekki látinn.

Hún var reið, var takast á við sorg og allar þær tilfinningar, sem henni fylgja.

En Marta efaðist ekki um samband Jesú Krists við Guð og hluteild hans í lífgefandi afli Guðs.

Marta játaði þá trú, sem er grundvöllur, kirkjunnar, þá trú, sem við vorum skírð til.

Stundum spyr sá eða sú sem syrgir: 

Ef Guð er til, hvernig getur hann þá horft upp á þjáingu og böl?

Ef Guð er kærleikur þá þyldi Guð ekki að horfa á þjáningu og sorg.

Kraftaverk kærleikans er stórt.

Þar er Guð að verki.

Guð sendi son sinn í þennan heim til að sýna okkur að trúin, vonin og kærleikurinn sigra.

Jesús Kristur treysti lærisveinunum fyrir boðskap sínum.

Hann treysti okkur til að vera náunganum náungi í orði og verki.

Trúrir þú því og treystir?

“Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda.  Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.  Amen.”

Takið postullegri blessun:

“Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.”