Matt. 5:1-12
Komið þið sæl.
Ég var afskaplega glöð þegar Sigurður bað mig að predika hér í dag. Það er ekki oft sem óvígðir guðfræðingar fá tækifæri til að predika og glíman við að miðla boðskap Biblíunnar á þennan hátt hefur alltaf heillað mig.
Það sljákkaði reyndar aðeins í mér þegar ég heyrði um predikunarefnið. Sæluboðin eru fjarskalega vel þekktur kafli í Biblíunni. Og þó að til séu margir vel þekktir kaflar sem eru góðir að predika út frá þá er þessi svolítið ofnotaður, fannst mér. Hann er svo vel þekktur reyndar að hann rennur iðulega framhjá okkur sem falleg orð án þess að við tökum eftir innihaldinu.
En hluti þess að predika er að glíma við textann og kvarta ekki og við nánari skoðun varð ég að viðurkenna að mörg þessara sæluboða eru falleg og boðskapurinn sterkur: Sæl eru þau sem syrgja því að þau munu hugguð verða. Sælir eru friðflytjendur því að þeir munu guðs börn kallaðir verða. Sæl eru þau sem hungrar og þyrstir eftir réttlæti því að þau munu södd verða. Sæl eru miskunnsöm því að þeim mun miskunnað verða.
Sumt er torskildara: Sælir eru fátækir í anda – hvað er að vera fátækur í anda – og hvað er svo sælt við það? Af hverju eru það þau hógværu sem erfa jörðina?
Þegar við stöndum frammi fyrir texta sem er þúsund ára gamall og hefur verið þýddur úr arameisku yfir í grísku og þaðan á íslensku er svosem ekki undarlegt að eitthvað við hann geti vafist fyrir okkur.
Þegar guðspjallamaðurinn skrifar þennan texta eru fylgjendur Krists lítill sértrúarhópur sem var að kljúfa sig frá gyðingdómi. Bæði þessi trúarbrögð voru í minnihluta í Rómverska heimsveldinu og það var fólki ekki sérstaklega til framdráttar að vera kristið.
Það var miklu frekar erfitt – Þá eins og nú gat verið óþægilegt að vera öðruvísi. Við finnum fullt af upplýsingum um þetta í nýja testamenntinu. Kristið fólk var ofsótt, sett í fangelsi, jafnvel líflátið – en það glímdi líka við ýmis konar vanda í hversdeginum þó að hann hafi ekki ógnað lífi þeirra. – Hvernig áttu þau, sem Kristin, að hegða sér í ýmsum aðstæðum: hvað með keisaradýrkun, hvað með þátttöku í heiðnum hátíðum sem „allir“ taka þátt í? Það er erfitt að vera öðruvísi og sú tilhneiging hefur alltaf fylgt mannlegu samfélagi að veitast að þeim sem eru öðruvísi. Við sjáum það allt í kringum okkur í veröldinni, allt frá einelti í skólum að reiði og tortryggni gagnvart minnihlutahópum og jafnvel hreinar ofsóknir.
Þetta þekkti Mattheus og hann sótti huggun í orð Krists: sæl eru þau sem ofsótt eru fyrir réttlætis sakir því að þeirra er himnaríki – og – Sæl eruð þið þegar fólk gerir grín að ykkur og lýgur til um ykkur vegna Krists – ykkar laun eru mikil á himnum.
Orð Jesú, skráð af Mattheusi, minntu söfnuðina í frumkristni á að Guð dæmir ekki eins og veraldleg yfirvöld gera – og hann fylgir heldur ekki dómi götunnar. Þau sem heyrðu þessi orð fyrst þekktu bakgrunn þeirra, og undruðust þau ekki á sama hátt og ég gerði þegar ég fór fyrst að skoða þau. Í þessum orðum heyrðu fyrstu hlustendurinir óminn frá Jesaja spámanni um Guð sem huggar hina hrelldu, boðar fjötruðum lausn. Huggar og leysir.
Og annars staðar segir Jesaja:
„Hlýðið á mig, þér sem þekkið réttlætið, þú lýður, sem ber lögmál mitt í hjarta þínu.“
Réttlátir eru þeir sem hlýða orðum Guðs, bera lögmál hans í hjarta sínu.
En hvað með fátæktina í anda? Það er líka einkenni þeirra sem fylgja Guði.
Að vera fátækur í anda er ekki að vera heimskur eða heimsk. Að vera fátækur í anda er að vita að okkar vilji er breyskur að geta okkar er takmörkuð. Að vera hógvær er að þekkja takmörk hins mannlega og treysta Guði. Þess vegna segir Jesús að fátækra í anda sé himnaríki og þau hógværu erfi jörðina.
Það er erfitt fyrir okkur á síðkristnum tíma að skynja þá huggun sem fólst í þessum orðum fyrir hina fyrstu kristnu, reyndar kristið fólk allt fram á fjórðu öld, því að það var víða ofsótt. Þau sem liðu fyrir trú sína sóttu styrk í þá hugsun að ofsækjendur þeirra ættu ekki síðasta orðið. Í heimi Guðs var dýptin önnur og meiri en virtist við fyrstu sýn. Í heimi guðs var von.
En hvernig er það með okkur? Þurfum við eitthvað á þessum orðum að halda. Að vera minnt á að það er ekki alltaf auðvelt að gera það sem er rétt. Hvernig finnst okkur að vera minnt á þörf fyrir miskunn? Að ekki er allt sem sýnist – að sorg og dauði á ekki lokaorðið.
Fæst okkar verða væntanlega fyrir ofsóknum vegna trúar okkar. En þegar við stöndum frammi fyrir erfiðleikum í lífinu geta þessi orð minnt okkur á þá von sem Guð boðar okkar.
En orðin tala ekki bara til þeirra sem eiga erfitt. Vegna þess að textinn fjallar um þau sem fylgja Kristi. Og þau eru sæl. Pistillinn í dag minnir okkur á það, þar var lesið úr opinberunarbókinni um sæluna á himnum. Það flytur okkur þann boðskap að dauðinn á ekki síðasta orðið og að sælan er eilíf. Við fáum mörg sælutilboð daglega. Sæl eru þau sem eru grönn, kauptu þér megrunarduft. Sæl eru þau sem vinna í lottó, kauptu þér miða.
En það er ekki sú fallvalta sæla sem talað er um í texta dagsins. Hann fjallar um lífið hér og nú, hvernig sem þú ert og hvað sem þú átt. Að vera fátæk í anda, réttlát, hógvær – það er lýsing á þeim sem fylgja Jesú og þau eru sæl af því að þau þekkja Guð og sú þekking er þeim styrkur í lífinu. Þetta var reynsla hinna fyrstu kristnu og kristins fólks í aldanna rás. Það hefur líka verið mín reynsla. Að þekkja Guð – eða kannski frekar sú vitneskja að Guð þekkir mig og samþykkir mig eins og ég er - hefur skipt mig miklu máli. Og þó að ég geti aldrei nokkurn tíma sannað tilvist Guðs – né heldur afsannað – þá veit ég sjálf að mín reynsla er sú að Guð er mér nálægur, að Guð heyrir bænir mínar, kennir mér daglega hvernig ég get lifað sem kristin manneskja og veitir mér styrk til þess. Hér og nú. Og vegna þess að Guð gefur mér það er ég sæl. Það er það sem textinn hvetur okkur til.
Verið þið sæl.