Tónlist hversdagsins

Tónlist hversdagsins

Ég held það megi vel skoða boðskap Jóhannesar í samhengi þeirra hugmynda sem hér eru ræddar. Erindið sem Jóhannes átti við fólkið rímar furðuvel við hugleiðingar nafna hans, Lennons.

 

Nú þegar hið hversdagslega tekur við af hátíðinni er vert að spyrja hvað það er sem einkennir þá daga. Einn daginn skreytum við jólatré með glitrandi kúlum og ljósum og svo litlu síðar reynum við hvað við getum að losa okkur við grenið og viljum helst ekkert meira af því vita.

 

Tónlist hversdagsins

 

Já, vissulega er hversdagurinn jafn nauðsynlegur hluti tilverunnar og hátíðin. Án hans væri vitaskuld engin tilbreyting, stöðugur ys og endalaus litadýrð. Nóg þykir okkur mörgum um það hversu fljótt þau byrja að spila jólalögin í útvarpinu. Og haustið er varla gengið í garð þegar fyrirtækin fagna jólunum. Við hér í kirkjunni sýnum öllu meira hóf í þessum efnum.


En hver skyldu vera einkenni hversdagsins? Já, í samhengi jólalaganna: hvaða tónlist hæfir hinu fábrotna, sjálfum hvunndeginum?

 

Einhvern tímann hefðum við stungið upp á stefi Jóns Leifs á gömlu gufunni sem þau léku milli dánartilkynninga og frétta af aflatölum báta á Íslandsmiðum. En í hinu alþjóðlega samhengi, þá held ég einmitt að óður Lennons – Imagine geti fallið undir það að vera einkennislag hins hversdagslega.

 

Ekki aðeins fyrir látleysið, laglínan með einfaldasta móti, aðeins leikið létt á píanó, engar bakraddir eða önnur viðhöfn. Það er fremur textinn. Þar er þegar spurt hvort við gætum ímyndað okkur að ekkert sé himnaríkið og engar séu eignirnar, engin landamæri og engin trúarbrögð.

 

Er þetta ekki óður til hins fábrotna? Boðskapurinn er jarðbundinn og að baki býr sú hugsun að ef engar væru hugmyndirnar um hið háleita og stóra – væri, rétt eins og englarnir boðuðu á Bethlehemsvöllum: friður á jörðu.

 

Það á svo sannarlega erindi inn í okkar tíma sem aðra. Nú horfum við upp á skelfilegar þjáningar saklausra á átakasvæðum og spyrjum okkur hvort ekki séu aðrir valkostir í þessum heimi en sú hugsun að ráðast gegn öðrum með slíku ofbeldi í nafni hugmynda og til að ná undir sig meiri auði.

 

Jóhannes

 

Og á þessum fyrsta sunnudegi að loknum jólum birtist okkur myndin af Jóhannesi skírara í textum dagsins. 6. janúar, þrettándinn varð að minningardegi um skírn Jesú í ljósi þess þegar jólahátíðin var færð til 25. desember. Því lesum við þann texta í dag.

 

Ég held það megi vel skoða boðskap hans í samhengi þeirra hugmynda sem hér eru ræddar. Erindið sem Jóhannes átti við fólkið rímar furðuvel við hugleiðingar nafna hans, Lennons. Hann stóð utan við borgaralegt samfélag þess tíma og hafnaði þeim gildum sem þar voru viðtekin.

 

Jóhannes ögraði viðteknum hugmyndum sem byggðu á því að draga fólk í dilka, skapa einhvers konar landamæri á milli hópa. Sjálfur var hann eignalaus og erindið sem hann átti var sannarlega jarðbundið. Svo er það hitt – að þar sem hann stóð þarna úti í náttúrunni voru það skilaboð út af fyrir sig.

 

Jórdan

 

Það var vissulega ekkert nýtt á þessu svæði að fólk væri ausið vatni og þar með skírt inn til nýrrar tilveru og trúarsannfæringar. Við musterið í Jerúsalem voru laugar og hver þeirra var í umsjón einhvers trúarsamfélags sem keppti um sálirnar á þessum tíma. Þessar laugar voru kallaðar mikvah og voru þarna í hjarta borgarinnar. Það var um leið til að undirstrika að fólk væri hluti hins gyðinglega samfélags þegar það tók skírn á þessum stöðum.

 

Jóhannes aftur á móti leitaði í óbeislað vatnið sem rann þarna í gegnum landið. Það var hluti þess vistkerfis sem skipti sköpum fyrir þetta landsvæði. Með því móti krafði hann engan um aðild að tilteknum hópi eða raðaði fólki í flokka. Hann undirstrikaði það að allir voru jafnir og allir voru líka hluti lífríkis og náttúru – ekki fyrirframgefinna flokka sem myndaðir höfðu verið.

 

Þar að auki er áin Jórdan stórmerkileg frá sjónarhorni landafræðinnar. Við getum við sagt að á þessi flytji sína predikun á alveg sérstakan hátt. Hún rennur í tvö vötn og þau eiga enga aðra vatnsuppsprettu. Þó eru vötnin tvö eins ólík og hugsast getur. Annað þeirra, Geneseretvatn eða Galíleuvatn er fullt af lífi og veitir þar að auki næringu sína til landsvæðisins þarna í kring.

 

Hitt vatnið sem áin rennur í er svo Dauðahafið. Jafnvel þótt Jórdan sjái því líka fyrir öllu vatni, er það eins og nafnið gefur til kynna með öllu lífvana. Skýringin á þessum andstæðum er sú að fyrrnefnda vatnið er jafn lífríkt og raun ber vitni er sú það miðlar vatninu áfram.

 

Áin rennur aftur út úr Geneseretvatni og fyrir vikið helst þar eðlileg hringrás lífs og efna. Dauðahafið á hinn bóginn hleypir engu frá sér. Berglögin í kringum það eru svo þétt að þar lokast allt inni og svo þegar sólin skín á yfirborðið gufar vökvinn upp en söltin verða eftir.

 

Það er eins og áin minni okkur á það að sá sem hrifsar allt til sínl, miðlar engu áfram. Sá sem kærir sig ekki um hina náttúrulega hringrás, staðnar, dofnar, visnar og deyr rétt eins og hið dauða haf.

 

Að hrifsa til sín eða deila með sér?

 

Já, þessi er vettvangur Jóhannesar sem hafði einmitt þennan sama boðskap að flytja til fólksins sem kom úr borginni út í óbyggðirnar og hlýddi á orð hans. Lúkas lýsir því sem svo:

 

Mannfjöldinn spurði hann: „Hvað eigum við þá að gera?“ En hann svaraði þeim: „Sá sem á tvo kyrtla gefi þeim er engan á og eins geri sá er matföng hefur.“ Þá komu og tollheimtumenn til að skírast. Þeir sögðu við hann: „Meistari, hvað eigum við að gera?“ En hann sagði við þá: „Heimtið ekki meira en fyrir ykkur er lagt.“

 

Svona var boðun Jóhannesar og hún var í samræmi við lífsmátann hjá okkar manni. Það er svo lítillætið sem Jóhannes sýnir sem gerir hann að verðugum fulltrúa þeirra daga sem nú eru gengnir í garð.

 

„Ég skíri ykkur með vatni en sá kemur sem mér er máttugri og er ég ekki verður að leysa skóþveng hans. Hann mun skíra ykkur með heilögum anda og eldi.“

 

Já, hann mætti Jesú af auðmýkt og sagðist frekar eiga skilið að þiggja frá honum skírn en að skíra hann.

 

Það er sennilegt að einmitt þessi boðskapur fari að taka við í samfélagi okkar í allra nánustu framtíð. Heimtið ekki meira en fyrir ykkur er lagt – ef við hugleiðum það þá hafa boðorð samtímans einmitt verið öndverð þessari hugsun. Heimtið sífellt meira – þannig hljóðar áróðurinn sem á okkur dynur í sífellu og það er ekki lítið í húfi að við fylgjum honum til hlítar.

 

Ef við fáum ekki leið á því sem við eigum, ef það bilar ekki samkvæmt áætlunum þá loka búðir og verksmiðjur. En við sjáum um leið skuggahliðar heimtufrekjunnar, áganginn á náttúruna og auðvitað grimmdina þegar þjóðir berast á banaspjótum um takmarkaðar auðlindir.

 

Ímyndið ykkur

 

„Ímyndið ykkur“ orti Lennon – já gerið ykkur í hugarlund heim sem er ekki með þessum ósýnilegu línum og fyrirmælum sem skapa misrétti og jafnvel hatur á milli fólks. Getum við það? Í guðspjallinu lesum við um þennan fyrirrennara, þann sem svo skírði Jesú. Við hlýðum á þessa frásögn þar sem hann kemur fram sem boðberi jöfnuðar.

 

Þar var hann að sama skapi undanfari þess sem átti erindi við mannkyn – ekki aðeins á tyllidögum heldur miklu fremur í annríki daganna, valkosta hversdagsleikans þar sem við vegum og metum stöðu okkar og framgöngu gagnvart okkar minnstu sysktinum.

 

Þessi er einmitt boðskapurinn sem mætir okkur nú þegar við setjum jólaskrautið í kassa og lokum inni í einhverri geymslunni. Tilgangi okkar mætum við í fólkinu sem verður á vegi okkar í lífinu. Sá tilgangur er algildur – hann á ekki aðeins við þegar ljósadýrðin ljómar, hann varðar hverja vökustund okkar og þá arfleifð sem við svo skiljum eftir okkur.