Hver vegur að heiman er vegur heim

Hver vegur að heiman er vegur heim

En hvaða krafa býr að baki spurningu Jesú, þegar hann spyr Símon Pétur “elskar þú mig”? Jú það er krafan um umbreytandi elsku, gæt þú lamba minna, ver hirðir sauða minna, gerðu eftirfylgdina við son Guðs að veruleika í lífi annarra. Breyttu heiminum með kærleika hans, láttu ekki þögnina umlykja atburði páskanna, Kristur dó ekki til þess að þú litir í gaupnir þér, hann dó og reis upp til þess að þú gætir horft framan í náunga þinn.

Reykvísk fjölskylda situr við kvöldverðarborðið heima hjá sér og borðar soðinn fisk, veðurfréttirnar eru lágt stilltar í útvarpinu og hljóma fremur eins og seyðandi dinnertónlist en praktískar upplýsingar, andrúmsloftið er milt og alúðlegt, “skyggni ágætt”, heyrist í bakgrunni tuggðra ýsubita, það er mánudagskvöld.

Skyndilega lítur örverpi heimilisins 12 ára þéttvaxinn drengur með spekingsleg gleraugu í yfirstærð upp úr disknum horfir rannsakandi á móður sína og spyr, “mamma elskarðu mig.” Móðurinni verður nokkuð hverft við svo henni svelgist á vatnssopanum en lítur svo blíðum augum á son sinn og svarar,” já Þórir minn ég elska þig.” “Mun létta til er líður á daginn” heyrist eins og frelsandi rödd af veðurstofu útvarps inn í afhjúpandi samskipti mæðginanna. Drengurinn er ekki hættur, “mamma elskarðu mig” spyr hann aftur með rúgbrauðið á milli tannanna “ auðvitað Þórir minn, hvað er þetta, auðvitað elska ég þig.” “ En mun þykkna upp og ganga á með skúrum með kvöldinu,” segir útvarpsþulurinn eins og leiklýsandi við matarborðið. “Mamma ertu viss um að þú elskir mig spyr drengurinn í þriðja sinn og ekki er laust við að gæti örvæntingar í málrómnum. Móðirinn lítur hvasst framan í son sinn, “Láttu ekki svona Þórir Örn, þú veist vel að ég elska þig, af hverju spyrðu svona asnalega.” “Nú ég var bara að spá afhverju þú skilur þá ekki við hann pabba og giftist kallinum sem á sjoppuna hérna á móti,” svarar drengurinn um leið og hann sér sælgætisdraumana svífa út um gluggann.

Þessi skondna saga lýsir ekki skilyrðislausum kærleika.

En kærleikurinn er það miklvægasta sem okkur hlotnast í þessu lífi og þess vegna kallar hann bæði eftir ábyrgð og fórn, kærleikurinn gerir kröfur um réttlæti.

En hvaða krafa býr að baki spurningu Jesú, þegar hann spyr Símon Pétur “elskar þú mig”? Jú það er krafan um umbreytandi elsku, gæt þú lamba minna, ver hirðir sauða minna, gerðu eftirfylgdina við son Guðs að veruleika í lífi annarra. Breyttu heiminum með kærleika hans, láttu ekki þögnina umlykja atburði páskanna, Kristur dó ekki til þess að þú litir í gaupnir þér, hann dó og reis upp til þess að þú gætir horft framan í náunga þinn. Í guðspjalli dagsins er Jesús að spyrja okkur sem kirkju hvað við ætlum að gera með hjálpsræðisverk hans, dauða hans og upprisu. Ætlum við að varpa öndinni léttar og þakka fyrir að það skyldi vera hann sem dó en ekki við og halda svo áfram göngunni án átaka í huggulegheitum hvunndagsins, já ætlum við að velja þægindi fram yfir frelsi. Við þurfum ekki að vera hrædd, Kristur tekur ekki til baka það sem hann hefur gert fyrir okkur en hann spyr okkur hins vegar í dag hvað við ætlum að gera með hans lífgefandi kærleika. Við eigum nefnilega að halda áfram að skoða heiminn þó að Kristur sé búinn að frelsa hann. Og það gerum við með því að axla ábyrgð og færa fórn. Það gerði Pétur og Páll og líka fullt af nafnlausum konum sem enginn vill kannast við. Þau fórnuðu örygginu fyrir frelsið.

Getum við sem kirkja haldið áfram að vaxa án þess að tala saman, hvernig getum við breytt heiminum ef við þekkjum ekki náunga okkar. Manstu þegar Jesús sagði, “Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Leiguliðinn sem hvorki er hirðir né sjálfur á sauðina sér úlfinn koma og yfirgefur sauðina og flýr og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim. Enda er hann leiguliði og lætur sér ekki annt um sauðina.” Við sem kirkja megum aldrei verða leiguliðar. Við eigum að þekkja sauðina og gæta þeirra. Jesús var ekki góður hirðir vegna líkamlegra yfirburða, hann var góður hirðir af því að hann snerti sauðina í kærleika af samúð og í samlíðan. Vegna hins umbreytandi kærleika sem á uppsprettu sína í hjálpræðisverki Jesú Krists er íslenska þjóðkirkjan það skjól sem fjöldi manna þiggur og sá fjöldi er fjölskrúðugur. Við megum svo sannarlega ekki gleyma því að hún hefur verið samferða þjóðinni á flestum sviðum mannlífsins í meira en þúsund ár, flestum sviðum segi ég en þó ekki öllum. Hin kristna kirkja er elsta mannréttindahreyfing í heiminum, markmið hennar er og verður að leiða manneskjur til fundar við frelsarann, já til fundar við hann sem lét sig öll svið mannlegrar tilveru varða. Hann hafði ekki tíma til að standa í kokteilboðum og tala um veðrið, hann valdi ekki öryggi fyrir sjálfan sig heldur vann að frelsi fyrir okkur. “Refir eiga greni sagði Jesús og fuglar himins hreiður en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að halla.” Nú er komið að því að við sem trúar og mannréttindahreyfing yfirgefum hýðið og göngum fram með samkynhneigðum og styðjum réttindi þeirra til hjúskapar, já nú er orðið tímabært að kirkjan öðlist lagalegan rétt til að framkvæma hjónavígslu samkynhneigðra para á sama hátt og gagnkynhneigðra . Við verðum að fara að horfa framan í samkynhneigða samlanda okkar og svara sjálfsagðri mannréttindakröfu þeirra sem hefur verið ósvarað alltof lengi. Við verðum að opna fyrir tilfinningalegu frelsi manneskjunnar af því að það samræmist kristnu siðferði. Marteinn Lúther King sagði eitt sinn í baráttu sinni gegn aðskilnaðarstefnunni í Bandaríkjunum, “á endanum munum við ekki muna orð óvinarins heldur þögn vinarins.” Já kirkjan að fyrirmynd Jesú Krists er nefnilega fyrst og síðast vinur, mannvinur og þess vegna má hún ekki þegja, nei þvert á móti á hún að tala inn í óvæginn tíðaranda og aldrei í lífinu má hún viðhalda órétti með því að stara í gaupnir sér. Og þegar ég kæri áheyrandi er að tala um kirkjuna, þá er ég að tala um mig og þig.

Í bandarísku tímariti kemur fram að þau sem að a.m.k þekkja einn samkynhneigðan einstakling séu meira en helmingi líklegri til að samþykkja og líta jákvæðum augum á hjónaband samkynhneigðra en þau sem engan slíkan aðila þekkja. Þetta hljómar tilfinningalega rökrétt í mínum eyrum enda er það afar erfitt að heyra samkynhneigðan einstakling sem er manni kær segja, “ég er ekki velkominn í kirkjuna þar sem samband mitt við maka minn er ekki viðurkennt sem eðlilegt og fallegt tilfinninga og trúnaðarsamband, þar sem það er álitið annars flokks fjölskylduform. Þar sem samvistir karls og konu eru taldar hið æskilega af því að þar er kynferðisleg og félagsleg hlutverkaskipan samkvæmt hefðinni.

Hefðin elskar nefnilega öryggi en hinn umbreytandi kærleikur elskar frelsið.

Ef að samverska konan sem Jóhannes guðspjallamaður greinir frá hefði ekki mætt Jesú Kristi þann dag sem hann settist vegmóður við brunninn og bað hana um vatn, þá hefði, HEFÐIN, orðið hennar dómsvald, því hún var jú útlendingur og kona og hafði átt fimm menn svo engum fannst um vert að tala við hana. Nema Jesú, hann sá ástæðu til að opinbera sig henni og uppskar forundran lærisveina sinna. Hún uppskar hins vegar félagslegan sigur innan síns samfélags því frelsarinn sjálfur hafði velþóknun á henni svo að engum gat dirfst að fordæma hana. Jesús spurði hana ekki um ástæður þess að hún hafði átt fimm menn, enda var það ekki kjarni málsins, ástæðurnar gátu verið ótalmargar. Kjarni málsins var að hún var hans lamb og hann var góði hirðirinn. Kirkjan á að vera farvegur félagslegs frelsis einstaklingsins og hún að að leysa fjötra fordóma og einangrunar Eitt af málefnum alþingiskosninganna þetta vorið er einmitt staða innflytjenda, stjórnmálaafl sem kennir sig reyndar við frelsi bendir á innflytjendamál sem vandamál. Gæti verið að vandamálið liggi frekar í því að við höfum ekki fyrir því að kynnast þessum nýju íslendingum af því að það er ekki hefð fyrir því og svo er það heldur ekki alveg fyrirhafnalaust? Gæti verið að því sé eins farið með samkynhneigða og innflytjendur að eftir því sem við kynnumst fleirum úr þeim þjóðfélagshópi verðum við jákvæðari og sjáum að þau ógna ekki tilveru okkar heldur gæða hana fjölbreytni og víðari sýn, gæti það verið?

Munurinn á spurningu 12 ára drengsins sem vildi að ást móður hans leiddi til aukins sykuráts og á spurningu Jesú er sú að Kristur spurði “ elskar þú mig” til þess að líf þitt mætti verða fyllra, hann vildi greiða upprisu sinni veg þér til heilla og blessunar, af því að hann elskar þig, já hvort sem þú ert ungur eða gamall, feitur eða mjór, Íslendingur eða Taílendingur, samkynhneigður eða gagnkynhneigður, karl eða kona. “Hver vegur að heiman er vegur heim” segir í ljóði eftir Snorra Hjartarson, já gangan um lífið er ganga frá Kristi til Krists, það er hann sem er upphaf og endir alls frá eilífð til eilífðar og þess vegna þarf ekkert okkar að halda að við eigum lokasvarið í baráttunni fyrir mannréttindum. Það svar á Kristur einn, en baráttan er okkar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda amen.