„Eyða fordómum, efla skilning og virðingu ...“

„Eyða fordómum, efla skilning og virðingu ...“

Þegar ég hóf störf í Fella-og Hólakirkju fyrir ári kortlögðu og greindu sóknarnefndir og starfsfólk helstu þarfir íbúa í hverfinu, með tilliti til þess hvar kirkjan gæti orðið að liði. Þá kom strax fram sú hugmynd að vinna með innflytjendum í hverfinu þar sem stór hópur fólks af erlendu bergi brotið býr hér í efra Breiðholti.
fullname - andlitsmynd Ragnhildur Ásgeirsdóttir
23. september 2006

Ragnhildur Ásgeirsdóttir, djákni hóf störf í Fella-og Hólakirkju fyrir ári síðan. Frá þeim tíma hefur eldri borgara starfið vaxið gífurlega í kirkjunni. Góður hópur eldra fólks kemur saman reglulega og er alltaf  boðið upp á fræðslu og umfjöllun um áhugaverð og skemmtileg mál. Auk þess að sjá um eldri borgara starfið mun Ragnhildur hafa umsjón með og skipuleggja starf með innflytjendum í kirkjunni. Okkur lék forvitni á að vita meira um þá fyrirhuguðu starfsemi.

Ragnhildur, getur þú sagt okkur frá verkefninu sem þið eruð að fara af stað með?  

Ragnhildur:  Þegar ég hóf störf í Fella-og Hólakirkju fyrir ári kortlögðu og greindu sóknarnefndir og starfsfólk helstu þarfir íbúa í hverfinu, með tilliti til þess hvar kirkjan gæti orðið að liði. Þá kom strax fram sú hugmynd að vinna með innflytjendum í hverfinu þar sem stór hópur fólks af erlendu bergi brotið býr hér í efra Breiðholti. Okkur fannst því tilvalið að hefja starf sérstaklega með það markmið að stuðla að samskiptum milli Íslendinga og innflytjenda, eyða fordómum, efla skilning og virðingu á milli fólks. Verkefnið átti aldrei að vera fyrir innflytjendur heldur með innflytjendum og því settum við á laggirnar stýrihóp með fólki úr ýmsum áttum. Þar er prestur innflytjenda, fulltrúar innflytjenda, fulltrúi frá Alþjóðahúsinu, fulltrúi  frá þjónustumiðstöðinni og fulltrúi kirkjunnar. Þessi hópur hefur hist og undirbúið verkefnið sem við viljum kalla “ Litróf “,  sem minnir okkur á fjölbreytileika mannlífsins og hve mikilvægt  það er að við öll sem eitt fáum að njóta okkar eins og við erum.

Hvað er á döfinni í verkefninu “Litróf” ? 

Ragnhildur: Við erum núna þessa dagana að undirbúa málþing sem haldið verður í Fella-og Hólakirkju laugardaginn 23.september. Á þessu málþingi verður rætt um stöðu innflytjenda í hverfinu, hvað er verið að gera með og fyrir innflytjendur til að aðlaga þá samfélagi okkar. Við veltum fyrir okkur spurningunni hvort  fordómar séu fyrir hendi  og hvernig hægt sé að stuðla að aukinni virðingu á milli fólks. Málþingið er ókeypis en það verður helst að skrá sig í s:557-3280 eða í Fella- og Hólakirkju. Boðið verður upp á léttan hádegisverð en málþingið stendur frá  kl. 10 – 13.  Borgarstjórinn okkar ætlar að setja þingið og við erum ákaflega ánægð með áhuga hans á málefninu.  Nú, málþingið fer fram á íslensku en við ætlum að hafa málþingsgögn á ensku eða punkta úr fyrirlestrum. Síðan er fyrirhugað að fara í ferðalag 8.október og einnig verður “culture crossed lunch” og fleira skemmtilegt.  

Hefur þú einhverja hugmynd um  hvernig innflytendum líst á þetta ?

Ragnhildur: Þau sem ég hef talað við eru mjög jákvæð og finnst þetta spennandi. Toshiki Toma, prestur innflytjenda er auðvitað mun meira í samskiptum við innflytjendur heldur en ég og ég heyri á honum að innflytjendur eru þakklátir og áhugasamir um verkefnið. Það hefur komið fram að fólk er jákvætt fyrir því að kirkjan sé að stíga fram í samvinnu við þjónustumiðstöðina í Breiðholti, félagsstarfið í Gerðubergi, heilsugæsluna og innflytjendur sjálfa um verkefni þar sem kirkjan verður vettvangur fyrir fólk að hittast og vera saman án beinnar boðunar. Við viljum  frekar  sýna í verki hvað kirkjan vill standa fyrir og leggur mesta áherslu á, en það er kærleikurinn, og hann er hafinn yfir allt, kynþátt, litarhátt, trú, stétt eða stöðu.

Hvernig hefur þessu verkefni verið tekið innan þjóðkirkjunnar ?

Ragnhildur: Það er auðvitað mjög jákvætt hvað kirkjan hefur tekið þessu verkefni vel. Auðvitað er þetta þróunarverkefni sem við verðum stöðugt að þróa og meta. Fella-og Hólakirkja hefur fengið styrk frá þjóðkirkjunni sérstaklega til að sinna þessu verkefni og það erum við mjög þakklát fyrir. Ég hef  fengið mikla hvatningu frá prestum og starfsfólki Fella-og Hólakirkju og sr. Svavar Stefánsson hefur verið á kafi með mér í öllum undirbúningi. Sóknarnefndirnar styðja við bakið á verkefninu og það er ekki lítils virði þegar verið er að prófa eitthvað nýtt. Ég er mjög bjartsýn á að þetta eigi eftir að ganga vel, ég á þrjú börn sjálf og það er gríðarlega skemmtilegt þegar verið er að bjóða upp á starf sem er fjölbreytt og kostar ekkert að taka þátt í. Það gefur öllum möguleika á að koma og vera með.

E-að að lokum ?

Ragnhildur: Já, ég vil umfram allt hvetja fólk til að taka þátt. Um er að ræða fjölskyldustarf, starf fyrir alla aldurshópa, við viljum fá ömmur og afa, pabba og mömmur og börnin með, bæði íslenskar fjölskyldur og fjölskyldur af erlendum uppruna. Við viljum fá litróf mannlífsins.  Ég held að við ættum að hvetja hvert annað að koma og vera með í starfinu, þá verður svo gaman og við byggjum upp gott samfélag. Er það ekki það sem við öll viljum, byggja upp frábært hverfi, þar sem við öll, eitt og sérhvert skiptum máli og þar sem okkur öllum líður vel ?

 

Innilegar þakkir og gangi ykkur vel.