Hlekkir og slóðir

Hlekkir og slóðir

Sagan sem við hlýddum á hér í guðspjalli dagsins er að vissu leyti dæmigerð fyrir frásagnir Biblíunnar. Það er að segja, hún geymir tilvísanir í önnur rit þeirrar miklu bókar, nánast eins og við værum að vafra um á internetinu og gætum smellt á einstaka orð og setningar og flakkað þar með á milli síðna.

Flutt 21. janúar 2018 í Neskirkju

Ég hef sinnt stundakennslu í kirkjusögu í guðfræðideild undanfarin misseri og sannast þar sú viska að maður lærir mest á að kenna öðrum. Sagan skiptist í ákveðin tímabil og í vor er það nútíminn, já nútímakirkjusaga. Ég var eitthvað að ræða þetta við vin minn, verkfræðing í hátæknifyrirtæki, og hann spurði fyrir forvitnissakir hvaða tímabil það væri annars sem guðfræðingar kenndu við nútímann.

Aldamótin 1800?

„Nú, það er auðvitað frá aldamótunum 1800,” svaraði ég að bragði, „þegar fornu biskupsembættin á Hólum og í Skálholti voru sameinuð í eitt og flutt til Reykjavíkur. Þá hófst nýtt skeið í hinu kirkjulega samhengi og staðnað fyrirkomulag bændakirkjunnar vék smám saman fyrir ögn, tjah, nútímalegra skipulagi.”

Það er ekki að undra að félagi minn skyldi hvá er hann heyrði mig kalla það nútíma sem í flestra huga er grá forneskja. Í hans geira úreldast hugmyndir á nokkrum mánuðum. Flest gengur víst hægar fyrir sig í kirkjunni. Við þurfum ekki annað en að velta fyrir okkur þeirri staðreynd að við köllum bók sem er tæpra tvöþúsundára gömul, „Nýja testamentið”. Sér er nú hver nýlundan, gæti einhver sagt!

Hlekkir og slóðir

Sagan sem við hlýddum á hér í guðspjalli dagsins er að vissu leyti dæmigerð fyrir frásagnir Biblíunnar. Það er að segja, hún geymir tilvísanir í önnur rit þeirrar miklu bókar, nánast eins og við værum að vafra um á internetinu og gætum smellt á einstaka orð og setningar og flakkað þar með á milli síðna. Já, tíminn líður mishratt og þegar samtímafólk Mattheusar, þess sem skráði frásagnirnar niður, heyrði þessar sögur voru atburðir Gamla testamentisins þeim ljóslifandi þótt þeir væru jafnvel þúsunda ára gamlir.

Móse og Elía koma þar fram, þessir tveir af mestu leiðtogum Ísraelsmanna, Móse leiddi þjóðina úr þrælabúðunum í Egyptalandi og Elía, kraftaverkaspámaðurinn var sagður hafa haldið á brott úr þessum heimi í logandi eldvagni. Þessi ummyndun sem frásögnin dregur heiti sitt af vísar til þeirra fornu sagna að klæði Móse hafi lýst, þá er hann steig niður af Sínaífjalli með steintöflurnar er geymdu boðorðin tíu. Það er líka stef í öðrum bókum Gamla testamtentins að himneskar verur hafi haft á sér glóandi klæði og sú tilvísun er einnig í Opinberunarbókinni, síðustu bók Biblíunnar.

Úr verður einhvers konar örsaga, þar sem stórbrotnum atburðum er lýst í fáeinum málsgreinum en vísar í ýmsar áttir. Pétur býðst til að gera þeim tjaldbúð – aftur erum við komin með slóð á aðra staði í Biblíunni, nefnilega aðra Mósebók þar sem Ísraelsmenn gerðu slíka tjaldbúð utan um sáttmálsörkina með boðorðunum. Það mannvirki skiptist í minni hólf, hið allra heilaga þar sem örkin var og svo smám saman vék helgin fyrir hinu almenna. Það er í raun svipað og þessi helgidómur hér. Kristnar kirkjur hafa sótt fyrirmynd í hina fornu tjaldbúð.

Þá er þetta í annað sinn í guðspjalli Mattheusar þar sem Drottinn talar. Í báðum tilvikum er greint frá björtu skýi sem í hinu biblíulega samhengi var tákn um guðlega nærveru. Og orðin eru þau sömu og óma í sögunni af því þegar Jesús var skírður í ánni Jórdan. Þar sem talað er um elskaðan son Guðs, er enn rifjað upp sígilt stef. Sonur Guðs er í raun eins konar umbjóðandi Guðs. Konungar voru stöku sinnum sæmdir þessari nafnbót eða einkar spakir menn. Í kristnum skilningi birtir Jesús okkur það hvernig Guð starfar, sem fórnar sjálfum sér í skilyrðislausum kærleika til mannanna.

Þetta er að sönnu litrík frásögn, við gætum kallað hana leiðslusögu sem er á mörkum tveggja heima. Hún hefur þar að auki að geyma hugtök og orð sem tengjast hugmyndum okkar um gott og illt. Hún vísar sannarlega aftur fyrir sig með fjölmörgum skírskotunum í Gamla testamentið. En undir þessu glampandi yfirborði leynist forspá um hina komandi tíma sem biðu þess sem þarna var hafinn upp til skýjanna með hinum æðstu. Hlutskipti þess sem þarna var sagður vera sonur Guðs áttu síður en svo eftir að verða þrautarlaust. Hans átti eftir að bíða svik og einsemd, miskunnarlaust ofbeldi og niðurlæging sem birtist okkur hvað skýrast á krossinum.

Trúarleg reynsla

Af hverju að segja sögu með svo flókum hætt? Svona getum við spurt. Hér er eins og svo víðar í menningu okkar leita að lindum sannleikans. Hann er grundvöllur kristinnar trúar. Ljósið sem er svo einkennandi í sögunni vísar til þekkingar og upplýsingar. Við mennirnir erum ólíkir flestum spendýrum, að skynfærin okkar starfa illa í myrkri og því verða andstæðurnar, ljós og myrkur til marks um það sem við getum skilið og hitt sem við fáum engan botn í. Við vitum hversu bjargarlaus við erum þar sem engin týra fær skinið. Sjálf Biblían hefst á yfirlýsingunni: „Verði ljós!” og uppfrá því breytist glundroði í skikkan, óskapnaður í sköpun.

Þegar við rýnum í það flókna kerfi sem mannsálin er, þá sjáum við hvernig hún birtist okkur í sögum og helgisögnum sem flókin, dularfull, mótsagnarkennd og full af togstreitu. Hvað merkir það að vera manneskja? Fræðin segja að þrjár og hálf milljón ára hafi liðið frá því að forfeður okkur greindust frá öðrum öpum í náttúrunni. Óslitin keðja nær svo allt til okkar daga. Þótt hún sé okkur að miklu leyti hulin, eigum heimildir um það hvernig maðurinn hefur reynt að átta sig á því hver hann er. Við finnum ótalmargt úr sögu þessarar tegundar sem birtist okkur í öllum þessum myndbrotum og sögum. Mikið af því er svo kölluð trúarleg reynsla þar sem atburðir eiga sér stað sem breyta lífi fólks og færa það frá einum stað til annars.

Þeir eru samt þess eðlis að erfitt er að koma þeim í orð. Þá reynslu tjáum við ekki með þeim hætti sem t.d. vinur minn verkfræðingurinn gerir þegar hann skilar inn skýrslum um einhverjar framkvæmdir. Til þess eigum við á hinn bóginn litríkar, auðugar og margbreytilegar túlkanir listarinnar þar sem, rétt eins og í biblíulegum textum er vísað fram og aftur. Áhorfandinn þarf stundum leiðsögn til að komast inn í hugskot þess sem verkið vann, eða sem er jafnvel enn dýrmætara – finnur sjálfur þá skýringu sem talar inn í líf hans og tilvist.

Biblian og listin

Með sama hætti geymir Biblían flókna texta eins og þann sem við hlýddum á hér áðan. Í vissum skilningi getum við sagt að það hafi tekið þúsundir ára að setja hann saman. Það er langur tími í ýmsu samhengi. Á því skeiði hafa mörg konungsríki risið og hnigið í duftið. Þjóðir hafa borist á banaspjótum, kastalar og musteri hafa verið byggð með blóði, svita og tárum og hrunið aftur til grunna. Biblían er að því leyti sterkari en steinninn og stálið, textinn meira lifandi en konungar og stríðsmenn sem óðu yfir lönd og héruð. Sögurnar eru þar að auki dularfullar, við vitum ekki alltaf hvernig þær voru settar saman, hverjir skráðu þær í fyrstu og hvers vegna þær höfðu svona mikil áhrif.

Af hverju að lesa þessa gömlu bók? Af hverju að halda á lofti svo gömlum sögum, hefðum og já, stofnun? Hvað er nútími? Nær hann aftur til aldamótanna 1800, eins og í mínu fagi? Það er ekki víst að málfræðingi fyndist það svo óskaplega forn tími. Orðin sem frá okkur streyma og leika um huga okkar eiga sér ævarfornar rætur. Hægt er að rekja þau aftur í söguna, í gegnum þjóðflutninga og allt til árdaga siðmenningar. Enn síður hefði jarðfræðingur sopið hveljur yfir þessu tíma-tali svo ekki sé nú talað um stjörnufræðing!

Tilvera okkar líkist ferðalagi þar sem við leitum sannleikans. Þegar við göngum heil inn í þá leit, getum við slegist í hóp með fyrri kynslóðum sem leggja okkur mikið til. Biblíutextarnir eru innblásnir af þeirri viðleitni. Þeir verða ekki túlkaðir með réttu án þess að ýmis sjónarmið séu tekin með þegar við rýnum í þá og leitum skýringa. Það megum við nútímamenn vita, hvernig sem skilgreiningin á okkur kann svo sem að hljóma.