Inngangur Af öllum listgreinunum er tónlistin óhlutbundnasta og fjölbreyttasta listformið. Það kemur vel fram ef við hugum bara að helstu gerðum tónlistar eins og kammertónlist, óperum, mörsum, dægurlagatónlist, jassi, poppi, klassík, rokki, blús, kirkjutónlist o.s.frv. Og við bætast svo ótal stefnur og straumar innan hvers flokks.
Við verðum líka vör við að hvert tónlistarform þarfnast síns staðar og stundar. Tónlist sem leikin er í kvikmyndahúsum er annars eðlis en sú sem flutt er í tónleikasölum. Þessu veldur að tónlist mótast af því rými sem hún er flutt í. Þannig getur dægurlag sem venjulega er flutt á öldurhúsi orðið að játningu og lofgjörð fyrir það eitt að vera flutt í kirkju.
Þessu veldur eðli tónlistarinnar, það er að hún að tjáir einhverjum eitthvað eins og gleði, sorg, reiði, ánægju eða lýsir einhverju eins landslagi, atburðum, ferðalagi o.s.frv. Það er eins tónlistin ljúki upp nýrri vídd eða sé vídd sem spannar allt sem við þekkjum og setji í nýtt samhengi, enda er hún samofin öllu sem er. Þegar í fornöld greindu menn þetta. Þannig uppgötvuðu fræðimenn í Babýlon og Grikklandi að þau lögmál sem gangur himintunglanna laut væru þau sömu og lágu tónlistinni til grundvallar. Það kemur því lítt á óvart að tónarnir, sem allir tónstigar byggja á, stjörnumerkin og mánuðir ársins séu tólf. Í samhengi þessa greindu menn á milli þess sem kallað var (l.) musica humana eða tónlist manna og (l.) musica mundana, tónlist alheimsins. Allt í veruleikanum á hér sinn tón og tölu.
Í Ritningunni er vísað til þessa á einum stað: „En þú [Guð] hefur skipað öllu eftir mæli, tölu og vog“ (Speki Salómons 11.20). Vísindamenn til forna tengdu þannig tónlistina beint við sköpun Guðs og það hafa þeir verið að gera allar götur síðan. Þessu veldur líka að það er eins og rýmið öðlist vídd sína í takti tónlistarinnar og þar sameinist flæði tímans í líðandi stund.
Gildismat og tónlist Það kemur því lítt á óvart að tónlistinni hafi verið skeytt við aðra þætti. Menn álitu snemma að bein tengsl væru á milli hennar og siðferðis. Þannig greinir heimspekingurinn Plato (422–347 f.Kr.) á milli góðrar tónlistar sem þjónar velferð ríkisins og slæmrar tónlistar sem ekki gerir það. Plato talar meira segja um hvaða takt– og tóntegundir séu hér hentugar og hverjar ekki. Að mati hans á því ríkisvaldið að tryggja rétt tónlistarlegt uppeldi og koma í veg fyrir að óæskileg tónlist sé flutt.
Átökin um hvað teljist góð og hvað sé vond tónlist hafa sem sé staðið lengi. Merkilegt er að til að útiloka nýjungar í tónlist er oft gripið til þess háttar mælikvarða.
Vissulega geta slíkar ákvarðanir verið skiljanlegar ef við hugum hér t.d. að austurkirkjunni eða grísk-orþódoxu kirkjunni. Ef við skoðum helgihaldið hjá þeim verðum við vör við að þar er yfirleitt ekki stuðst við orgel eða önnur hljóðfæri við guðsþjónustur. Þetta kemur okkur spánskt fyrir sjónir en ástæðan er skiljaleg. Í fornöld þegar kristnir menn voru ofsóttir í Rómaveldi og var smalað saman í hringleikahúsin, þar sem fólk skemmti sér við að horfa á skylmingarþræla myrða eða villidýr rífa í sig kristna píslarvotta – var við þessa blóðugu skemmtun einmitt leikið undir á orgel og blásið í lúðra. Orgelin voru þá að vísu mjög ófullkomin, en tónar þeirra höfðu og hafa svipuð áhrif á kristna einstaklinga eins og tónlist Richards Wagners – sem mikið var flutt í útrýmingarbúðum nasista – á þá sem lifðu af helförina.
Alla vega hafa menn í gegnum aldirnar leitast við að meta tónlist í samhengi þess sem þeir telja að eigi við eða ekki. Hér er vissulega allt breytingum háð, því það sem eitt sinn þótti fráhrindandi og framandi venst með tímanum og verður eðlilegt. Gott dæmi um slíkt er jassinn og rokkið og þau hljóðfæri sem þeim tengjast eins og saxafónn, rafmagnsgítar og trommur. En hvað segir Ritningin um tónlistina?
Tónlistin og Ritningin Þegar Gamla testamentið er lesið, verðum við vör við hve tónlist er þar mótandi í daglegu lífi, trúarlífi og helgihaldi Hebrea. Þó af þeim stöðum, þar sem hennar er sérstaklega getið, sé ekki hægt að greina hvaða tónlistarstílar voru mótandi, er ljóst spilað var hörpur, blásturs- og ásláttarhljóðfæri. Að blása í lúðra hefur ætíð þótt hátíðlegt og afgerandi. Við þekkjum frásöguna er Jeríkóbúar lokuðu hliðum borgar sinnar fyrir Ísraelsmönnum, sem þrömmuða þá í kringum múr borgarinnar „en í sjöunda sinnið þeyttu prestarnir lúðrana […] Hrundi þá múrinn til grunna“ (Jós 6. 16–20). Samkvæmt Ritningunni getur lúðrablástur ekki bara verið öflugur, heldur áttu prestar að getað blásið í lúður.
En samkvæmt henni er tónlistin líka huggandi, þar segir m.a. frá því er þunglyndi sótti á Sál konung þá hafi Davíð leikið fyrir hann á hörpu og sungið sálma til að lýsa upp myrkrið í hjarta konungs.
Þegar þeir textar sem fjalla um tónlist í guðsþjónustunni eru skoðaðir kemur í ljós að í henni hefur verið leikið á lúðra, hörpur, gígjur og bumbur og önnur ásláttarhljóðfæri. Og söng hefur verið gert hátt undir höfði, þá jafnt víxlsöng og sálmasöng. Í guðsþjónustunni hafa textar verið lesnir, tónaðir og sungnir (Sbr. Sl 150). Í Davíðssálmum kemur fram að margir þeirra voru fluttir sem víxlsöngur þar sem forsöngvara var svarað af kór eða söfnuði (Sl. 42. 2–3; 103.1; 121.7; 137.1–4).
Í guðsþjónustu synagógunnar (samkunduhússins) var margt af því sem tíðkaðist í musterinu í Jerúsalem nýtt og lagað að aðstæðum hennar. Þar átti hver fullvaxinn karlmaður að vera fær um að lesa úr Ritningunni og tóna texta hennar. Þar voru líka bænir og sálmar sungin. Í heimildum er ekki talað um hljóðfæraleik, en þær eru af skornum skammti. Fyrsta heimildin um guðsþjónustu synagógunnar er frá fjórðu öld e.Kr. en þar er að finna frásagnir um sálmasöng.
Í ritum Nýja testamentisins er þó nokkuð fjallað um tónlist og vægi hennar. Eins og þekkt er, safnaðist frumsöfnuðurinn saman í heimahúsum þar sem fagnaðarerindið um Krist var flutt og sálmar sungnir. Sálmar frumsafnaðarins eru margir hverjir meistaralega samdir, um það vitna t.d. sálmurinn í Filíppíbréfi (Fil 2.6–11) eða Kærleiksóðurinn í Fyrra Korintubréfi (1Kor 13). Í Opinberun Jóhannesar lýsir sjáandinn, Jóhannes, í mörgum sýnum, dýrð og lofsöngvum guðsþjónustunnar á himnum. Í sýnunum koma fram kórar af englum og öðrum himneskum verum sem flytja lofsöngva frammi fyrir Guði (Op 4.11). Í sýnunum er gerð grein fyrir heilu atriðunum úr guðsþjónustunni á himnum (Op 5.9–14; 7.9–12: 8.2; 14.2–3; 15. 2–4). Og allir taka þátt í henni, menn af öllum kynþáttum og alls staðar að af jörðinni. Píslarvottar mynda kóra og leikið er undir á ýmis hljóðfæri. Staðreynd er að þessar lýsingar Opinberunarbókarinnar hafa mótað bæði guðsþjónustur sem og kirkjubyggingar kristninnar.
Að lokum: Páll postuli segir á einum stað: „ávarpið hvert annað með söngvum, lofsöngvum og andlegum ljóðum. Syngið og leikið fyrir Drottin í hjörtum yðar.“ (Ef 5.19). Af þessum orðum er ljóst að tónlistin er ekki bundin við guðsþjónustuna eina, heldur býr í hjörtum fólks.
Að ofangreindu er ljóst að í Ritningunni er fólk hvatt til þess iðka tónlist bæði í lífi og leik. Hún setur ekki fram reglur um hana eða hverskonar tónlist eigi við í helgihaldi. En menn geta hér vel tekið mið af orðum Páls: „allt er ykkar. En þið eruð Krists […] Allt er mér leyfilegt, en ekki er allt gagnlegt“ (1Kor 3.22–23; 6.12). Við getum þannig nýtt það sem viljum fyrir guðsþjónstuna – við svo að segja skírum það og bjóðum velkomið.
Í lokin – svo við komum aftur að orgelinu sem sumir kalla drottningu hljóðfæranna. Það komst eftir nokkrum krókaleiðum inn í guðsþjónustuna og var þar þróað áfram svo óhætt er að segja að það sé orðið að meginhljóðfæri þar í lofsöngvum og huggun. Er það ekki enn eitt dæmið um náð Guðs, Guðs sem tekur allt og alla að sér og leiðir til góðs?