Konungurinn kemur

Konungurinn kemur

Að hylla Jesú sem konung er að taka söguna um innreið hans í Jerúsalem alvarlega sem mikilvæga valdabaráttu. Að sjá Jesú sem konung er að taka afstöðu í málefni þar sem er ómögulegt að vera hlutlaus. Þetta snýst að öllu leyti um afstöðu okkar til eigin lífs og þeirra afla sem stjórna veröldinni í kringum okkur. Hvað á að ríkja í huga okkar og hjarta? Hvaða „ríki“ viljum við sjá á jörðinni? Fagnaðarerindið um Jesú Krist bendir á Guðs ríki, - himnaríki. Þar á að ríkja öðru fremur réttlæti, friður og gleði andans.
Gamli konungurinn, Davíð, var bæði gamall og þreyttur. Það var kominn tími til að einhver af sonum hans tæki við völdum. Einn af sonum Davíðs, Adónía, var líklegri en aðrir og hann sjálfur taldi sig sjálfkjörinn sem arftaka föður síns. Það töldu líka fleiri. Adonía hafði þegar safnað hirð í kringum sig og haldið stóra veislu og bjó alla undir að hann myndi taka við af hinum mikla kóngi sem hafði reynst Ísraelsmönnum svo heilladrjúgur og sigrað marga óvini þjóðarinnar. En Adónía var ekki einn um slíkar langanir. Hann átti hálfbróður að nafni Salómon og hann hafði líka hug á hásætinu. En þrátt fyrir að Adonia væri þegar kominn langleið í hásætið og viðurkenndur af bæði her og höfðingjum þá fór það ekki svo. Spámaðurinn Natan skarst í leikinn og hinn aldni konungur Davíð kom með þá ráðagerð að setja ösnufola sinn undir Salómon og fá hann smurðan til konungs við Gihonlind. Salómon var því smurður til konungs yfir Júda og Ísrael þó að hásætið væri þegar upptekið af Adónía. Salómon ríður til lindarinnar og þar er „blásið í hljóðpípur og menn létu feginslátum“. Þó Adonía hefði valdhafana sín megin í byrjun og færi vel af stað þá hafði hann ekki sigur. Öll borgin var í uppnámi og mikill fögnuður vegna Salómons. Adonía tapar í baráttunni um hásætið og hann er drepinn.

Þessi saga er í fyrsta kafla í Fyrri bók konunganna og hefur flest til að bera sem spennusaga eða reyfari þarf að hafa. Baráttu um völd og áhrif, afbrýðisemi, samkeppni, dráp, trúmál og stjórnmál, allt í einni blöndu. Átökin um konungstigninga eftir Davíð mynda ákveðinn bakgrunn sögunnar um innreið Jesú í Jerúsalem. Sagan séð í slíku ljósi sýnir að sá litli sakleysislegi asni sem Jesús reið á er líklega ekki svo saklaus þáttur í aðventuhátíðum eins og við annars hefðum haldið. Þvert á móti, asninn vitnar um að Jesús kemur inn í borgina með miklar kröfur. Hann er konungurinn sem er kominn að hásæti sínu og hann ríður á asna Davíðs konungs.

Jesús ríður vissulega inn í Jerúsalem í fátækt og á auðmjúkan hátt. En hann er engu að síður viss í sinni trú. Hann er sannfærður um málstað sinn. Nú verður það að gerast. Nú er tíminn kominn. Jesús ríður inn í borgina þar sem valhafarnir ráða og eiga sínar hallir. Það er alls enginn staður fyrir konunginn Jesús þar og það veit hann sjálfur mætavel. Þar var stjórnkerfi, helgihald, trúarkerfi og valdhafar sem Jesús var ekki hluti af eða tengdur á nokkurn hátt. Hann var utangarðsmaður. Meiri utangarðsmaður en Salómon konungur sem var þó sonur Davíðs konungs og gat því gert kröfu til hásætisins. Salómon reið inn í Jerúsalem, jafnvel þó að hásætið væri þegar upptekið. Og Jesús gerir það sama. Hann býður valhöfunum birginn. Því söng María móðir Jesú í hinum þekkta lofsöng: „Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upphafið smælingja“. Jesús er kominn til að krefjast ríkis síns.

En segja má að samlíkingunni við Salómon ljúki hér. Salómon stýrði veraldlegu ríki með mjög skrifræðislega stjórn og mikla skattbyrði sem lagðist þungt á marga. Jesús kom til Jerúsalem með himnaríki. En það eru þessi líkindi milli sagnanna um arftaka að þegar bæði Salómon og Jesús riðu inn í asna í Jerúsalem var í raun ekkert pláss fyrir þá þar sem hásætið var þegar frátekið. En þeir sem höfðu völdin misstu þau síðan. Bæði Salómon og Jesús eiga það sammerkt að þeir eru sigurvegarar. Salómon vann ríkið, Jesús sigraði syndina og dauðann.

Að hylla Jesú sem konung er að taka söguna um innreið hans í Jerúsalem alvarlega sem mikilvæga valdabaráttu. Að sjá Jesú sem konung er að taka afstöðu í málefni þar sem er ómögulegt að vera hlutlaus. Þetta snýst að öllu leyti um afstöðu okkar til eigin lífs og þeirra afla sem stjórna veröldinni í kringum okkur. Hvað á að ríkja í huga okkar og hjarta? Hvaða „ríki“ viljum við sjá á jörðinni? Fagnaðarerindið um Jesú Krist bendir á Guðs ríki, - himnaríki. Þar á að ríkja öðru fremur réttlæti, friður og gleði andans. Ef við skoðum í kringum okkur þá sjáum við að veröldin og samfélagið í kringum okkur einkennast ekki af þessu þrennu. Í dag kemur Jesús ríðandi á asnanum og býður okkur að fylgja sér. Það er barátta framundan! Það er uppi krafa um réttlátt samfélag þar sem gæðum jarðar er bróðurlega skipt. Þar er ekki pláss fyrir spillingu og mútur. Ekki græðgi.
Friður er því miður ekki heldur eitthvað sem heimurinn þekkir eða býr við. Milljónir eru á flótta undan stríðstólum. Og gleðin, hvar er hún? Sem betur fer má víða finna gleði, jafnvel í óréttlæti og ófriði heimsins. Sum gleðin er þó aðeins skammvinn. Sum innihaldslítil. Jesús ætlar okkur þá gleði sem varir. Fögnuð í trú. Gleði yfir Guðs góðu sköpun, kærleika til náungans og í garð okkar sjálfra. Gleði þar sem við fögnum því sem er gott og fagurt. Gleði þar sem við göngum gætilega fram gagnvart náttúrunni og öðru fólki.

„Gjörið iðrun. Himnaríki er í nánd. “(Matt. 4: 16-17) Boðið sem eitt sinn hófst í Galíleu um að taka á móti himnaríki hefur nú einnig náð höfuðborginni. Það hefur náð þeim stað þar sem baráttan um hásætið verður háð af mestum þunga og verður erfiðust. Í sjálfri Jerúsalem. Til að hylla Jesú sem konung og taka á móti honum þarf að taka á móti ljósinu hans og kærleika og hleypa inn í líf sitt. Það kann að vera erfitt, sérstaklega þegar aðrir hafa sett sig í hásæti í lífi okkar. Þegar hjarta okkar og hugur hefur augljóslega ekkert pláss fyrir „utangarðsmanninn“ Jesú. Hver það er sem situr í hásæti þínu ágæti kirkjugestur veit ég ekki. En ég bið þig að leita og sjá hvern þú finnur. Ég veit hver vill koma til þín og hvern væri hollt að fá.

Bæði myrkur og ljós geta birst í mörgu. Þannig var það á tíma Salómons, það var eins á tíma Jesú og það er þannig á okkar tímum. Myrkur og ljós geta talað sitt eigið tungumál. Stundum læsvíslega og hvíslandi en stundum hrópandi. Myrkur og ljós geta líka talað pólitískt tungumál eða efnahagslegt tungumál eða hvaða tungumál sem er. Tungumál myrkurs er illska og hatur, lævísi, svik og mútur. En gegn því stendur tunga ljóssins. Orð Biblíunnar, orð Jesú Krists. Máttarorð ástarinnar og kærleikans. Vonin, trúin og kærleikurinn. Allt það góða sem gerir okkur að betri manneskjum. Við skulum skoða tungutakið okkar þegar við hyllum konung lífsins sem heldur inn í okkar eigin andlegu Jerúsalem ríðandi á sínum asna. Megi aðventan verða okkur tími andlegrar leitar. Sjálfskoðunar þar sem við hreinsum hugann af því sem slæmt og vill drottna yfir okkur. Og megi þessi tími hjálpa okkur að taka á móti ljósi Jesú Krists sem er að koma til ykkar. Amen