Fyrri hluti þessa pistils birtist miðvikudaginn 9. apríl.
IV
Staða kirkju og kristni gjörbreyttist við þessar aðstæður, í stað þess að vera mótandi afl í samfélaginu verður hún ein af mörgum áhrifavöldum innan þess. Og tekist er á um völd og áhrif. Kristnin var af sumum álitin vera hluti þess sem tilheyrir liðinni tíð og að kirkja og kristni stæðu í vegi fyrir framförum o.s.frv. Kirkjunnar menn stóðu nú frammi fyrir þeim vanda að endurskilgreina ekki endilega boðskapinn sem kirkjann flutti heldur hlutverk hennar og starfsaðferðir. Það kemur því ekki á óvart að einn merkasti guðfræðingur á 19. öld, Friedrich Schleiermacher, setji þá fram kenningu sína um kirkjuna sem þjóðkirkju.
Hann segir að kirkjan megi ekki að loka sig af frá samfélaginu og láta sér nægja að hlúa gömlum hefðum og forni frægð. Hún verður mun fremur að takast á við strauma samtímans og gerast virkur þátttakandi í menningarlífi og samfélagsmótuninni. Innan kirkjunnar varð þessi stefna ofan á. Það komu einnig fram öflugar varnarhreyfingar, sem vildu leggja áherslu á sérstöðu kristindómsins andspænis verðmætamati samtímans. Þetta voru svokallaðar fríkirkjur sem eru þekktar og öflugar m.a. í Bandaríkjunum og á Englandi. Þær eiga lítið skylt við fríkirkjur hér á landi sem eru í eðli sínu þjóðkirkjur.
Innan kristindómsins voru einnig til þeir aðilar sem álitu að breytingar samfélagsins ógnuðu kristinni. Þeir bregðast við þeim með að gera umfjöllunarefni ritningarinnar að óhagganlegu kerfi sem veitir öll svör sem maðurinn þarfnast. Ritningin fjallar þar með ekki um hjálpræðisspurningar mannsins heldur inniheldur heimsmynd sem stendur óhögguð. Bókstafstrúarmenn eru þannig séð skilgetið afkvæmi nútímans. Það er ekki fyrr en á síðari hluta 19. aldar upp koma hreyfingar bókstafstrúarmanna og sértrúarhópar sem byggja á þessum kenningum.(3)
Niðurstaðan varð sú að kirkja og kristni aðlagaði sig vel að breyttum aðstæðum, jafnt sem þjóðkirkja og fríkirkja. Það fyrirkomulag hefur gert kirkjuna opna og orðið þess valdandi að kirkjan hefur tekið fullan þátt í mótun samfélagsins. Margumtöluð spenna á milli trúar og vísinda hefur ekki verið áberandi innan hennar. Aftur á móti hafa bókstafstrúarmenn sem eru skilgetið afkvæmi nútímans stillt upp skýrri mynd af veruleikanum sem þeir hafa varið og barist fyrir að fá að fylgja í samfélaginu. Áhrif þeirra innan stjornamála hafa verið mikil og reka margir bókstafstrúarhópar m.a. í Bandaríkjunum öflugan „lobbýisma“.
Áherslan á þjóðkirkjuna og fríkirkjufyrirkomulagið hefur reynst vel og hefur haft jákvæð áhrif.
V
Þjóðríkið eða ríkisvaldið og vísindin eða háskólasamfélagið voru ekki bara mótandi afl í samfélaginu, heldur einnig þær stofnanir sem veittu manninum svar við hjálpræðisspurningunni. Við verðum aðeins að hafa fyrir hugskotssjónum okkar hve miklar vonir menn bundu við framfarir í vísindum og tækni. Það var sama hvaða vandamál kom upp, það var bara spurning um hvenær vísindin fyndu lausnina, sem oft var tæknileg. Helgi vísindamanna var það mikil að fólki var t.d. haldið á lífi um langan tíma með tækjum og tólum bara upp á þá von að brátt fyndist lausn á kvillanum sem hrjáði það. Menn þorðu fyrir nokkrum árum ekki að spyrja um álit annars læknis (sem var og er fyrir marga holdgerving vísinda og framfara) af hræðslu við að móðga goðið.
Ef við víkkum þetta svið aðeins þá nægir að huga að menguninni sem hefur fylgt tækniframförunum. Segja má að náttúruvísindin hafi misst sakleysi sitt þegar kjarnorkusprengjum var varpað á Hirósíma og Nagasaki. Vísindin hafa svo að segja misst sitt guðlega aðdráttarafl og menn virðast orðnir jarðbundnari. Goðið er fallið af stalli sínum.
Hvað veldur þessum breytingum? Því er auðvelt að svara. Nýtt vald hefur risið upp: efnahagslífið eða fjármagnið. Heimurinn er orðin eitt efnahagssvæði sem virðir hvorki þau mörk sem þjóðríki setja né að eitthvað sé til sem heitir frelsi í vísindum. Fjármálaheimurinn hefur fyrir löngu tekið vísindin – einkum náttúruvísindin – í sína þjónustu.(4) Vísindin sem slík standa nú í svipuðum sporum og kirkjan fyrir tæpum 250 árum. Þau þurfa að laga sig að nýjum aðstæðum. Ég leyfi mér að fullyrða að svipuð þróun eigi sér stað innan háskólasamfélagsins og kirkjan gekk á sínum tíma í gegnum. Háskólar virðast nota svipaðar aðferðir og hún þá. Þeir grípa – ef svo má að orði komast – til þjóðkirkjumódelsins til aðlaga sig að breyttum aðstæðum og samfélaginu í heild. Þeir eiga nú í nánu samstarfi við efnahagslífið og aðrar stofnanir innan samfélagsins. Háskólar og akademíur með sér-áherslur spretta upp út um allt. Þeim má líkja við fríkirkjunnar. Athyglisvert er einnig að vísindamenn eru tregir til að lýsa því yfir að vísindin sem þeir stundi veiti einhver algild svör, hvað þá endaleg. Og svör þeirra eiga alls ekki sem snúa að hjálpræði mannins. Helgi vísindanna sem var varin með goðsögn um hlutleysi þeirra og frelsi hefur vikið fyrir jarðbundnari sýn.
Samtímis þessu koma upp „vísindalegir“ sértrúarhóparnir og bókstafstrúarmenn sem halda fast í goðsöguna um að „vísindin“ – sérstaklega náttúruvísindin – veiti öll þau svör sem maðurinn þarfnast. Hér er oft haldið í löngu úreltar vísindakenningar efnishyggju og pósítívisma. Þeim er haldið á lofti og boðaðar með álíka ákafa og fyrirfinnst meðal bókstafstrúarmanna. Báðum þessum hópum er það sameiginlegt að vilja allt eða ekkert. Umburðarlyndi kenninga þeirra er fyrst og fremst umburðarlyndi gagnvart eigin skoðunum en ekki annarra.
Það er spurning hvort þessir hópar gætu ekki lært eitthvað af kirkjunni þegar breyting á sér stað á heimsmyndinni. Það er að segja þegar þau kerfi sem menn álitu að svöruðu öllu þarf enduskoða og maðurinn þar með sjálfan sig. Alla vega hefur langstærstur hluti vísindasamfélagsins hafið slíka endurskoðun. Kirkjan hefur langa reynslu af því að takast á við breytingar og breytta stöðu, kannski hefur hún líka einhverju að miðla á þessu sviði.
Vísanir
(3) Klaus Kienzler, Der religiöse Fundamenntalismus – Christentum, Judentum, Islam, 3.útgf. München 2001, 17–27.
(4) Georg Henrik von Wright, Framfaragoðsögnin, íslensk þýðing Þorleifur Hauksson, Reykjavík 2003, 201–231.