Heilagur Kolum Killi

Heilagur Kolum Killi

Í Vita Columba, Ævisögu Kolum Killa, sem Adomnán 9. ábóti klaustursins merka á eyjunni helgu Iona, einni af Suðureyjum Skotlands, skráði þar í lok 7. aldar, er sagt frá og því lýst að heilagur Kolum Killi hafi andast við altari klausturkirkjunnar rétt eftir miðnætti sunnudaginn 9. júní áríð 597.

Sunnudagurinn 9. júní er dánar- og dýrðardagur Heilags Kolum Killa

Í Vita Columba, Ævisögu Kolum Killa, sem Adomnán 9. ábóti klaustursins merka á eyjunni helgu Iona, einni af Suðureyjum Skotlands, skráði þar í lok 7. aldar, er sagt frá og því lýst að heilagur Kolum Killi hafi andast við altari klausturkirkjunnar rétt eftir miðnætti sunnudaginn 9. júní áríð 597. Hann mun hafa stofnað klaustrið árið 563 og var dáður og elskaður ábóti þess frá þeim tíma. Kolum Killi var þá á 76. eða 77. aldursári og hafði tapað mjög þreki og heilsu enda hvergi dregið af sér við boðun og stjórnarstörf, skriftir og helgihald.

Adomnán segir frá því, að Kolum Killi hafði nokkru fyrr gefið munkum sínum það til kynna, er þeir voru að störfum úti á akri, að hann hefði getað, þegar á liðnum páskum farið heim til Drottins Krists, en til þess að spilla ekki páskagleði þeirra hefði hann kosið að vera með þeim eitthvað lengur. Hann blessaði þá og akurinn þeirra.

Við messu næsta sunnudags hafði Kolum Killi gefið þá skýringu á því hve mjög hann hefði þá horft upp í loftið og verið sérdeilis glaður á svipinn, að hann hefði séð engil á flugi í kirkjunni. Engillinn hefði gætt að munkunum og blessað þá en einkum undirbúið það að endurheimta verðmætt lán frá Drottni og horfið svo út í gegnum hvelfinguna. Munkarnir skildu það ekki fyrr en síðar að lánið átti við sál Kolum Killa sjálfs.

Komandi Sabbat, hvíldardag, sem Kolum Killi og munkar hans héldu á laugardegi (en sunnudaginn sem upprisudag ) fór hann ásamt Diarmiti, dyggum þjóni sínum að blessa hlöðu og kornið í henni og lýsti ánægju sinni með það að byrgðir væru nægar fyrir komandi ár enda þótt hann yrði fjarri.

Hann trúði þá þjóni sínum fyrir því að frelsarinn hefði opinberað sér það að þessi hvíldardagur yrði hans síðasti í annasömu jarðarlífi. Hann fengi nú hvíldina og fylgdi þar forfeðrum og liðnum kynslóðum sem treyst hefðu Drottni og þegið boð hans.

Er hann settist við veginn á leið sinni aftur til klaustursins kom til hans hvítur dráttarklár og hjúfraði sig að honum með haus og snoppu. Og það var sem hann skynjaði að húsbóndi hans væri á förum, því að hann hryggðist með tárum og hrein við froðufellandi. Þegar þjónninn vildi bægja hestinum frá kom Kolum Killi í veg fyrir það og sagði við hann: ,,Leyfðu honum sem elskar að úthella tárum við hjarta mitt. Gættu að því að þú sem ert skyni gæddur maður hefðir þó ekki vitað af því, að ég væri nú á förum nema ég hefði sagt þér frá því en Drottin hefur augljóslega opinberað það þessum skynleysingja.” Enn á leiðinni gekk hann upp á litla hæð og horfði að klaustrinu, lyfti höndum og blessaði það og umhverfi þess. Kominn þangað fór hann í kofann sinn og hélt áfram með það verk sitt að endurrita Davíðssálma. Hann hætti skriftunum er hann hafði ritað 11. versið úr 34. sálmi þar sem segir ... ,, þeir er leita Drottins fara einskis góðs á mis.”

Kolum Killi var við kvöldbænirnar en hélt svo aftur til síns dvalarstaðar en hélt til miðnæturbæna í klausturkirkjunni kl 12 um kvöldið, er hringt var til þeirra. Hann hafði hraðann á og neytti til þess síðustu kraftanna og varð á undan öðrum og kraup við altarið. Og Diarmit þjóni þótti úr fjarska og nokkrum öðrum bræðrum líka sem himneskri birtu stafaði af ábótanum sem lýsti upp kirkjuna en er hann kom að dyrunum varð þar myrkur og lýstist ekki upp fyrr en munkarnir gengu inn með ljóskerin. Kolum Killi lá þá við altarið í andarslitrunum en gat þó opnað augun. Diarmait lyfti upp hægri hendi hans svo að hann gat enn einu sinni blessað munkana sína án þess að geta þó komið frá sér neinu orði enda gaf hann þá upp andann. ,,Og er sálin hafði yfirgefið musteri sitt, líkamann, var roði í kinnum sem vottaði gleðina af engilssjón.”

Kolum Killi var af nyrðri Njálsætt, einni voldugustu konungsætt Írlands, fæddur við Lough (Vatn) Gartan þar sem nú er Donegal í Ulster, Norður – Írlandi líkast til árið 521. Frásagnir herma að foreldrar hans, Fedelmid mac Ferguso og Ethne hafi gefið honum nafnið Krimthann en þau munu þá ekki hafa verið kristin. Adómnán greinir frá því, að hann hafi ungur farið í fóstur til prins og prests að nafni Kruithenecán, sem hefur frætt hann í kristinni trú og skírt og gefið honum nafnið Kolum, sem þýðir dúfa á írsku líkt og Jónas á hebresku, og Kill(a), svo bæst við nafnið sem merkir kirkja. Kolum Killi nam samkvæmt Adómnán í Leinster hjá Gemmán öldruðum fræðara og síðar hjá Finnian biskupi í Molvilleklaustri og vígðst til prests jafnframt því sem hann var munkur. Kolum Killi mun hafa stofnað klaustur í Derry á landsvæði fjölskyldu sinnar og ættar árið 556 og ef til vill einnig klaustrið í Kells áður en hann fór til Skotlands.

Í annálum Ulster er sagt frá svokallaðri Cul Drebene orrustu árið 561, sem var mjög mannskæð og stóð á milli ættmanna Kolum Killa í norðrinu og Syðri- Njálsmanna. Og þess er getið að norðanmenn hafi unnið orrustuna vegna bæna Kolum Killa. Því var svo haldið fram að þessi þátttaka Kolum Killa í orrustunni hefði leitt til þess að hann var sendur í útlegð eða hafi farið í sjálfsskipaða útlegð vegna hörmunga orrustunnar sem hann var talin eiga hlut að.

Sú saga komst reyndar á kreik að Kolum Killi hefði í heimsókn sinni til fyrrum læriföður síns Finnians í Molville-klaustrinu endurritað án leyfis latneska þýðingu Hieronymusar; á Davíðssálmum en biskupinn þá heimtað endurritunina af honum. Leitað var úrskurðar hákonungsins í Tara, sem úrskurðaði biskupnum í vil. Ýfingar hafi við þetta orðið á milli ættar Kolum Killa og hákonungsins. Þegar svo konungsmaður nokkur var myrtur, er átti að vera undir vernd Kolum Killa sem gísl, réðst hákonungurinn gegn ættmönnum Kolum Killa og orrustan mannskæða braust út.

Kolum Killi mun hafa lagt út við tólfta mann frá eyjunni Rathlin við norðurströnd Ulster og ekki siglt út í bláinn eins og þeir munu hafa gert sem sagt er frá í fornum írskum sjóferðarsögum og fóru í sjálfsskipaða útlegð og lögðu út í óvissuna í trausti þess að Drottinn myndi leiða för enda farin í hans nafni til að helga honum höf og lönd. Siglingar voru þá þegar tíðar á milli Írlands og Skotlands. Kolum Killi stefndi þangað og vel má vera að hinn írski Konall mac Komgaill konungur í Argyll hafi beinlins boðið honum til sín til að styrkja sig í baráttunni við Piktana. Írska umráðsvæðið á vesturströnd Skotlands, sem hann réð yfir, nefndist skoska Dal Riata, því að hinir írsku ráðamenn þar höfðu komið þangað frá svæðinu Dal Riata í Ulster. Hið sérstæða var reyndar það, að Írar nefndust á þessum tíma ásamt öðrum nöfnum Scoti og land þeirra Scotia (líka Eire og Hibernia) og Skotland fékk nafn sitt af þeim. Piktar munu á þessum tíma hafa kallað land sítt Alba(n) sem gætti þýtt sólris.

Þess er getið í annálum að í andlátsskrá Konall konungs hafi komið fram að hann hafi fært Guði og heilögum Kolum Killa eyjuna I sem var síðar nefnd Iona. Sagnaritarinn Bede segir að vísu í sínu merka söguriti að það hafi verið konungur Pikta sem hafi gefið Kolum Killa eyjuna eftir að hafa þegið skírn af honum.

Við andlát Kolum Killa var klaustrið á Iona víðþekkt og virt í fornkeltneskum menningaheimi og víðar fyrir helgi þar og trúrækni, merka fræðaiðkun og ritverk og uppskriftir helgra biblíu- og trúarhandrita og svo einnig veraldlegra fræða og skáldskapar. Er fram liðu stundir varð handrita- og bókakostur klaustursins mjög góður og mikill að vöxtum á þeirra tíma mælikvarða. Adomnán lýsir Kolum Killa sem góðum skrifara og sálmar og bænir eru taldir samdir af og hafa verið helgaðar honum. Klaustrið hafði teygt úr sér og munkar þaðan stofnað klaustur bæði á Írlandi og Skotlandi sem urði systurklaustur Iona klaustursins og fylgdu reglum og viðmiðunum þess t.d. klaustrið þekkta í Durrow á Írlandi.

Kristnin breiddist mjög út frá eyjunni helgu, til vesturstrandar Skotlands (Dal Raita), Piktlands og eyja Skotlands og Norðimbrulands eftir að Aedan, munkur frá Iona stofnaði klaustrið merka Lindisfarne úti fyrir austurströnd Bretlands. Adómnán lýsir í riti sínu tilraunum munka frá Iona til að siglinga út á Atlantshafið. Klaustur og munkabyrgi voru reist víðs vegar á eyjum Skotlands, oft á afskektum stöðum og smáeyjum. Dicuil sem ritaði verkið ,,De Mensura Orbis Terrae.,Um mælingu jarðarkringlunnar”,er út kom árið 825 og lýsir ferðum og byggðum munka í norðurhöfum, eflaust í Færeyjum og einnig á Íslandi, hafði verið munkur á Iona.

Þess er getið í Landnámu að tvær kirkjur hafi verið reistar og helgaðar Guði og Kolum Killa hér á landi, kirkja sem Örlygur Hrappson lét gera á Esjubergi og svo kirkja sem Halldór Illugason lét reisa á Innra Hólmi í Hvalfjarðarsveit.

,,Tendra í hjörtum okkar ó, Guð, kærleiklogann sem ávallt varir svo að logi í okkur og tendri öðrum ljós. Gef að við fáum skinið um eilífð í musteri þínu, logandi af þínu eilífa ljósi líkt og sonur þinn Jesús Kristur, frelsari okkar og endurlausnari. Amen” Bæn kennd við Heilagan Kolum Killa. Þýð: Gunnþór Þ. Ingason