Litróf - fjölmenningarstarf í Breiðholti

Litróf - fjölmenningarstarf í Breiðholti

Kirkja er samfélag fólks sem á trú á Jesú Krist og kemur saman um Guðs orð og sakramentið. En það þýðir ekki að kirkjan vilji einungis hugsa um sína meðlimi og þjóna þeim. Víða í heiminum eru kirkjur sem hvetja meðlimi sína til að stuðla að friði og hugsa um velferð og hagsmuni almennings. Í Evrópu, þar sem kristið fólk hefur verið í meirihluta, hefur kirkjan langa sögu af kærleiksþjónustu.
fullname - andlitsmynd Ragnhildur Ásgeirsdóttir
22. september 2006

Kirkja er samfélag fólks sem á trú á Jesú Krist og kemur saman um Guðs orð og sakramentið. En það þýðir ekki að kirkjan vilji einungis hugsa um sína meðlimi og þjóna þeim. Víða í heiminum eru kirkjur sem hvetja meðlimi sína til að stuðla að friði og hugsa um velferð og hagsmuni almennings. Í Evrópu, þar sem kristið fólk hefur verið í meirihluta, hefur kirkjan langa sögu af kærleiksþjónustu.

Kærleiksþjónusta er þjónusta í kærleika Jesú Krists. Þar má nefna mataraðstoð, læknisaðstoð, söfnun fyrir neyðaraðstoð, aðstoð í vímuefnameðferðum, og sálgæslu. Slík þjónusta er veitt til allra án tillits til trúarlegs bakgrunns ef þess er óskað.

Á Íslandi, þar sem þjóðkirkjan er í meirihluta, hefur oft borið á þeirri hugsun að kirkjan sé einungis fyrir kristið fólk. Misskilningur er til staðar um að kirkjan eigi ekkert erindi við fólk sem aðhyllist önnur trúarbrögð, jafnvel innan kirkjunnar sjálfrar. En undanfarin ár hefur margt breyst. Fjölgun innflytjenda á Íslandi hefur þar haft mikil áhrif og nú mótar kirkjan nýja sjálfmynd sína með tilliti til tilvist annarra trúarbragða og lífsskoðana.

Fella- og Hólakirkja hefur tekið frumkvæði til nýrrar starfsemi fyrir innflytjendur í sóknum sínum sem hefst nú í haust. Verkefnið kallast ,,Litróf - kirkjan fyrir alla" og er fjölbreytt. Farið verður í ferðalag til Gullfoss og Þingvalla, boðið verður til fjölþjóðlegra máltíða, foreldramorgna, stuðningshóp innflytjenda o. fl.

En það sem er áhugavert varðandi þetta verkefni er í fyrsta lagi að tilgangur starfseminnar er ekki kristniboð. Markmiðið er að auka samskipti meðal allra íbúa á svæðinu, brjóta niður múra og einangrun og þannig að skapa betra umhverfi fyrir líf allra íbúanna. Að sjálfsögðu gleður það okkur í kirkjunni ef fólk kemst til trúar á Jesú Krist, en það er ekki markmið í sjálfu sér. Í öðru lagi, er verkefnið í samstarfi við aðila utan kirkjunnar eins og t.d. Alþjóðahús og Þjónustumiðstöðina í Breiðholti. Í þriðja lagi er verkefnið ,,Litróf" opið fyrir alla - fullorðna, börn, kirkjufólk og fólk utan kirkju, innflytjendur og Íslendinga. Og í fjórða og síðasta lagi er Fella- og Hólakirkja búin að ráða manneskju, Ragnhildi Ásgeirsdóttur djákna, sérstaklega fyrir þetta verkefni og það gefur sterklega til kynna að kirkjan lítur á þetta sem mikilvæga þjónustu.

Eins og kunnugt er hlutfall erlendra íbúa í Breiðholti mjög hátt. Breiðholt er því oft tekið upp í fjölmiðlum eins og þar sé fyrir hendi sérvandamál vegna fjölda innflytjenda. Fella- og Hólakirkja ætlar að halda málþing um þetta málefni Breiðholts. Velta þeirri spurningu upp hvort um sé að ræða vandamál í hverfinu, hvað er verið að gera fyrir innflytjendur og hvað má gera til að breyta og bæta í hverfinu varðandi málefni innflytjenda. Málþingið verður haldið í Fella-og Hólakirkju 23.september kl 10 -13 og er yfirskrift þess ,,Öll eitt, en ekki eins". Málþingið er ókeypis og opið öllum sem áhuga hafa á málefnum innflytjenda.

Litróf mun verða tákn þjóðkirkjunnar á tímamótum.