Skákmót í þjóðkirkjunni

Skákmót í þjóðkirkjunni

Það stendur yfir skákmót í þjóðkirkjunni — valdatafl. Sumum er það þyrnir í augum. Aðrir hafa móral. En þetta er ekkert til að skammast sín fyrir. Þetta er gott. Það sýnir að öllum er ekki sama. Fólk hefur skoðanir og vill láta til sín taka, leggja sitt af mörkum til að byggja upp betri kirkju. Höldum bara áfram.
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
27. apríl 2010

Ljósmynd: http://www.flickr.com/photos/romainguy/230416692/

Það stendur yfir skákmót í þjóðkirkjunni — valdatafl. Sumum er það þyrnir í augum. Aðrir hafa móral. En þetta er ekkert til að skammast sín fyrir. Þetta er gott. Það sýnir að öllum er ekki sama. Fólk hefur skoðanir og vill láta til sín taka, leggja sitt af mörkum til að byggja upp betri kirkju. Höldum bara áfram.

Kirkjan er stofnun sem veltir miklu trúarlegu, menningarlegu og félagslegu kapítali auk beinharðra peninga. Til skamms tíma réð hún líka yfir pólitísku kapítali. Það er nú að mestu upp urið. Í öllum stofnunum sem svo er háttað um er teflt um völd. Það hefur líka verið gert í kirkjunni frá upphafi.

Á skákmóti kirkjunnar er teflt í mörgum riðlum. Elstur er prestar gegn óbreyttum leikmönnum. Lengi vel veitti prestum betur á grundvelli kaþólskrar vígsluguðfræði. Í kirkjunni voru Jón og séra Jón ekki jafnir. Svo kom Lúther og reyndi að leysa upp riðilinn. Frammi fyrir Guði voru allir jafnir og áttu líka að vera það í kirkju Krists.

Hugmyndin um almennan prestdóm allra skírðra átti að binda enda á valdataflið með sigri leikmanna. Allir áttu að verða jafnir óháð vígslu. Lýðræði átti að komast á í kirkjunni. Almennur prestdómur hefur þó lengst af frekar verið draumur en veruleiki í lútherskri kirkju. Til skamms tíma hefur íslenska kirkjan verið ágætt dæmi um það sem kallað er „prestakirkja“. Það er kirkja þar sem vígðir ráða því sem þeir vilja ráða.

Frá því um aldamótin 1900 hefur verið teft í flokknum prestar gegn sóknarnefndum. Hverju eiga sóknarnefndir að ráða og hvar tekur vald hinna vígðu við? Lengi hefur verið viðtekið að söfnuðir eða fulltrúar þeirra eigi að velja sér prest. Veitir það þeim einhvers konar vald yfir prestum? Eiga þeir líka að geta sagt presti upp?

Svo hófst keppni í riðlinum karlar gegn konum einkum í lokuðum flokki presta. Þar er þó sem betur fer teflt samkvæmt almennum reglum hér á landi. Í grannkirkjunum hefur taflið verið flækt með guðfræðilegum sérreglum sem gera flókna stöðu kvenna enn flóknari. Við höfum sloppið við það að mestu.

Síðar var tekið að tefla í flokki þéttbýlispresta. Sóknarprestar leika gegn öðrum prestum. Hverjir eiga að ráða för í söfnuðinum? Er sóknarpresturinn sóknarherra að fornum stíl eða fremstur í hópi jafningja?

Svo bættist við riðillinn prestar gegn djáknum. Hver má hvað í helgihaldi og safnaðarstarfi?

Stundum er teflt í riðlinum prestar gegn biskupum. Hvert er frelsi prestsins í embætti sínu, t.d. boðun? Í hvaða merkingu er biskup yfirmaður prestanna? Hvort er hann hirðir þeirra eða húsbóndi?

Þess verður ekki vart að telft sé í lokuðum flokki biskupa. Það er hins vegar ljóst að í kirkjunni er teflt með biskupa ekki síður en á skákborðinu. Eiga sumir að kallast vígslubiskupar og aðrir biskupar e.t.v. með Stórum staf? Eiga ekki allri biskupar að vera jafnir og biskupsdæmin hér að vera þrjú af því biskuparnir eru þrír?

Nýjasti riðillinn er prófastar gegn biskupum. Svo virðist í seinni tíð sem biskupsdæmið þrengi að prófastdæminu. Hafa prófastar sjálfstætt umboð eða eru þeir „augu og eyru biskups“ eins og forðum var sagt?

Við skulum endilega halda skákmótinu gangandi. Það skýrir línurnar. Það er hins vegar mikilvægt að teflt sé samkvæmt reglum, að keppnisskapið skyggi ekki á systkinakærleikann og drengskapar sé gætt eins og almennt er raun á sem betur fer. — Hér er valdataflið aðeins myndlíking en ekki lýsing á bláköldum veruleika. — Leikreglurnar, forsendurnar sem ganga verður út frá eru lútherskur kirkju- og embættisskilningur túlkaður í anda nútímalegra lýðræðishugmynda, góðra stjórnsýsluhátta og hollra kenninga um stjórnun og forystu. Í þessu efni kann að vera gott að hverfa aftur til Lúthers og hugmyndarinnar um almennan prestdóm, láta nú drauminn loksins verða að veruleika. Hvernig væri jafntefli milli leikmanna, presta og djákna? Væri útkoman kirkja þar sem valdið gengur út frá biðjandi söfnuði sem stendur öllum opinn óháð guðfræðilegum áherslum — söfnuði sem samanstendur af myndugum leikmönnum sem njóta þjónandi forystu presta og djákna og þar sem sóknarpresturinn fer fyrir samhentu teymi? Gætum við unað við slíkt? Hugsanlega erum við enn ekki búin að ná þeim þroska að geta vaknað inn í drauminn um almennan prestdóm. Þetta er raunar spurning um kirkjuskilning eða safnaðarguðfræði en líka þor og félagsþroska. Skýr embættisskilningur skýrir hins vegar línurnar í skák hinna vígðu. Í vígslu felst að einstaklingur er kallaður til að gegna sérstöku hlutverki mitt í söfnuði en ekki til að leika listir sínar frammi fyrir honum. Köllunin er aðeins ein — þjónusta — en hún hefur margar víddir. Þær þarf að skerpa og skýra út frá embættisskilningi og þörfum nútímasafnaðar í nútímasamfélagi. Hér verður ekki gerð tilraun til þess heldur aðeins vikið að praktískum atriðum varðandi prófasta og biskupa.

Prófastar voru fyrrum valdamenn í kirkjunni sem gegndu einkum því hlutverki að dæma í málum sem heyrðu undir dómsvald kirkjunnar. Þá voru veraldlegir valdamenn oft kallaðir til þessa hlutverks. Þeir höfðu reynslu af dómsstörfum utan kirkjunnar sem kom sér vel innan hennar. Síðar varð prófastsstarfið skilgreint á kirkjulegan hátt og falið prestum einum. Á tímum tregra samgangna var prófasturinn mikilvægur fulltrúi biskups í fjarlægum hlutum biskusdæmisins. Þeir gengu í ýmis verk sem biskupar gegna nú og voru milliliðir milli almennings og biskups í híerarkískri kirkju og stéttskiptu samfélagi sem vildu skýr skil milli hárra og lágra.

Á lýðræðislegum tímum rafrænna samskipta og greiðra samskipta þarf kirkjan ekki prófasta af þessum gamla skóla. Margt bendir hins vegar til að kirkjan mundi græða á að byggja upp virk samstarfssvæði sem njóta styrkar faglegrar forystu. Liggur ekki köllun prófastanna einmitt þar? Eiga þeir ekki að vera forystuafl í kirkjulegu þróunarstarfi sem tekur mið af nærumhverfi kirkjunnar á hverjum stað?

Í seinni tíð virðist blasa við að kirkjan og jafnvel þjóðin þurfi styrka andlega forystu og leiðsögn sem tekur virkan þátt glímu hennar við sameiginleg viðfangsefni og vandamál líðandi stundar. Leitar t.d. lausna á því hvernig okkur tekst að vera biðjandi, boðandi og þjónandi þjóðkirkja eftir hrun fjármálakerfis, efnalegs öryggis, félagslegrar samstöðu og borgaralegs traust. Þar kann hlutverks biskupsins að liggja. Er líklegt að þremur staðbundnum biskupum takist betur að gegna því hlutverki en óskiptum biskupsdómi í einu stifti? Er ekki líklegt að við fengjum þrjá kirkjuforstjóra af líku tagi og biskupsembættinu hefur lengi hætt til að vera?

Vera má að betri og hagkvæmari leið sé að halda biskupsdæminu óskiptu en deila hlutverkum biskupsembættisins milli þeirra þriggja sem til þess eru kölluð á hverjum tíma eftir þeim hæfileikum sem hverju og einu eru gefnir þó að því gefnu að ein/einn hlýtur að kirkjulegri hefð að fara fremst meðal jafningja — vera primus inter pares. Þegar upp er staðið verður helsti hirðir kirkjunnar að hafa andlit sem greinir hann eða hana frá öðrum.

Á öllum venjulegum skákmótum er víst teflt til sigurs — skák og mát! Það er ekki æskileg lausn á skákmóti kirkjunnar. Þar á taflið að leiða til dýpkaðrar samstöðu þar sem hver og einn öðlast skýrari sjálfsmynd og gleggri sýn á hlutverk sitt í samstiga heild. Leitum dýpkaðs skilnings í þeim efnum saman hvort sem líkingin af skákinni var nú smekkleg eða ekki.