Kirkjan okkar – kirkja komandi kynslóða Svalbarðskirkja í 60 ár

Kirkjan okkar – kirkja komandi kynslóða Svalbarðskirkja í 60 ár

Sérstaklega hefur mér þótt dýrmætt af öllu dýrmætu að verða vitni að jólahelgileiknum í Svalbarðskirkju í gegnum árin, sagan af Jesúbarninu flutt á hverju einasta ári af skólabörnum í u.þ.b. fjóra áratugi
fullname - andlitsmynd Bolli Pétur Bollason
16. maí 2017

Svalbarðskirkja Svalbarðsströnd var vígð 30. maí árið 1957 og er því 60 ára á þessu ári. Fyrir áratug síðan þegar Svalbarðskirkja varð hálfrar aldar gömul gaf sóknarnefnd Svalbarðssóknar út lítið afmælisrit. Þar gefur að líta vígsluræður á vígsludegi kirkjunnar, kirkjuvígslusálm sem Ströndungurinn Valdimar V. Snævarr orti og margvíslegan fróðleik um uppruna og sögu kirkjunnar.

Sveinberg Laxdal bóndi í Túnsbergi tók saman efni ritsins og bjó til prentunar. Mér verður hugsað til niðurlagsorða Sveinbergs í þessu ágæta riti, þar sem hann skrifar:

„Og áfram mun berast út yfir Eyjafjörðinn, hvort heldur lygnan og sólskyggðan á sumardegi, eða hvítfextan í vetrarstormum, hljómar klukknanna í kirkjunni fögru sem byggð var á bjargi fyrir hálfri öld – kirkjunni okkar – kirkju komandi kynslóða.”

Það er kórrétt hjá Sveinberg að nota orðalagið „kirkjunni okkar” hún er sameign safnaðarins, hún er á ábyrgð þeirra sem Svalbarðsströndina byggja, og hún minnir samfélag okkar sífellt á það að við erum til fyrir hvert annað og kærleiksþjónusta hennar er þjónusta við náungann. Hljómur klukknanna kallar og vekur okkur til meðvitundar um þá þjónustu og lífsins stundir.

Svalbarðskirkja sem stendur vel og fallega og skapar virðulega ásýnd sveitarfélagsins hefði ekki orðið til nema fyrir einingu og samhug sveitunga sem lögðu til fé í söfnun og ómælda vinnu. Það var mikið átak fyrir fámennan söfnuð í þá tíð að byggja kirkju sem þessa, en þá voru íbúarnir helmingi færri.

Hverju samfélagi er sæmd af því að hafa fjörlegt kirkjulíf og fallegt kirkjuhús en kirkjan er ein af stoðum mannlífsins rétt eins og heimili og skóli og heilbrigðisstofnanir. Réttast er að líta á kirkjuna sem heimili, andlegt heimili sem skapar tilfinningalegt skjól og heldur utan um mjög tilfinningarík tímamót í lífi sérhverrar manneskju. Ég vitna í vígsluræðu þáverandi biskups Ásmundar Guðmundssonar sem hann flutti á vígsludegi Svalbarðskirkju:

„Kirkjan var andlegt heimili, feðrum yðar og mæðrum, þar sem þau lifðu sínar mestu stundir, er brugðu ljóma yfir strit og örðugleika, og léttu þeim lífið. Þar sáu þau á barnsaldri í skini fáeinna kertaljósa, birtu guðsríkis. Þar fermdust þau, hétu frelsaranum fylgd, og krupu við máltíð hans. Í nafni hans bundust þau hvort öðru ævitryggðum og báru börn sín til skírnar, og síðar stóðu börnin í þeim sporum inni við altarið. Í kirkjunni kvöddu þau ástvini sína látna, í bæn og signdu leiði þeirra í skjóli hennar, þar sem þau vildu sjálf lifa og deyja.”

Það er sennilega ekki hægt að orða þetta betur en Ásmundur heitinn gerði. Við vitum að oftar en ekki hafa fallið tár innan veggja kirkjunnar, gleðitár sem sorgartár, það er vegna þess að allt sem þar fer fram skiptir okkur innst inni og í raun og veru mestu máli í tilvistinni.

Óháð lífsskoðunum komum við þar saman vegna þess að sérhvert okkar er kallað þangað til að lifa óendanlega dýrmætar stundir með náunganum, með ástvinum og þá verða vangaveltur um hvar við stöndum í pólitík ellegar trúmálum hjóm eitt, þar erum við einfaldlega manneskjur sem gleðjast og syrgja og sem þyrstir í tilfinningalega hugsvölun og sammannlega reynslu.

Sérstaklega hefur mér þótt dýrmætt af öllu dýrmætu að verða vitni að jólahelgileiknum í Svalbarðskirkju í gegnum árin, sagan af Jesúbarninu flutt á hverju einasta ári af skólabörnum í u.þ.b. fjóra áratugi, mömmur og pabbar, ömmur og afar, fylgjast með börnum og niðjum í sömu hlutverkum og þau skipuðu áður fyrr, sömu búningar, sömu leikmunir, allt erfist milli kynslóða og allt er sígilt, það er rétt eins og englar flögri yfir þegar leikþátturinn fer fram, þá þagnar allt, þá má greina tár á hvörmum, þá má líka greina stolt og skilyrðislausan kærleika, samhug og samfélag sem rifjar um leið upp glaðar minningar. Þarna á sér stað sönn og einlæg kirkja og allt það ásamt ýmsu öðru rammar afmælisbarnið inn, Svalbarðskirkja í 60 ár!

Mig langar þess vegna til að óska öllum Svalbarðsströndungum og landsmönnum til hamingju með kirkjuna sína og leyfi hér versi úr kirkjuvígslusálmi Valdimars V. Snævarr, sem hann samdi fyrir daginn stóra 30. maí árið 1957 og prýðir fyrrnefnt afmælisrit, að ljúka þessari hugleiðingu:

Kristur, sjá hér söfnuð þinn! Blessa, helga aldna, unga, eyddu böli, léttu þunga, dýrðarríki Drottinn minn. Blessa hvern, sem bætir landið, blessa öll vor dagleg störf. Treystu kristna bræðrabandið, bæt í náð úr hverri þörf.!

(Hátíðarguðsþjónusta fer fram í Svalbarðskirkju sunnudaginn 28. maí kl. 14.00 Biskup Íslands Agnes M. Sigurðardóttir prédikar. Verið velkomin!)