Verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar

Verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar

Í verkefnum Hjálparstarfs kirkjunnar í Úganda, Eþíópíu og á Indlandi er markmiðið að bæta lífsviðurværi og efla virðingu fyrir mannréttindum þeirra sem búa við fátækt og óréttlæti. Við höfum að leiðarljósi að starfið leiði til sjálfshjálpar og sjálfbærrar þróunar í samfélögunum sem við störfum með.
Mynd
fullname - andlitsmynd Kristín Ólafsdóttir
30. ágúst 2015

Í verkefnum Hjálparstarfs kirkjunnar í  Úganda, Eþíópíu og á Indlandi er markmiðið að bæta lífsviðurværi og efla virðingu fyrir mannréttindum þeirra sem búa við fátækt og óréttlæti. Við höfum að leiðarljósi að starfið leiði til sjálfshjálpar og sjálfbærrar þróunar í samfélögunum sem við störfum með. Markmiðið með verkefnum Hjálparstarfsins hér heima er það sama. Við hjálpum fólki til sjálfshjálpar og tölum máli fátækra.

Í alþjóðlegum samanburði á fátækt stendur Ísland vel að vígi en samkvæmt Hagstofunni bjuggu 5,5% landsmanna við skort á efnislegum gæðum árið 2014. Aðeins í fjórum löndum Evrópu var það hlutfall lægra. En þar með er ekki öll sagan sögð því mikill munur er á aðstæðum fólks hér á landi eftir atvinnustöðu þess.

Þannig skorti 23% öryrkja efnisleg gæði árið 2014. Einstæða foreldra og börn þeirra skorti mun frekar efnisleg gæði en þá sem bjuggu á heimilum tveggja fullorðinna og tveggja barna og þeir sem voru einir í heimili bjuggu mun fremur við skort en þeir sem voru í sambúð með öðrum fullorðnum.

Þegar fólk býr við verulegan skort á efnislegum gæðum er það í sérstaklega viðkvæmri stöðu í samfélaginu og í aukinni hættu á félagslegri einangrun. Í fyrra bjuggu 4300 manns við þær aðstæður hér á landi.

Margt af því fólki sem leitar til Hjálparstarfsins hefur gert það síðan fyrir hrun bankakerfisins árið 2008. Öryrkjar sem búa við fátækt og einstæðar tekjulágar mæður voru þá og eru enn í miklum meirihluta þeirra sem til stofnunarinnar leita. Á meðan fjárhagsleg staða annarra hópa í samfélaginu hefur breyst til batnaðar hafa úrræði sem til eru ekki dugað til þess að fólkið sem til okkar  leitar komist út úr vítahring fátæktar og félagslegrar einangrunar.

Það skiptir máli hvernig við nálgumst fátækt. Í gegnum aldirnar hefur hjálp til fátækra mikið til verið í formi samhjálpar og ölmusu. Til þess að breyta viðvarandi fátækt er hins vegar mikilvægt að samfélagið allt breyti viðhorfi sínu til fátækra og aðstoð þeim til handa. Notendasamráð skiptir miklu máli því þegar fólk finnur að það hefur eitthvað um aðstæður sínar að segja eflist sjálfstraust þess og því finnst það vera þátttakandi í samfélaginu en ekki bara þiggjandi.

Sem sjálfseignarstofnun hefur Hjálparstarfið ákveðið svigrúm til þess að laga aðstoðina að þörfum einstaklinganna sem til okkar leita. Félagsráðgjafar Hjálparstarfsins nálgast fólkið á jafningjagrunni og á forsendum þess sjálfs. Þeir leggja áherslu á að haga starfinu þannig að það leiði til raunverulegra breytinga í lífi fólks en eitt meginmarkmið Hjálparstarfsins er að draga úr hættunni á félagslegri einangrun þeirra sem til okkar leita.

Allt frá því að Hjálparstarfið hóf að veita mataraðstoð upp úr 1990 og til ársins 2011 fólst efnisleg aðstoð í því að útdeila tilbúnum matarpökkum en árið 2011 breytti Hjálparstarfið um aðferð og síðan þá hefur efnalitlum fjölskyldum verið veitt aðstoð við að halda heimili með inneignarkortum í matvöruverslanir. Breytingarnar voru gerðar eftir samráð við þá sem til stofnunarinnar leita og nú kemur Hjálparstarfið betur til móts við þarfir fólks sem á kost á matarföngum að eigin vali og það þarf ekki að standa í biðröð eftir matarpoka.

Á liðnu starfsári nutu hátt í 6000 einstaklingar þessarar aðstoðar hjá Hjálparstarfinu en auk inneignarkorta í matvöruverslanir veitir Hjálparstarfið styrki vegna skólagöngu barna, unglinga og fólks í endurhæfingu og vegna íþróttaiðkunar barna og tómstundastarfs þeirra. Aðstoð er veitt þegar fólk vantar lyf í neyðartilfellum og fólk getur nálgast fatnað sem Hjálparstarfinu berst.

En til þess að hjálpin leiði til sjálfshjálpar tvinna félagsráðgjafarnir efnislegan stuðning saman við ráðgjöf og valdeflandi verkefni. Markmiðið er að fólk finni styrk sinn og geti notað hann til að taka ákvarðanir um eigið líf. Bætt sjálfsmynd stuðlar að meiri virkni sem svo aftur styrkir sjálfsmyndina enn frekar. Efnislegur stuðningur er nauðsynlegur til þess að takast á við erfiðar aðstæður en til þess að komast út úr vítahring fátæktar og félagslegrar einangrunar þarf að takast á við aðstæður á breiðum grunni. Markmiðið er full samfélagsleg þátttaka með þeim réttindum – og skyldum sem henni fylgja.

Hjálparstarfið býður upp á sjálfstyrkingar- og færninámskeið, hópastarf, skipulögð sumarfrí fyrir efnalitlar barnafjölskyldur og nýjasta verkefnið heitir Að rækta garðinn sinn, matjurtarækt og námskeið um ræktun, næringargildi, matreiðslu og geymslu grænmetis. Það hófst í maí og lýkur í september. Því er ætlað að stuðla að samveru fjölskyldunnar, útivist, hreyfingu, góðri næringu, verkkunnáttu og bættri sjálfsmynd barna jafnt sem foreldra. Um 100 manns eða 39 fjölskyldur af höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi og á Akureyri taka þátt í verkefninu.

Annað dæmi um valdeflandi verkefni er skipulagt sumarfrí fyrir barnafjölskyldur í samvinnu við Hjálpræðisherinn á Íslandi í sumarbúðum skáta við Úlfljótsvatn nú í júní. Alls tóku 65 konur og börn þátt í verkefninu en markmiðið með því var að draga úr félagslegri einangrun og stuðla að samveru og gæðastundum efnalítilla fjölskyldna sem svo skapa góðar minningar. Þá var leitast við að byggja brýr milli menningarheima og stuðla að gagnkvæmri aðlögun fólks af mismunandi uppruna.

Félagsráðgjafar Hjálparstarfsins taka þátt í verkefnunum og kynnast þannig fólkinu betur og geta í framhaldinu aðlagað starfið að þörfum notendanna ennfrekar svo það leiði  til sjálfshjálpar og valdeflingar fólksins sem til okkar leitar. Við vonumst auðvitað til þess að í náinni framtíð verði ekki þörf fyrir Hjálparstarfið. Það hlýtur að vera samfélagslegt verkefni okkar allra að ná því markmiði.