Altari Klyppsstaðarkirkju í Loðmundarfirði (mynd: Hlín Stefánsdóttir).
Þeir voru fóstbræður, landnámsmennirnir Loðmundur og Bjólfur, og skiptu með sér fjörðunum inn af Seyðisfjarðarflóanum. Þann aldafjölda, sem vart var um annað að ræða en landbúnað mönnum til viðurværis á Íslandi, hefur trúlega ýmsum þótt hinn rammgöldrótti Loðmundur hafa hlotið ívið betra hlutskipti þeirra tveggja, þar sem skilyrði til ræktunar eru öll hin bestu í Loðmundarfirði og undirlendið mikið, jafnvel meira en í Seyðisfirði, þar sem þó er búsældarlegt. En á sama hátt og ekkert okkar, sem nú lifum, getum skyggnst inn í framtíðina, var engin leið fyrir Loðmfirðinga fyrri tíma að ímynda sér, að í upphafi 21. aldarinnar yrði heilsársbúseta fyrir nokkru aflögð í Loðmundarfirði (1974), en byggðin í Seyðisfirði stæði hins vegar traustum fótum, enda byggðist atvinnulífið þar einkum á ferðaþjónustu og útgerð. Góðar jarðir auk reka og annarra hlunninda dugðu ekki til að halda uppi byggð í Loðmundarfirði þegar ljóst var að nútímalegar samgöngur og samskiptatækni myndu ekki ná þangað, auk þess sem skilyrði til útræðis voru ekki góð frá náttúrunnar hendi.
Þessi stutti og yfirgefni fjörður hefur undarlegt seiðmagn. Og þegar komið er fram á sumar, og jeppavegurinn frá Borgarfirði eystri til Loðmundarfjarðar er orðinn akfær eftir veturinn, og veðrið orðið freistandi til gönguferða, þá fyllist fjörðurinn aftur af lífi, í það minnsta dag og dag í senn. Um miðjan júlí er svo messað í gömlu og lúnu kirkjunni á Klyppsstað. Sóknin er mannlaus, en samt er húsfyllir í messunni. Niður aldanna og fegurð staðarins lokka og laða ferðafólk og Austfirðinga til kirkju í yfirgefinni sveit, en líka það að sækja helgihald í svo yfirlætislausu og afskekktu guðshúsi, fjarri öllum glaumi. Heilagur andi Drottins er nálægur á sérstakan hátt, óútskýranlegan - eins og alltaf. Hann hefur ekki yfirgefið Loðmundarfjörð, þó að mannfólkið hafi gert það. Ekkert er orgelið lengur í kirkjunni, svo að tónninn er gefinn á blokkflautu, og síðan syngur fólk með af hjartans lyst. – Er það hinn hreini tónn, sem brýst fram í sálartetrinu á manni á svona stað? Kirkjukaffið tilheyrir auðvitað, í ár var það í nýreistum skála Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, spölkorn frá kirkjunni.
„Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta“ bað höfundur 90. Davíðssálms. Það er bænin, sem ósjálfrátt verður manni töm á svona stað, þegar hugurinn hvarflar til genginna kynslóða og erfiðrar lífsbaráttu þeirra, sem lítil merki sjást lengur um. Hvaða ummerki verða um okkur, sem nú lifum, eftir fimm aldir, þrjár - eða jafnvel bara eina? Trúlega lítil sem engin. Og það er aldrei að vita nema áminningin um hverfulleika okkar hjálpi okkur að hvíla í kærleika Guðs og að „öðlast viturt hjarta.“ – Kannski förum við að spyrja okkur sjálf: Nýtum við daga okkar til góðs í Drottins nafni? Og kannski gönguferð í fjörunni í Lommanum minni mann á, að við erum hvert um sig smátt og ófullkomið sandkorn í fjöru aldanna, þurfum að treysta á náð Guðs-hafsins, sérhvern dag...
Ferðalag í Loðmundarfjörð er ógleymanlegt ævintýri. Messuferð á gamla og yfirgefna kirkjustaðinn með undarlega nafninu, Klyppsstað, ennþá minnisstæðari. Slíkar ferðir á kynngimagnaðar eyðislóðir eru hvatning, áminning – um að biðja stöðugt:
„Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta“ (Sálm. 90.12).