Ekki Drottna heldur vera fyrirmynd: Hirðar að fornu og nýju

Ekki Drottna heldur vera fyrirmynd: Hirðar að fornu og nýju

[Á] sama tíma og pistillinn talar sérstaklega til þeirra sem í stafni standa höfða orð hans til okkar allra, sama hvaða störfum við gegnum. Því að allar manneskjur eru einhvern tíma í einhverju samhengi í valdastöðu gagnvart öðrum og þá hlýtur sama reglan að gilda, að maður skuli forðast að „drottna“, þ.e.a.s. gera sig sekan um e-s konar valdníðslu, en leitast frekar við að vera sjálfur eða sjálf góð fyrirmynd í framgöngu sinni.Þegar öllu er til skila haldið snúast því þær spurningar um hirðishlutverkið, sem textar dagsins velta upp, um það hvort maður sé þess trausts verður sem fylgir „hirðishlutverki“ manns hverju sinni, sama í hverju það felst, og um það á hvaða forsendum maður rækir það hlutverk.
Mynd

Prédikun flutt í Háteigskirkju 23. apríl.

Lexía: Slm 23; Pistill: 1Pét 5.1-4; Guðspjall: Jóh 21.15-19

2. sunnudegi eftir páska fylgir ávallt viss gleði, ekki aðeins vegna þess að við erum enn að fagna upprisu Krists og að í kirkjunni er tímabilið eftir páska til hvítasunnu kallað gleðidagar, heldur vegna ritningartextanna sem þá eru lesnir. Þetta er sá sunnudagur kirkjuársins þegar hirðisþemað er efst á baugi og það rímar svo skemmtilega við hinn náttúrulega árstíma og landbúnaðardagatalið þar sem sauðburð ber hæst.

Í Biblíunni, bæði Gamla og Nýja testamentinu, er Guði líkt við góðan hirði og fjárhirðar gegna lykilhlutverkum í hjálpræðissögunni: sem dæmi má nefna Davíð konung og svo fjárhirðana sem eru fyrstu vitnin að fæðingu Jesú í Lúkasarguðspjalli.

Kannski er það bara ég en ég hef það á tilfinningunni að þessi hirðislíking – eða þetta hirðisþema – tali sérlega sterkt til Íslendinga eða hafi í það minnsta gert það til skamms tíma. Því að sauðfjárbúskapur hefur í raun haldið lífi í íslenskri þjóð frá upphafi – a.m.k. síðan kornrækt lagðist af á kuldaskeiði síðmiðalda.

Góðum bónda og hirði þykir vænt um skepnurnar sínar. Hann hugar að velferð þeirra á alla lund, að þær skorti hvorki vott né þurrt og að þær þjáist ekki á nokkurn hátt. Þessu viðhorfi lýsir Jesús einmitt svo vel í líkingunni sem flestir þekkja um góða hirðinn sem leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina og ekki síður í dæmisögunni um sauðinn eina sem týnist og hirðirinn lætur einskis ófrestað að finna og heimta úr hættu.

Mörgum í nútímanum þykir það örugglega vera eintóm hræsni að tala um væntumþykju bænda gagnvart dýrum sem alin eru til slátrunar. Á yfirborðinu virðist það vera einsýnt. En málið er ekki svo einfalt. Dýrahald til matvælaframleiðslu hefur í gegnum árþúsundin verið nauðsynlegt vegna náttúrulegra aðstæðna. Það hefur átt við hér á okkar harðbýla landi ekki síður en í Landinu helga fyrir botni Miðjarðarhafs á þeim svæðum sem voru og eru harðbýl og óhentug til akuryrkju en þar sem hægt er að draga fram lífið með því að leiða hjörðina úr einum bithaga í annan, frá einu vatnsbóli til annars. Þessi nauðsyn afkomunnar útilokar hins vegar ekki að þeim sem heldur hjörð sinni til haga þyki vænt um dýrin sín. Enda væri hirðishlutverkið varla svo áhrifamikil táknmynd fyrir gæsku Guðs annars vegar og ábyrgðar mannsins gagnvart meðbræðrum sínum og systrum hins vegar ef það hlutverk væri ekki á einhvern hátt tengt við umhyggju í huga fólks.

Lexía dagsins, 23. Davíðssálmur, er líklega einhver þekktasti og ástsælasti texti Biblíunnar. Það má ímynda sér að ástæðan fyrir vinsældum hans sé sú áhrifamikla mynd af kærleiksríkum persónulegum tengslum Guðs og einstaklings sem þar birtist og er sett fram með myndmáli sem á uppruna sinn í hlutverki hirðisins. Það er reyndar svo að upphafssetningu sálmsins, „Drottinn er minn hirðir“ mætti einnig þýða þannig: „Drottinn heldur mér til haga“ en það var þýðing sem prófessor dr. Sigurður Örn Steingrímsson, aðalþýðandi Gamla testamentisins í þýðingunni 2007, var mjög hrifinn af og hélt gjarnan á lofti. Sú þýðing undirstrikar að Guð er virkur í því að tryggja velferð hjarðarinnar eins og eftirfarandi vers gera reyndar einnig: „Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta.“ Sem sé, hann heldur sálmaskáldinu til haga.

En jafnframt verndar hann hjörðina fyrir villidýrum og til þess notar hann sprota sinn og staf, til þess að verjast þeim og hrekja þau á brott, því að án þessarar verndar eru grænn bithagi og svalandi vatnsból lítils virði fyrir varnarlaus jórturdýr.

Tengsl hirðis og hjarðar, þ.e.a.s. yfirburðastaða hans og það hve háð hjörðin er honum um vernd, varð skiljanlega til þess orðið „hirðir“ var frá upphafi vega notað sem guða- og konungstitill í Miðausturlöndum og það löngu áður en 23. Davíðssálmur var saminn, jafnvel tvö eða þrjú þúsund árum fyrr.

Þegar orðið „hirðir“ var þannig notað sem titill yfir leiðtoga þjóðar lá megináhersla merkingarinnar á því hlutverki hirðisins að vernda hjörðina fyrir utanaðkomandi hernaðarlegri ógn og þar með að tryggja velferð hennar og afkomu. Þannig stærðu stórkonungar Súmer og Babýlon sig af því að vera réttlátir hirðar sem færðu frið og velsæld og réttlæti hinum bágstöddu til handa, verandi fulltrúar höfuðguðsins Enlíl á jörðu, en Enlíl sjálfur er oft kallaður „hirðir mannkyns“ í fornum fleygrúnatextum.

Í raun má segja að í orðinu „hirðir“ kristallist hugmyndir manna um hlutverk og skyldur konunga, eins og sést best í Gilgameskviðu, þegar íbúar borgarinnar Úrúk rísa upp gegn harðstjórn Gilgames með þessum hæðnu og ásakandi orðum: „Er þetta hirðir okkar, hugrakkur, tignarlegur og vitur?“  Sem sé: harðstjórn Gilgamesar og ranglæti hans þýðir að hann hefur brugðist skyldum sínum sem hirðir.

Hugmyndin um konunginn sem hirði kemur líka fyrir í Biblíunni þar sem Davíð og eftirmenn hans eru kallaðir hirðar Ísraels. Notkun þessarar myndlíkingar er sérstaklega mikið notuð af spámönnunum Jeremía og Esekíel í gagnrýni þeirra á leiðtoga þjóðarinnar sem að mati þeirra leiddu ógæfu yfir þjóðina með ranglæti sínu. Líkt og þegar íbúar Úrúk-borgar gagnrýna konunginn Gilgames nota spámennirnir hirðislíkinguna til þess að undirstrika að leiðtogarnir hafi brugðist hlutverki sínu. Esekíel orðar þetta á sérlega áhrifamikinn hátt í 34. kafla:

„Vei hirðum Ísraels sem aðeins hirða um sjálfa sig. Eiga þeir ekki að halda fénu á beit? 3 Þið drekkið mjólkina og klæðist ullinni, slátrið feitustu sauðunum en um hjörðina hirðið þið ekki. 4 Þið hafið ekki hjálpað hinu veikburða, ekki læknað hið sjúka, ekki bundið um hið særða og hvorki sótt það sem hraktist burt né leitað þess sem týndist, en hið sterka hafið þið leitt með harðri hendi. 5 Fé mitt tvístraðist þar sem hirðir var enginn og það varð villidýrum að bráð.“

Þessi gagnrýni rímar við það sem við þekkjum vitanlega öll af eigin reynslu og úr mannkynssögunni, bæði í nútíð og fortíð, að þeir sem hafa undirgengist þá ábyrgð að vera „hirðar“ í einhverjum skilningi, rísa ekki alltaf undir þeirri ábyrgð.

Við getum hugsað okkur leiðtoga í ýmsu samhengi, í fyrirtækjum og stofnunum. Auðvitað getur það átt sér þá einföldu skýringu að viðkomandi einstaklingar ráði einfaldlega ekki við þau ábyrgðarstörf sem þeir hafa tekist á hendur þrátt fyrir að hafa verið farsælir í öðru hlutverki. Þetta er í félagsfræðum þekkt sem Péturslögmálið, kennt við félagsfræðinginn Laurence Peter. Skv. því er það tilhneiging í öllum skipulagsheildum að einstaklingar færist upp í metorðarstiganum þar til þeir eru komnir í stöðu sem þeir ráða ekki við.

Önnur ástæða getur hins vegar verið sú að sá sem er kominn í leiðtogastöðu hafi ekki þann skilning á stöðu leiðtogans að hann eigi að vera „hirðir“ sem skuli „leiða“ undirmenn sína með það að leiðarljósi að þeim líði og farnist sem best heldur líti á sig sem handhafa valds sem hann geti farið með að eigin geðþótta án tillits til áhrifanna á þá sem fyrir verða. Slík hætta er bæði fyrir hendi á sviði viðskipta og stjórnsýslu. Og einnig í kirkjulegu samhengi.

Í gyðinglegu og kristnu samhengi varð þróunin sú að hirðirinn varð ekki aðeins táknmynd fyrir Guð og konunginn heldur fyrir leiðtoga safnaðanna og í guðspjalli dagsins felur Jesús Pétri að verða hirðir safnaðar síns eftir burtför sína. Þar með var hann þó ekki að ljá Pétri einhvers konar konungsvald eins og sjá má í pistlinum úr Fyrra Pétursbréfi sem hefur skýra sýn á það hvernig safnaðarleiðtogi eigi að sinna hirðishlutverki sínu: Hann á að sinna hlutverki sínu fúslega en ekki af gróðafíkn og hann á ekki að drottna yfir söfnuðinum heldur vera fyrirmynd hans.

Þetta á auðvitað bæði við um prestana í söfnuðum þjóðkirkjunnar vítt og breitt um landið en ekki síður um þá sem þjóna að biskupsembættum kirkjunnar, vígslubiskupsembættunum á Hólum og í Skálholti, og embætti biskups Íslands sem að kirkjulegum skilningi skal vera hirðir hirðanna og um leið hirðir þeirrar ósmáu hjarðar sem meðlimir þjóðkirkjunnar eru. En á sama tíma og pistillinn talar sérstaklega til þeirra sem í stafni standa höfða orð hans til okkar allra, sama hvaða störfum við gegnum. Því að allar manneskjur eru einhvern tíma í einhverju samhengi í valdastöðu gagnvart öðrum og þá hlýtur sama reglan að gilda, að maður skuli forðast að „drottna“, þ.e.a.s. gera sig sekan um e-s konar valdníðslu, en leitast frekar við að vera sjálfur eða sjálf góð fyrirmynd í framgöngu sinni.

Þegar öllu er til skila haldið snúast því þær spurningar um hirðishlutverkið, sem textar dagsins velta upp, um það hvort maður sé þess trausts verður sem fylgir „hirðishlutverki“ manns hverju sinni, sama í hverju það felst, og um það á hvaða forsendum maður rækir það hlutverk. Þetta er líka ástæða þess að Jesús spyr Pétur þrisvar sinnum hvort hann elski hann. Í ljósi þess að Pétur hafði afneitað honum þrisvar þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað áréttar hann spurninguna þrisvar sinnum til þess að gera Pétri ljóst að hann fái eitt tækifæri enn til þess að staðfesta trúfesti sína, nú sé tíminn til þess að hrökkva eða stökkva. Og Pétur fær það ábyrgðarhlutverk að verða hirðir safnaðarins á grundvelli kærleiksjátningar hans sem í raun er hollustueiður. Hirðishlutverkið ætti þannig að hvíla bæði á hollustu og trúfesti og kærleika og virðingu en reynslan sýnir því miður – hvert sem litið er – að leiðtogar nálgast ekki alltaf hlutverk sitt á þann veg heldur oft og tíðum með gerræði eða hyskni og valdníðslu og virðingarleysi fyrir öðrum.

Það sé því bæn okkar allra hvern dag að við megum hirða vel og af trúfesti um það sem okkur er falið að bera ábyrgð á.

Dýrð sé Guði: Föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.