Viska sem virkar

Viska sem virkar

Lífsleikni í grunnskóla og framhaldsskóla eykur færni í að ræða saman um ýmislegt það sem snýr að lífi manneskjunnar í veröldinni og íþróttir og hverskyns handmenntir leggja grunn að hagnýtri þjálfun og þekkingu. Stöðu kristinna fræða og trúarbragðafræða þyrfti þó að athuga betur; einkum á framhaldsskólastigi þegar allar tilvistarspurningarnar vakna.

Á undanförnum vikum hafa tugir þúsunda íslenskra nemenda gengist undir próf og tekið á móti einkunnum; fengið tölu eða umsögn um afrakstur liðins vetrar. Þetta á við um grunnskólabörn, allt frá fyrsta til tíunda bekkjar, menntskælingja sem og háskólanema á ýmsum aldri. Og víðar, t.d. í tónlistarskólum, tíðkast einnig að leggja fyrir próf og veita einkunnir – og ef ekki, þá umsagnir um ástundun og framfarir. Við látum okkur þetta vel líka og finnst líklega flestum alveg nauðsynlegt að leggja mat á frammistöðu nemenda með þessum hætti. Hvernig ættum við annars að geta borið námsfólkið saman og veitt þeim sem það eiga skilið brautargengi í áframhaldandi námi eða starfi? Að ekki sé talað um verðlaunin – okkur finnst sjálfsagt ekki leiðinlegt þegar við sjálf eða börnin okkar skara fram úr og þiggja að launum bók eða skjal því til staðfestingar.

Að lesa og skrifa list er góð Í öllu þessu námi lærist margt hagnýtt. ,,Að lesa og skrifa list er góð” og nauðsynleg hverjum þeim sem vill tilheyra nútíma samfélagi – allavega að vera tölvulæs og sæmilega fær um að stafsetja ,,statusa” á Fésbókinni. Gott er að kunna að glöggva sig á tölum og hvers kyns lærdómur um heim og geim kemur sér líka vel, að öllu hinu ólöstuðu sem skólakerfið býður upp á. Lífsleikni í grunnskóla og framhaldsskóla eykur færni í að ræða saman um ýmislegt það sem snýr að lífi manneskjunnar í veröldinni og íþróttir og hverskyns handmenntir leggja grunn að hagnýtri þjálfun og þekkingu. Stöðu kristinna fræða og trúarbragðafræða þyrfti þó að athuga betur; einkum á framhaldsskólastigi þegar allar tilvistarspurningarnar vakna.

Í mörgum þessara greina er námsfólkið síðan prófað. Prófin og útkoma þeirra eru sumum kvíðvænleg, öðrum tilhlökkunarefni. Sumir verða undir í hinu hefðbundna kerfi á meðan aðrir blómstra. Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til að hnika til samkeppnishugsunarhættinum, hinum eilífa samanburði sem getur til dæmis orðið afar sár innan fjölskyldu þar sem eitt systkinanna skorar hærra á einkunnaskalanum en annað. En svo virðist sem samanburður á vitneskju, hæfileikum og hagnýtri þekkingu einstaklinga sé einn grundvöllur mannlegs samfélags og jafnvel það hreyfiafl sem knýr fram breytingar og framfarir.

Greindin í Guðsríkinu Jesús talar oft um Guðs ríki. Ef grannt er skoðað sést að í ríki Guðs gilda oft önnur viðmið en í hinu veraldlega. Siðferðisviðmiðin sem okkur eru gefin í Fjallræðunni eru til dæmis næsta ólík mannlegum hugsunarhætti: Slái einhver þig á hægri kinn, þá bjóð honum einnig hina. Og vilji einhver hafa af þér kyrtil þinn, gef honum eftir yfirhöfnina líka, segir Jesús (sjá Matt 5.39-40). Meðfædd viðbrögð okkar við árás virðast hins vegar vera að berja á móti. Ósjálfrátt notum við fyrsta tækifæri til að hefna okkar, hafi einhver gert lítið úr okkur, sem dæmi. Og tilhneiging manneskjunnar er frekar sú að hamstra og halda fast í eigur sínar heldur en að láta eitthvað af hendi.

Þau viðmið Guðs ríkis sem okkur eru gefin í ritningarlestrum dagsins varða hina sífelldu einkunnagjöf sem samfélag okkar er svo gegnsýrt af. Sú greind sem er hampað í Biblíunni verður ekki mæld með mannlegum prófum. Greind Guðsríkisins felst í því að elska og þekkja Guð, hér orðað ,,að óttast Drottin” (Okv 9.10). Það er upphaf spekinnar, hyggindi sem í hag koma (sjá Okv 9.11-12). Guð snýr öllum mannlegum viðmiðunum við. Hann velur ,,það sem heimurinn telur heimsku... og hið veika í heiminum...”. Guð útvelur ,,hið lítilmótlega í heiminum, það sem heimurinn telur einskis virði”, sjá 1Kor 1.26 og áfram.

Þetta segir postulinn til að undirstrika að engar mannlegar einkunnir geta aflað heiðurs hjá Guði. ,,Því að af náð eruð þér hópnir orðnir fyrir trú. Þetta er ekki yður að þakka. Það er Guðs gjöf. Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því” (Ef 2.8-9). Samfélagið við Krist Jesú er Guði að þakka, samfélagið við Jesú sem veitir okkur aðgang að vísdómi Guðs, já Jesús er Viska Guðs holdi klædd. Við getum ekki hrósað okkur af þeim vísdómi, hann er náðargjöf, lífsviskubrunnur að ausa af. Eina sem við getum hrósað okkur af, einu verðlaunin sem við fáum, er sú gæfa að fá að þiggja líf, lífið í Kristi. Þau verðlaun standa öllum til boða.

Hefnd er ekki hyggileg Í guðspjallinu, Lúk 9.51 og áfram, sjáum við skýrt dæmi um hin ólíku viðmið heimsins annars vegar og Guðs ríkis hins vegar. Lærisveinarnir Jakob og Jóhannes sem – eins og við – áttu margt ólært um leyndardóma guðsríkisins vildu hefna sín á fólki sem hafði sínar mannlegu ástæður fyrir því að vilja ekki veita Jesú gistingu. Það er alltaf ástæða fyrir því að fólk hegðar sér á ákveðinn hátt. Stundum kemur það sér illa fyrir okkur, en munum að við þekkjum ekki hugarfar og aðstæður annarra. Það er ekki okkar að dæma og því síður að hefna harma okkar. Enda ávítaði Jesús vini sína fyrir að vilja ganga fram í hugarfari hefndar. Hefnd er ekki hyggileg og ber vott um greindarskort samkvæmt viðmiðunum Guðs ríkis. Þegar við stöndum frammi fyrir aðstæðum þar sem hefndin virðist nærtækust skulum við gera eins og Jesús gerði: Fara í annað þorp, það er að segja koma okkur burt úr aðstæðunum og láta hefndarhug lönd og leið. Það er viska sem virkar.

Samkvæmt mörgum handritum fylgdu ávítum Jesú þessi orð: ,,Ekki vitið þið hvaða andi býr í ykkur. Mannssonurinn er ekki kominn til að tortíma mannslífum heldur til að frelsa”. Tortíming er endastöð hins ítrasta samanburðar og hreint ekki í anda Guðs. Viska Guðs felur í sér frelsi, frelsi frá mannlegum viðmiðunum, frelsi til þess að vera það sem þú ert og styrkja þína jákvæðu eiginleika, frelsið sem fólgið er í að vita að þú ert elskuð eins og þú ert, að þú ert elskaður af Guði sem skapaði þig og þráir heitt að sjá þig vaxa og dafna – á sama hátt og Guð þráir að sjá annað fólk vaxa og dafna, hvert á sínum forsendum, án samanburðar. Gríptu í hönd þessa frelsis, hans sem er orðinn okkur ,,vísdómur frá Guði” (1Kor 1.30), og þroskastu í samfélagi við Jesú ,,að visku og [andlegum] vexti og náð hjá Guði og mönnum” (Lúk 2.52).

Ég vil fylgja þér, Drottin, en... Síðari hluti guðspjalls þessa sunnudags er samsafn af orðaskiptum sem Jesús átti við fólk um að fylgja sér. Maður nokkur sagði við hann: ,,Ég vil fylgja þér hvert sem þú ferð” og þá varaði Jesús hann við því að sú ferð væri allt annað en áreynslulaus. Annar vildi fara fyrst og jarða föður sinn og sá þriðji vildi kveðja fólkið sitt. Aftur sjáum við dæmi um hvernig viðmið guðsríkisins eru önnur en okkar mannlegu mælikvarðar. Við myndum skilja vel ef einhver gæti ekki fylgt okkur eftir í tilteknu verkefni vegna fyrirstandandi útfarar einhvers úr fjölskyldunni. Og ætli við myndum ekki líka vilja kveðja fólkið okkar ef við yrðum kölluð til þjónustu fjarri heimahögunum?

Með því að vísa þessum afsökunum á bug - sem þó eru svo eðlilegar, mannlega talað - vill Jesús undirstrika alvarleika málsins. Viljum við bergja af viskubrunni Guðs og vinna ríki hans gagn þurfum við að vera heilshugar. Víst gerum við mistök eins og þeir Jakob og Jóhannes og aftur og aftur þurfum við að koma til Jesú og leiðrétta stefnuna; Lúther talaði um daglegt afturhvarf, að hverfa meðvitað frá syndinni hvern dag. Það virðist vera alveg sama hvað við höfum fylgt Jesú lengi, við verðum seint fullnuma í skóla himinfræðanna, eins og Helgi Hálfdánarson orðar það (sálmur 502 í sálmabók þjóðkirkjunnar). Þess vegna þurfum við að láta það hafa forgang í lífi okkar að stilla okkur inn á bylgjulengd visku Guðs hvern dag og horfa fram á veginn án eftirsjár eftir hinu liðna.

Viskan í venjulega lífinu Hitt er svo annað að eftirfylgdin við Krist þarf að eiga sér stað í aðstæðum okkar venjulega lífs þó sum okkar finna sig kölluð til að yfirgefa sitt hefðbundna líf til að prédika fagnaðarerindið. Það er í aðstæðum daglegs lífs sem reynir á hvort við fylgjum Jesú heilshugar. Það er lítið mál að koma vel fyrir út á við, lofa Guð í samfélagi trúaðra, standa í ræðustól og boða Krist og brosa við öllum, en missa sig síðan á bílastæðinu yfir sjáanlegu merki þess að hurðin á næsta bíl – sem er auðvitað horfinn – hefur rekist utan í okkar bíl. Barn getur verið eins og ljós í skólanum en þvert og erfitt heima. Á sama hátt tekst okkur kannski að vera vitnisburður fyrir Krist á vinnustaðnum, stillum okkur kannski um að svara með skætingi þegar einhver talar leiðinlega til okkar, en skeytum svo skapi okkar á fjölskyldunni þegar heim kemur. Kannski látum við sem við samgleðjumst vini okkar yfir árangri hans á prófinu en svíður innst inni yfir samanburðinum.

Þá reynir á að við tengjum okkur visku Guðs, að við minnumst þeirrar gjafar sem við höfum þegið af Guði sem er samfélagið við Jesú Krist, minnumst þess að það er andi hans semn í okkur býr, andi vísdóms og skilnings. Gefum okkur tóm til að staldra við og leita Guðs, biðja hann um leiðsögn í öllum kringumstæðum. Það er viska sem virkar.