Helgistund og blessunarahöfn í Grafarkirkju 1. júlí.

Helgistund og blessunarahöfn í Grafarkirkju 1. júlí.

Grafarkirkja er ekki aðeins minnisvarði um liðna tíð. Hún stendur umfram allt sem árétting á samhengi sögu og menningar lands og þjóðar sem sótt hefur þrótt og næringu til kristinnar trúar frá upphafi – og gerir enn.
fullname - andlitsmynd Gunnar Jóhannesson
27. júní 2012

grof-450.jpgÍ mynni Deildardals í Skagafirði er mikill dýrgripur fólgin sem er Grafarkirkja á Höfðaströnd, eitt fágætasta hús landsins og eina stafkirkjan sem varðveist hefur á Íslandi. Þangað sækir fjöldi fólks á hverju sumri og þykir það jafnan mikil upplifun enda engu líkara en gengið sé inn í annan tíma þegar komið er inn fyrir torfveggi þessar litlu og fallegu kirkju. Segja má að fólk skilji við sig hávaða nútímans og verði hluti af liðinni tíð og sögu sem nær aftur um aldir.

Ekki er með öllu vitað hversu gömul Grafarkirkja er en víst þykir að saga hennar nái að minnsta kosti aftur á 17. öld og ekki ósennilegt að kirkjan sé að stofni til frá því fyrir siðbreytingu. Hvað sem því líður hefur bænhús staðið í Gröf frá fornu fari.

Lengst af var Grafarkirkja vettvangur helgrar þjónustu og þegar mest var umleikis í Gröf, í tíð Ragnheiðar Jónsdóttur (d. 1715) ekkju Gísla Þorlákssonar Hólabiskups (d. 1684), var þar reglulega messað. Með breyttum tíma og aðstæðum lagðist helgihald þó af og húsið nýtt til veraldlegri hluta, eins og algengt var um aflögð guðshús. Með tíma lét Grafarkirkja, sem þá var nýtt sem geymsluhús, á sjá og ljóst að á kirkjunni væri gagngerra endurbóta og viðgerðar þörf. Ráðist var í þær um miðja síðustu öld en þá var kirkjan komin í eigu Þjóðminjasafns Íslands. Þeirri endurgerð var lokið árið 1953 og af því tilefni var Grafarkirkja endurvígð 12. júlí sama ár.

Grafarkirkja er ekki aðeins minnisvarði um liðna tíð. Hún stendur umfram allt sem árétting á samhengi sögu og menningar lands og þjóðar sem sótt hefur þrótt og næringu til kristinnar trúar frá upphafi – og gerir enn. Helgistund í Grafarkirkju að sumarlagi hefur því um langt skeið verið árviss viðburður í Hofsóss- og Hólaprestakalli. Þá er komið saman til kyrrlátrar stundar í kvöldsólinni og notið einstæðrar kyrrðar og helgi. Að helgistundinni lokinni er drukkið kaffi undir kirkjuveggnum og gætt sér á meðlæti sem kórfélagar Hofsóss og aðrir velunnarar kirkjunnar hafa meðferðis. Helgistund í Grafarkirkju er jafnan vel sótt og kemur fólk víða að og á ánægjulega stund á fallegum stað.

Sumarið 2011 var ekki unnt að koma á helgistund í Grafarkirkju sökum yfirgripsmikillar viðgerðar á kirkjunni sem þá var ráðist í. Þær höfðu staðið til um nokkurt skeið enda ljóst að þörfin væri orðin brýn. Hafist var handa með því að taka torfþekju kirkjunnar ofan og torfveggi niður. Þá var bogaskemma reist yfir húsið og gert við skemmdir vegna fúa. Skeytt var við allflestar stoðir kirkjunnar og skipt um gólfbita og gólfborð. Slagþil á báðum stöfnum var endurnýjað og nýir gluggar smíðaðir í kirkjuna. Að því loknu var skemman tekin ofan og torfveggir hlaðnir upp og ný þekja sett á kirkjuna. Fyrir skemmstu var nýtt sáluhlið sett upp og verið er að gera við kirkjugarðvegg. Viðgerð þessi var unnin undir stjórn Guðmundar Lúthers Hafsteinssonar arkitekts og fagstjóra húsasafns Þjóðminjasafns Íslands. Yfirsmiður var Bragi Skúlason húsasmíðameistari á Sauðárkróki og Helgi Sigurðsson hleðslumaður frá Stóru-Ökrum annaðist hleðsluvinnu. Að viðgerðinni komu fleiri aðilar og veittu ýmsir margvíslegt liðsinni sitt. Má þar sérstaklega nefna landeigendur í Gröf sem og Kaupfélag Skagfirðinga er lánaði bogaskemmu sem reist var yfir kirkjuhúsið á meðan viðgerð fór fram á viðum þess.

Að þessari viðgerð lokinni er nú komið að því að efna að nýju til helgistundar í Grafarkirkju. Verður hún haldin að kvöldi sunnudagsins 1. júlí næstkomandi kl. 20. Sóknarprestur Hofsóss- og Hólaprestakalls mun þjóna fyrir altari og flytja íhugun og kirkjukór Hofsóss syngur fallega kvöldsálma. Í ljósi hinnar umfangsmiklu viðgerðar sem gerð hefur verið á kirkjunni þykir tilefni til að blessa hana sérstaklega samhliða helgistundinni. Jón Aðalsteinn Baldvinsson biskup á Hólum mun annast þá blessun og jafnframt flytja kirkjugestum ávarp. Að venju bíður þeirra kaffisopi og meðlæti í kvöldkyrrðinni undir berum himni að helgistundinni lokinni. Allir eru hjartanlega velkomnir og er það von þeirra sem að henni standa að sem flestir sjái sér fært að koma og njóta saman helgrar stundar á kyrrlátu kvöldi.