„Þeir hafa rænt trú minni!“

„Þeir hafa rænt trú minni!“

„Þeir hafa rænt trú minni!”. Í sjónvarpsþætti í síðustu viku lýsti pakistanski fræðimaðurinn Ziauddin Sardar því hvernig öfgamenn hafa komið óorði á trúarsannfæringu hans og hundruða milljóna annarra íbúa jarðarinnar. Þá tók hann einhvern veginn svona til orða.

Hvað virðist yður? Maður nokkur átti tvo sonu. Hann gekk til hins fyrra og sagði: Sonur minn, far þú og vinn í dag í víngarði mínum. Hann svaraði: Það vil ég ekki. En eftir á sá hann sig um hönd og fór. Þá gekk hann til hins síðara og mælti á sömu leið. Hann svaraði: Já, herra, en fór hvergi. Hvor þeirra tveggja gjörði vilja föðurins?

Þeir svara: Sá fyrri.

Þá mælti Jesús: Sannlega segi ég yður: Tollheimtumenn og skækjur verða á undan yður inn í Guðs ríki. Því að Jóhannes kom til yðar og vísaði veg réttlætis, og þér trúðuð honum ekki, en tollheimtumenn og skækjur trúðu honum. Það sáuð þér, en snerust samt ekki síðar og trúðuð honum.Matt. 21. 28-32

„Þeir hafa rænt trú minni!”. Í sjónvarpsþætti í síðustu viku lýsti pakistanski fræðimaðurinn Ziauddin Sardar því hvernig öfgamenn hafa komið óorði á trúarsannfæringu hans og hundruða milljóna annarra íbúa jarðarinnar. Þá tók hann einhvern veginn svona til orða.

Sardar þessi er múslími og var áhugavert að fylgja honum eftir þar sem hann ýmist dásamaði þau verk sem unnin höfðu verið í krafti þeirrar menningar um leið og hann harmaði það hvernig fólk er fært í fjötra af öflum sem breiða út að því er virðist sömu trú. Jafnframt benti hann á dæmi þess hvernig stórir hópar innan hins íslamska heims eru að vakna til vitundar og krefjast aukins frelsis og lýðréttinda án þess að hvika þar í neinu frá trú sinni. Trúin og mannréttindin eru jú engar andstæður eins og ætla mætti af boðskap harðlínumanna. Það er öðru nær. Mannréttindin eru hvergi meiri en þar sem fólk getur fundið lífi sínu dýmætan tilgang, tilbeðið skapara sinn og horft til æðri veruleika um leið og það nýtur þeirra grundvallargæða sem lífið getur boðið upp á.

Flugrán

Á ensku var þessi setning fræðimannsins enn beinskeyttari því sögnin sem hann notaði er sú sama og á því merkir að ræna flugvél eða öðru farartæki. Fyrir vikið sitja orðin enn betur í áhorfandanum: „Þeir hafa rænt trú minni!” – eða kannske betur: „þeir hafa framið flugrán á trú minni!” og þá koma upp í hugann ljóslifandi myndir af farþegavélunum sem steyptust inn í turnana tvo.

Og síðan þá hefur einni göfugustu kennd mannsins, trúarþörfinni, verið beint í æ ríkari mæli inn á brautir haturs og grimmdar. Voðaverk hafa verið unnin í nafni trúarinnar á þau verðmæti sem mölur og ryð fá ekki grandað. Gildir þá einu hvort um er að ræða íslam, hindúisma eða kristindóm.

Fleiri fórnarlömb flugrána

Auðvitað er trúin fjarri því að vera hið eina sem lent hefur í klóm flugræningja svo áfram sé vísað í téða samlíkingu. Óþokkaverk hafa verið framin í nafni alls þess sem göfugt þykir og merkilegt. Styrjaldir hafa verið háðar í nafni ættjarðarástar. Nýlendukapphlaupið um aldamótin 1900 var meðal annars réttlætt með vísan til þróunarkenningar Darwins. Alla barnæsku þess sem hér stendur, og fram á fullorðinsár hans, stóð heimurinn í skugga tortímingar. Ástæðan var sú að menn voru ekki á einu máli um það með hvaða aðferðum ætti að ráðstafa arðinum af framleiðslunni. Já, stórveldin miðuðu gereyðingarvopnum hvert á annað sökum hagfræðilegs ágreinings!

Trúin er ekki ein fórnarlamb slíkra ofbeldisverka, síður en svo. Allt það sem manninum er dýrmætt virðist um leið bjóða heim hættunni á því að vera misnotað. Göfugir eiginleikar, merkar kenningar og dýrmætar tilfinningar eru oft notuð til þess að draga vagn ofbeldis og misnotkunar. Núna horfum við hins vegar upp á það að trúin er verkfæri til óhæfuverka og sannarlega svíður undan slíku.

Múslímanum sem leiddi okkur um undraheima sinnar menningar tekur þetta sárt. Kristnum mönnum ætti að sama skapi að kenna til þegar forseti heimsveldis styður hernað, pyntingar og glórulausa sóun á almannafé þeim rökum að Guð hafi blásið honum þá pólitík í brjóst. Slíkt er engu minna flugrán trúarinnar.

Inn í ríki Guðs

„Tollheimtumenn og skækjur verða á undan yður í Guðs ríki” segir Kristur í guðspjalli dagsins. Þessi orð segir hann við æðstu prestana og öldungana í helgidómnum. Merkilegt hvað honum var í nöp við þá ágætu menn! Hvernig ætli þeim hafi liðið undir þessum orðum? – Vammlausir að flestra mati, varðveittu og túlkuðu lögmálið sem boðað var að kæmi frá Guði og síðast en ekki síst fengu þeir inngöngu í þær vistarverur helgidómsins sem öllum öðrum voru lokaðar. Af hverju skyldu óhreinir og syndum spilltir einstaklingar þá eiga greiðari leið að sjálfu Guðs ríki en þeir?

Tollheimtumenn og skækjur voru á þveröfugum stað í virðingarröðinni en þessir hópar. Jesús snýr hlutföllunum á hvolf og bendir á það að þeir sem lægstir þykja og óhreinir töldust geti átt greiðari leið að Guði en hinir sem helgað hafa líf sitt íhugun og boðun þess lögmáls sem boðað var að kæmi frá Guði.

Ólíkir bræður

Þarna beitir Kristur eins og svo oft samlíkingu, dæmisögu, til þess að skýra mál sitt. Hann segir sögu af sonunum tveimur sem fengu báðir fyrirmæli frá föður sínum. Annar þeirra þráaðist við, nennti greinilega ekki að fara að puða í víngarðinum. Hann skipti hins vegar um skoðun og hélt út í garðinn þar sem hann sinnti þeim störfum sem honum voru falin.

Hinn sonurinn brást betur við í fyrstu. Hann lýsti yfir vilja sínum til þess að gera það sem faðirinn óskaði – en fór svo hvergi. Orð hans náðu ekki lengra en að vörunum.

Þetta minnir á sögu Lúkasar af sonunum tveimur. Þar sem sá yngri sólundaði öllum arfinum á tilgangslausu rangli sínu úti í hinum stóra heimi en hinn erfiðaði á akrinum í sveita síns andlits. Þegar svo yngri sonurinn sneri aftur nær dauða en lífi eftir mislukkaða útrás sína tók faðir hans honum fagnandi hinum til mikillar undrunar og reiði.

Samlíkingin við Guðs ríki lá til grundvallar í bæði skiptin. Hver kemur inn í samfélagið og hver þykist yfir það hafinn? Í hvorugu tilvikinu er fjallað um fullkomna manngerð. Báðir eru meingallaðir. Boðskapurinn er ekki sá að skikka synduga og breyska menn til hnökralauss lífernis. Hann er þvert á móti á þá leið að menn eigi ekki að hreykja sér upp í krafti ímyndaðrar fullkomnunar.

Hvor gerði það sem gott var?

Það kveður við gamlkunnan tón í þessari ræðu Krists. Jafnan þegar hann var spurður einhvers sagði hann dæmisögu og spurði svo á móti. Að svara spurningu með annarri spurningu ku einmitt hafa verið algengt meðal rabbía gyðinga og mun svo enn vera. Eitt sinn var rabbíni spurður hvers vegna svo væri, hvers vegna hann og starfsbræður hans svöruðu alltaf spurningu með annarri spurningu: „Tjah, af hverju ekki?” Og Kristur spyr líka á móti. Að lokinni dæmisögunni spyr hann hvor bróðirinn hafi gert það sem faðirinn bað um. Þeir svöruðu að það hefði verið sá sem hefði neitað að vinna verkið en unnið það samt. Og gerði hann það? Kristur svarar því ekki. Hann bendir bara á þá sem lægstir eru, jafnvel þá sem sólunda lífi sínu á altari græðgi og losta, og segir að Guð muni fyrr bjóða þeim til inngöngu í ríki sitt en hinum sem innvígðir voru í helgidóminn.

Bóksafstrú og kærleikur

Kannske er ákveðið svar fólgið í því að Kristur skuli láta sér nægja að spyrja. Kannske er það einmitt sá opni möguleiki sem hann býður upp með þversögninni um syndaselina og þá heilögu sem felur sjálft svarið í sér.

Þetta leiðir óneitanlega hugann að þeirri öldu bókstafstrúar sem nú gengur yfir heiminn, hvert sem litið er. Þetta leiðir hugann að þeim sem senda ungmenni út í dauðann í nafni háleitra hugsjóna. Þetta fær okkur til þess að hugsa um þá sem segjast ganga erinda Guðs en þeim fylgir slóð þjáninga og eyðilegginga. Þetta leiðir hugann að öllu þeim hatursboðskap sem einkennir samtímann – um átök menningarhópa um hugsjónir, fagran boðskap, tilvísanir í æðri verðmæti – sem leiða til gagnstæðrar niðurstöðu.

Játning með vörunum eða sönn kærleiksást – jafnvel í trássi við gefin orð, bókstafstrúin sem hvetur til ofbeldis eða auðmjúk afstaða til skaparans. Orðin eru tóm. Menn kunna ritningarnar utanað. Menn þylja þær á vörum sínum tíma og ótíma. Menn vísa í almættið og segjast vinna verk þess. En verkin bera ekki vott um kærleika. Verkin bera ekki vott um umhyggju, virðingu fyrir náunganum – sem myndar kjarnan í kristnum siðaboðskap.

„Þeir hafa framið flugrán á trú minni!”, segir einlægur múslíminn. Kristin trú hefur að sama skapi fengið á sig ljótan stimpil fyrir háttarlag margra þeirra sem játa trúna á Krist – með orðum sínum.

Er það ekki þetta sem Kristur vísar í er hann segir: „Tollheimtumenn og skækjur verða á undan yður í Guðs ríki”?

Náðin

Lykilorðið í boðskap Krists er náðin. Ekkert okkar er þess umkomið að setja okkur á þann stall að við höndlum sannleikann. Við mætum orði Guðs einungis sem þiggjendur. Við tökum við orðinu í auðmýkt því auðmýkt og lítillæti er kjarni alls samfélags. Trúin bindur ekki hendur okkar. Hún njörfar ekki hugsun okkar niður í lögmálsgreinar. Hún beinir okkur á aðrar brautir. Hún boðar okkur að þrátt fyrir takmörk okkar, syndir og breyskleika eigum við stað hjá Guði. Óverðskuldaða gjöf sem okkur hefur verið veitt í skírninni. Sú gjöf á að vera okkur leiðarljós í samskiptum okkar við náungann svo að þau megi bera vott þess kærleika sem við sjálf höfum þegið.

Mt. 21.28-32, Lexían; Rut 2.8-12, Pistillinn: Fil. 2. 12-18