Uppstigningardagur

Uppstigningardagur

Einhver eftirminnilegasti uppstigningardagur sem ég hef lifað var vorið 1995. Þá starfaði ég sem prestur í sænsku kirkjunni í úthverfasöfnuði í Stokkhólmi, þar sem bjuggu meðal annars fjölmargir kristnir sýrlenskir flóttamenn er höfðu flúið ofsóknir heimafyrir og fundið skjól í Svíþjóð.
fullname - andlitsmynd Þórhallur Heimisson
01. júní 2011

Uppstigningardagur dregur heiti sitt af þeim atburði sem frá er greint í fyrsta kafla Postulasögunnar, þar sem segir frá því að Jesús hafi fjörtíu dögum eftir upprisuna verið uppnuminn til himins fyrir augliti lærisveina sinna. Og er þeir störðu til himins á eftir honum, þá stóðu allt í einu hjá hjá þeim tveir menn í hvítum klæðum, og sögðu:

„Galíleumenn, hví standið þér og horfið til himins? Þessi Jesús, sem varð upp numinn frá yður til himins, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til himins.“ Guðspjallamaðurinn Lúkas sem skrifaði Lúkasarguðspjall, skrifaði einnig Postulasöguna og er hún beint framhald af guðspjallinu. 

Uppstigning Jesú til himins markaði ákveðin endalok fyrir lærisveinana.  Þeir dagar sem þeir höfðu átt með Jesú eftir upprisuna á páskum voru á enda. Þeir höfðu haft hann hjá sér í bókstaflegri merkingu. Þeir höfðu getað talað við hann, snert hann, borðað með honum, hlustað á hann.  Hann hafði verið þeim nærri í upprisulíkama sínum. Nú var hann ekki lengur með þeim á þennan sama hátt. En þess í stað hét hann þeim að hann myndi ætíð vera nærri þeim í anda sínum, já nærri öllum þeim sem á hann tryðu og honum fylgdu. Einmitt þess vegna markaði uppstigningin nýtt upphaf fyrir lærisveinana.  Það var ekki sorg sem var efst í huga þeirra er þeir yfirgáfu staðinn þar sem þeir sáu Jesú síðast, heldur gleði og ný von.  Nú vissu þeir, að þeir áttu sér meistara, frelsara og vin í Guði, vin sem enginn gat tekið frá þeim. Og nú var þeim líka falið nýtt hlutverk. Jesús sem hafði verið með þeim í lifanda lífi, hafði birst þeim upprisinn í upprisulíka sínum, og var nú stiginn upp til Föðurins, hann sendi þá í sínu nafni til allra þjóða heimsins. Og hann hét þeim að hann myndi alltaf vera með þeim í för í anda sínum. Eða eins og Jesús sagði sjálfur samkvæmt Matteusarguðspjalli :

„Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veralda“.

Og það var einmitt þetta sem lærisveinarnir gerðu. Eftir að Guð hafði úthellt anda sínum yfir þá á hvítasunnudegi, fóru þeir til ystu endimarka jarðarinnar til að boða hinn krossfesta og upprisna. Einn þeirra, Tómas, sigldi meira að segja yfir Indlandshaf segir sagan og stofnaði þar eina elstu starfandi kirkjudeildí heimi að því er talið er. Sagan segir líka að allir hafi lærisveinarnir látið lífið fyrir trú sína og þannig staðfest með blóði sínu þann boðskap sem þeir flutti. Smátt og smátt barst trúin einnig til Íslands köldu stranda. Hér hefur trúin á Jesú fylgt íbúum landsins allt frá fyrstu stundu, en aldrei hefur landið verið án kristinna íbúa. Kynslóð eftir kynslóð hefur miðlað börnum sínum af trúarinnar mikla fjársjóði. Blessun anda Guðs hefur því verið með þessari þjóð í gleði og sorg. Og þannig barst trúin líka til okkar. Keðjan er því óslitin frá fjallinu forðum daga og til þessa dags. 

   Einhver eftirminnilegasti uppstigningardagur sem ég hef lifað var vorið 1995. Þá starfaði ég sem prestur í sænsku kirkjunni í úthverfasöfnuði í Stokkhólmi, þar sem bjuggu meðal annars fjölmargir kristnir sýrlenskir flóttamenn er höfðu flúið ofsóknir heimafyrir og fundið skjól í Svíþjóð. Þennan morgun var messað við sólarupprás, kl.sex. Veður var með eindæmum gott, sól skein í heiði, og því var messað utan dyra á kirkjutorginu, við fuglasöng. Mikið fjölmenni sótti messuna, á þriðja hundrað manns. En megnið af kirkjugestum voru úr röðum hinna kristnu sýrlensku innflyjenda, því Svíar sváfu á sínu græna eyra og nutu þannig frídagsins. Og það sem meira var, Sýrlendingarnir kunnu fæstir orð í sænsku, hvað þá að þeir skildu mína sænsku með mínum íslenska framburði. En það kom ekki að sök. Öll messan var flutt á sænsku og Sýrlendingarnir tóku þátt í öllum liðum hennar, hlustuðu andagtugir á ræðuna og gengu allir til altaris – án þess að skilja orð. En sjaldan hef ég verið kvaddur af meiri hlýhug heldur en eftir þessa messu. Hver messugesturinn á fætur öðrum kvaddi mig með faðmlagi og kossi og fallegum sýrlenskum bænum, brosi og hlýju, sem sýndi mér að orðin sögðu skiptu engu, heldur var það andinn sem sameinaði okkur öll í fögnuði Jesú á þessum morgni.  Enn í dag á ég góða vini í hópi sýrlensku innflytjendanna og hef heimsótt þá þegar ég hef átt leið um gamla söfnuðinn minn.  

Og í þessu er kraftur hins kristna boðskapar fólginn. Hann sameinar okkur um alla heimsbyggðina í einu samfélagi, óháð uppruna okkar og siðum.  Í því samfélagi er hinn upprisni með okkur, í gleði og sorg, í lífi og dauða, alla daga, allt til enda veraldarinn.