Fjölbreytt starf eldri borgara

Fjölbreytt starf eldri borgara

Í Fella- og Hólakirkju fer fram blómlegt starf eldri borgara. Í hverri viku safnast saman milli 30 – 40 manns í kirkjunni til að eiga saman gott og uppbyggilegt samfélag.
fullname - andlitsmynd Ragnhildur Ásgeirsdóttir
18. apríl 2007

Í Fella- og Hólakirkju fer fram blómlegt starf eldri borgara. Í hverri viku safnast saman milli 30 – 40 manns í kirkjunni til að eiga saman gott og uppbyggilegt samfélag. Auk þess sér starfsfólk kirkjunnar um vikulega samveru í félagsstarfi aldraðra í Gerðubergi. Þessir mörgu eldri einstaklingar hafa líka verið duglegir að sækja reglulegt helgihald kirkjunnar og því er hér um mjög gefandi og gagnkvæm samskipti að ræða.

Í samverustundunum í kirkjunni er í hvert skipti boðið upp á fræðslu, fræðandi fyrirlestra eða skemmtiefni. Einnig er farið í styttri ferðir og haldin skemmtikvöld. Myndast hefur góður kjarni fólks sem Fella- og Hólakirkja vill hlúa að. Ragnhildur Ásgeirsdóttir djákni kirkjunnar hefur umsjón með þessu starfi.

Nú í sumar verður bryddað upp á enn einni nýbreytni í starfinu. Framundan er sumarferðalag með hópnum til Svíþjóðar. Flogið verður til Stokkhólms um Jónmessu og þaðan ferið rakleiðis til kirkjuseturs í Dölunum, Stiftgården i Rättvík sem er nærri bænum Falun. Þetta er fallegur og kyrrsæll staður við vatnsborð Siljan-vatnsins þar sem hópurinn fær tækifæri til að njóta hvíldar og til þess að skoða sig um í fögru umhverfi.  Einnig verður boðið upp á fræðslu í þessari ferð. Sr. Svavar Stefánsson, sóknarprestur Fellasóknar mun sjá um fræðslustundir fyrir þáttakendur um þær breytingar sem því fylgir að eldast.  Hann sérhæfði sig í meistaranámi sínu í Bandaríkjunum í breytingum, sálrænum, trúarlegum og félagslegum, sem fylgja því að eldast og þá glímu sem oftar en ekki fylgja starfslokum.

Ferðin er því ekki eingöngu skemmtiferð heldur einnig fræðsla og uppbygging. Eldra fólkið okkar á Íslandi hefur lagt sig fram í starfi og gert vel fyrir þjóðina okkar. Það er því starfsfólki Fella-og Hólakirkju mikil gleði að geta glatt þennan hóp með því að fara með þau í ferð sem mun verða hópnum uppbyggileg og skemmtileg í alla staði. Hópurinn fer frá Keflavík 21.júní og verður í tæpa viku. Leitað hefur verið til ýmissa aðila um að styrkja ferðalangana til fararinnar. Verði fyrir þessa ferð er stillt mjög í hóf en til að fjárhagur þurfi ekki að hamla för er allur stuðningur vel þeginn til að létta undir með þátttakendum. Verði reynslan af þessari ferð góðar eru líkur á að farið verði aftur að ári