Nói og gróðurhúsaáhrifin

Nói og gróðurhúsaáhrifin

Þegar allt kemur til alls þá snýst náttúruvernd ekki um það að viðhalda sjaldséðum blómum heldur miklu fremur um það að viðhalda því vistkerfi og þeim aðstæðum, sem nauðsynlegar eru til að mannleg samfélög fái þrifist.
fullname - andlitsmynd Magnús Erlingsson
12. janúar 2010

Bláber

Sunnudaginn 13. desember hringdi ég kirkjuklukkunum á Ísafirði 350 sinnum. Þetta var gjörningur á alheimsvísu og var til að vekja athygli fólks á því hvaða áhrif hlýnun lofthjúpsins kynni að hafa á lífríki jarðar.

Að hringingu lokinni voru flutt tvö erindi um efnið í kirkjunni. Ísfirðingar sátu pollrólegir undir fyrirlestrunum. Upplýsingar um að jöklar kynnu að bráðna og yfirborð sjávar að hækka vegna bráðnunar og hærri sjávarhita, virtust ekki geta raskað ró fólksins, enda hljóma spádómar um mildari vetur ekkert illa í eyrum okkar, sem búum á snjóþungum svæðum. En svo kom stóra bomban. Líffræðingur frá Náttúrustofu Vestfjarða sagði að íslenskur lággróður kynni að hörfa og háplöntur að sækja á. Þegar vetrarfannir hættu að liggja yfir dældum þá væru sterkar líkur á að aðalbláberin hyrfu af Vestfjörðum. Ég heyrði að gömul kona fyrir aftan mig tók andköf. „Þetta er grafalvarlegt mál,“ sagði hún.

* * *

Borkjarnar í Grænlandsjökli sýna að gegnum aldirnar hefur verið fylgni milli magns koltvíildis í andrúmslofti og hitastigs. Fyrir tvö hunduð árum síðan var magn koltvíildis 275 hlutar á móti milljón en á seinustu tveimur öldum hefur hlutfallið stigið upp í 387 hluta. Hugsanlegt er að hitastigið fylgi á eftir!

„En þó að allt fari á versta veg þá mun jörðin hrista þetta af sér. Gróður og hin lægri lífsform hafa mun meiri aðlögunarhæfileika en við mennirnir, sem miðað við sögu jarðarinnar erum nýlega búnir að skjóta upp kollinum.“

Þessi orð landvarðarins á Hornströndum klingdu í kollinum á mér. Þegar ég kom heim þá fór ég að lesa í Biblíunni minni söguna af honum Nóa. Nói lenti í svona krísu, sem hugsanlegt er að mannkyn sé að rata í á næstu hundrað árum. Heimurinn, sem Nói þekkti og hrærðist í, fór á bólakaf. Vatnið flæddi yfir þurrlendið.

Allt í einu uppgötvaði ég svolítið, sem ég hafði ekki fyrr rekið augun í. Hvílíkur snillingur var hann Nói! Hann tók konu sína, syni og tengdadætur um borð í örkina og svo dýrin tvö og tvö. En ég hafði aldrei fyrr hugsað út í það hvað hann tók ekki með sér í örkina.

Ef til þess kæmi að bjarga þyrfti lífinu hér á jörð í óræðri framtíð með því að senda geimskipaflota til Andrómeu, sem er sú stjörnuþoka, sem næst okkur stendur, hvað tækju menn örugglega með sér fyrir utan sauðkindina og allar hinar skepnurnar? Jú, auðvitað gróður og allt það, sem lifir í náttúrunni því undirstaða lífsins er fólgin í ljóstillífun planta og öllu því sem vex á jörðinni.

Af hverju safnaði Nói ekki saman plöntum og fræjum? Svarið liggur auðvitað í augun uppi. Hann þurfti þess ekki því gróður jarðar hefur miklu meiri aðlögunarhæfni og úthald heldur en við mennirnir og spendýrin.

* * *

Ég lokaði Biblíunni minni og varð litið upp í gluggann. Þar stóð burkninn minn. Burknar áttu sitt blómaskeið á forsögulegum tíma þegar risaeðlurnar voru uppi en maðurinn var ekki enn komin fram á sjónarsviðið. Þá var hitastigið mun hærra en nú er. En svo raskaðist jafnvægið í vistkerfi jarðarinnar. Risaeðlurnar dóu út. En burrkninn er hérna enn þá.

Þegar allt kemur til alls þá snýst náttúruvernd ekki um það að viðhalda sjaldséðum blómum heldur miklu fremur um það að viðhalda því vistkerfi og þeim aðstæðum, sem nauðsynlegar eru til að mannleg samfélög fái þrifist. Við þurfum að skapa sjálfbær samfélög, sem spilla ekki náttúrunni fyrir komandi kynslóðum. Gróður jarðar getur lagað sig að geypimiklum breytingum. En við mennirnir erum eins og risaeðlurnar. Við erum viðkvæmir fyrir breytingum.... og þar af leiðandi tók Nói bæði menn og skepnur um borð í örkina.

Klókur karl hann Nói! Þess vegna syngja líka börnin þessa vísu Bellmans:

Gamli Nói, gamli Nói, guðhræddur og vís, mikils háttar maður, mörgum velviljaður. Þótt hann drykki, þótt hann drykki, þá samt bar hann prís.

Ég styð verndun náttúrunnar vegna þess að ég vil að barnabarnabörnin mín geti líkt og ég fengið sér aðalbláber með rjóma og sykri. Umm, það er fátt, sem slær því við.

Magnús Erlingsson, matgæðingur á Ísafirði.