Fylgjum honum!

Fylgjum honum!

Það sama á við um okkur og Pétur, við játum, erum fullyrðingaglöð, misstígum okkur, efumst, höfnum og iðrumst. Lífið með Jesú er ganga þar sem við erum sífellt að takast á við okkur og okkar mannlegu takmarkanir.

Þegar þeir höfðu matast sagði Jesús við Símon Pétur: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?“ Hann svarar: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“

Jesús segir við hann: „Gæt þú lamba minna.“ Jesús sagði aftur við hann öðru sinni: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“

Hann svaraði: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“

Jesús segir við hann: „Ver hirðir sauða minna.“ Hann segir við hann í þriðja sinn: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig“

Pétur hryggðist við að hann skyldi spyrja hann þriðja sinni: „Elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Drottinn, þú veist allt. Þú veist að ég elska þig.“

Jesús segir við hann: „Gæt þú sauða minna. Sannlega, sannlega segi ég þér: Þegar þú varst ungur bjóstu þig sjálfur og fórst hvert sem þú vildir en þegar þú ert orðinn gamall munt þú rétta út hendurnar og annar býr þig og leiðir þig þangað sem þú vilt ekki.“ Þetta sagði Jesús til að kynna með hvílíkum dauðdaga Pétur mundi vegsama Guð. Og er hann hafði þetta mælt sagði hann við hann: „Fylg þú mér.“ Jóh 21.15-19

Í Guðspjallinu sem var lesið hér áðan segir frá samtali Jesú og Péturs. Samtalið hefst að frumkvæði Jesú og leiðir til þess að Jesús gerir Pétur að leiðtoga innan kirkjunnar.

Margt hefur breyst frá því að þeir ræddust við síðast. Að baki er píslarsagan, krossinn og upprisan, upprisan sem færði lærisveinunum og okkur heim sanninn um það hver Jesús er í raun og veru – sonur Guðs. Það er í ljósi þessarar yfirþyrmandi staðreyndar sem samtal þeirra Jesú og Péturs fer fram. Það er mikilvægt að hafa það í huga að staða Jesú fyrir upprisuna og staða hans eftir upprisuna er ekki sú sama. Vegna upprisunar er Jesús frá Nasaret staðfestur af Guði sem Jesús Kristur.

Líkt er um Pétur. Hann er heldur ekki samur og hann var fyrir upprisuna. Þá var Pétur skjótráður, örgeðja, oft yfirlýsingaglaður og stórorður. Fátt brann honum fyrir brjósti. En nú, þegar þeir hittast aftur augliti til auglitis, er ljóst að Pétur hefur breyst. Hann er orðinn varkár, hann vill ekki lofa meiru en hann telur sig geta staðið við. Það má segja að Pétur hafi öðlast meðvitund um sjálfan sig, takmarkanir sínar og stöðu í heiminum. Hann hefur lifað sína sárustu stund og dýpstu vonbrigði. Hann hefur þurft að horfast í augu við það að á reynslustund sveik hann þann sem hann mat mest og var honum kærastur. Hann sem hafði áður sagst vera reiðubúinn að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vin sin. Lítum aðeins nánar á samtal þeirra Jesú og Péturs í þessu ljósi. Samtalið byggir á þremur spurningum Jesú. Í lokin leggur Jesús svo út af samtalinu og eykur þannig merkingu þess.

Við getum kallað form samtalsins þrítekningu með tilbrigðum. Formið minnir því augljóslega á afneitun Péturs sem einnig er þrítekin. Við þekkjum þetta form líka úr gömlu sögunum okkar þegar þurfti að segja mönnum ótrúleg tíðindi þrisvar svo þeir tryðu.

Í fyrstu spyr Jesús hvort Pétur elski sig „meira en þessir“ og vísar þar til viðstaddra lærisveina. Beinast liggur við að Pétur svari játandi með sömu sögn, og það sjáum við líka í íslenska textanum: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig˝. En í gríska textanum er því ekki þannig farið þar notar Jesús grísku sögnina agape í spurningu sinni en Pétur svarar með sögninni fileo. Jesús spyr því hvort Pétur elski sig en Pétur svarar: Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig sem vin! Í ljósi þessa svars Péturs er skiljanlegt að Jesús skuli ítreka spurningu sína; „elskar þú mig“. Pétur svarar á sama hátt og áður: Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig sem vin. En þegar Jesús spyr í þriðja sinn þá notar hann sömu sögn og Pétur: Elskar þú mig sem vin? og Pétur svarar: Drottinn, þú veist allt. Þú veist ég elska þig sem vin.

Það má vel draga þá ályktun að grundvallarmerking þessa samtals felist í sögnunum agape og fileo. Sögnin agape merkir venjulega sjálfsfórnandi kærleik eða skilyrðislausa ást en sögnin fileo er yfirleitt notuð um kærleik milli vina. Þó vissulega sé erfitt að koma merkingu þessara sagna yfir á íslensku, og verður ekki gert hér, er óhætt að fullyrða að í þeim felist ákveðinn merkingarmunur.

Með því að nota sömu sögn og Pétur í lok samtalsins kemur Jesús til móts við Pétur sem treystir sér ekki til, og veit að hann er ekki fær um, að elska á sama hátt og Jesús. Við skulum hafa í huga að agape nær yfir ást af heilindum, algjöra, skilyrðislausa ást. En um leið má segja að með þrítekningunni sé Jesús að „gera heilt“ það sem brotnaði í samskiptum þeirra þegar Pétur afneitaði honum þrisvar. Samtal þeirra felur því í sér sálusorgun – heilun í vissum skilningi.

Með spurningum sínum vill Jesús fá fram hver staða Péturs er gagnvart honum. Pétur, eins og hann var fyrir upprisuna, hefði líklega ekki hikað við að nota sögnina agape en þegar Jesús hefur endurtekið spurninguna þrisvar sárnar Pétri. „Þú veist allt“, segir hann, af hverju spyrðu svona? Það er sárt að gangast við svikunum, afneituninni, en það er enn sárara að horfast í augu við þann sem maður hefur afneitað vegna eigin veikleika. Pétur er niðurbrotinn maður – auðmýktur – hann þekkir stöðu sína, veit að hann hefur brugðist og að hann á sér engar málsbætur, aðrar en þær að hann elskar Jesúm. Sennilega hafa svikin – afneitunin – ekki komið neinum jafnmikið á óvart og Pétri sjálfum. Hvernig gat ég gert þetta? Er ég þá svona? En í stað þess að forherðast og neita að horfast í augu við staðreyndir þá gengst Pétur í einlægni við því sem hann hefur gert. „Þú veist allt“, segir hann við Jesúm, þú veist hvernig ég er, hvernig mér hefur mistekist, hvernig ég hef brugðist.

Með því að vísa til alvitundar Jesú, þess að Guði er ekkert hulið, viðurkennir Pétur hve alger sekt hans er, hann reynir ekki að bera fram málsbætur, afsakar ekkert, dregur ekkert undan. Jesús tekur ekki þennan sársauka frá Pétri en hann mætir honum af nærgætni.

Þrisvar spyr Jesús og með því lætur hann Pétur ekki aðeins játast sér jafnoft og hann afneitaði, heldur minnir hann á hvað það er sem bindur þá saman – það er kærleikurinn – ekki kærleikur Péturs, heldur kærleikur Jesú Krists. Með því að minna Pétur á kærleika sinn lætur Jesús hann finna að hann skiptir enn máli, að hann gangist við honum og hafi trú á honum þrátt fyrir veikleika og mistök.

Og það er fullvissan um kærleika Jesú sem gerir Pétri kleift að gangast við sjálfum sér eins og hann er í raun og veru, burtséð frá því hvernig hann helst vildi vera. Og það gefur Pétri innri sátt, hugrekki og þrek til þess að rísa upp, þannig að hann geti notað veikleika sína til að styrkja aðra – styrkja kirkjuna. Því maður sem þekkir eigin breyskleika hefur skilning á breyskleika annarra, þeirra sem einnig eru veikir og vanmáttugir. Með því að hjálpa Pétri til að gangast við sjálfum sér gerir Jesús honum kleift að þjóna náunganum, gæta þeirra sem Jesús elskar einnig.

Í lok samtalsins útskýrir Jesús það sem Pétur hefur reynt á sjálfum sér. Það er ekki eitthvað einstakt, bundið við hann sjálfan, heldur almennur mannlegur breyskleiki. Veruleiki sem við öll þurfum að horfast í augu við á lífsleiðinni, veruleiki sem veldur okkur sársauka og vonbrigðum en getur líka leitt okkur til aukins þroska. Veruleiki sem við mætum bæði í okkur sjálfum og samferðafólki okkar.

Þegar þú varst ungur bjóstu þig sjálfur og fórst hvert sem þú vildir en þegar þú ert orðinn gamall munt þú rétta út hendurnar og annar býr þig og leiðir þig þangað sem þú vilt ekki.

Þegar þú varst ungur heyrðir þú aðeins í sjálfum þér en þegar þú ert fullorðin þá heyrirðu líka í öðrum og þú auðmýkir þig.

Og er það sem henti Pétur ekki einmitt það sama og hefur hent sum okkur sem einstaklinga – jafnvel þjóð? Höfum við ekki mörg hver gengið fram í eigin vilja, skellt skollaeyrum við úrtölum, ekki hlustað á þau sem vöruðu við því að við fetuðum ranga braut, eyddum meira en við ættum fyrir, lofuðum meira en við gætum staðið við. Íslenska þjóðin var framkvæmdarsöm í útrás til betra lífs, betri lífsgæða. En var ekki eitthvað sem við áttuðum okkur ekki á, eitthvað sem við skildum ekki? Hvenær galaði haninn? Hvenær helltist yfir okkur skömmin og síðar reiðin? Erum við þá svona? Hvað vorum við að hugsa? Hvað er það sem skipir okkur raunverulega máli? Förum við nú þangað sem við ætluðum eða erum við leidd eitthvað annað?

Grundvallarþáttur kristinnar trúar er auðmýkt. Það er fyrst þegar Pétur verður auðmjúkur gagnvart Jesú sem hann verður hugaður gagnvart heiminum. Því sá sem óttast Guð, hann óttast ekki heiminn. „Fylg þú mér˝, sagði Jesús við Pétur og Jesú verður aðeins fylgt í auðmýkt.

Það ber að hafa í huga að Pétur var ekki valinn til prestsþjónustu vegna þess að hann hafi verið betri eða fullkomnari en aðrir menn. Nei, en hann er maður sem þekkir galla sína og hefur gengist við þeim í auðmýkt. Það er hans styrkleiki og í krafti hans getur hann mætt öðru fólki þar sem það er statt í lífinu sem vinur og sálufélagi. Hann er ekki hirðir sem tekur lömbin upp á axlir sér þangað sem erfiðleikar lífsins ná ekki til þeirra.

Kirkja krists er kærleikssamfélag. Drifkraftur þess sem leiðir starf kirkjunnar á að vera kærleikurinn til Jesú. Allt starf kirkjunnar, hvort sem það felst í verkum, huggunarorðum, ráðleggingum eða áminningum á að spretta af kærleikanum til Guðs.

Það sama á við um okkur og Pétur, við játum, erum fullyrðingaglöð, misstígum okkur, efumst, höfnum og iðrumst. Lífið með Jesú er ganga þar sem við erum sífellt að takast á við okkur og okkar mannlegu takmarkanir.

Starf prestsins getur verið vandasamt en á sama hátt og Jesús gekk með Pétri þá gengur hann með okkur og styður okkur. Við höfum því ekkert að óttast, verum hugrökk og leyfum Jesú að leiða okkur í kærleika sínum til góðra verka í heiminum.

Fylgjum honum!