Nú er sjöundi mánuður ársins, júlí, og sumarið allt um kring. Blessuð sólin vermir landsmenn og sumarleyfin eru í algleymingi. Þetta er yndisleg tíð enda vetrarmyrkrin fjarri. Nú gefst góður tími til íhugunar, meðal annars um leynda og gleymda merkingu daga og vikna ársins. Talan sjö er ein helgasta tala fornaldarinnar og á sér margar skírskotanir. Upphaflega tengist hún efa tungldýrkuninni, því tunglmánuðurinn er 28 dagar, eða 4 x sjö dagar. Sem gerir töluna fjóra einnig mjög helga. Frumefnin voru áður talin fjögur, jörð, vatn loft og eldur. Guðspjöllin voru fjögur. Verurnar kringum hásæti Guðs í Opinberunarbókinni voru fjórar. Íslensku landvættirnir eru fjórir. Jörðin var sögð hafa fjögur horn enda ekki talin kringlótt heldur ferhyrnd eins og síðar varð og þess vegna eru tilgreindar fjórar höfuðáttir á áttavitanum. Vindarnir blása þannig úr fjórum höfuðáttum. Árstíðirnar eru fjórar, menn voru taldir hafa fjórar skapgerðir og þannig mætti lengi telja. Talan fjörtíu tengist tölunni fjórir. Meðgangan er fjörtíu vikur. Nóaflóðið stóð yfir í fjörtíu daga og fjörtíu nætur. Ísraelsmenn voru fjörtíu ár í eyðimörkinni á flakki. Jesú var freistað í fjörtíu daga í eyðimörkinni og föstutímabil kirkjunnar frá öskudegi og fram að páskum er fjörtíu dagar.
En aftur að tölunni sjö. Tunglið var tignað sem móðurgyðjan til forna en sólin var hið karllega eðli alheimsins. Það skýrist af því að tíðahringur kvenna fellur saman við tunglmánuðinn og þess vegna töldu menn þetta tvennt tengjast í tunglgyðjunni. Tunglmánuðurinn gæti síðan hafa verið rótin að skiptingu vikunnar í sjö daga og mánaðarins í fjórar vikur. Og talan sjö varð undirstaða tilverunnar. Þannig skapaði Guð heiminn á sjö dögum samkvæmt Fyrstu Mósebók. Forfeður okkar gátu greint sjö himinhnetti á festingunni með berum augum og undirstrikaði það gildi tölunnar. Það voru sólin, tunglið og fimm plánetur. Þessi helgi einskorðaðist langt í frá við hinn gyðing-kristna heim. Samkvæmt Zóróastertrúnni í Persíu voru erkienglarnir sjö, en gyðingdómur, kristni og íslam tóku þá í arf. Pýþagóras hinn gríski nefndi sjö tóna á tónstiganum. Síðar var talað um hinar sjö frjálsu listir hjá Grikkjum. Undur heimsins voru sjö. Í hebreskum lögum var sjö talan sem lokaði ákveðnum hring eða endaði ákveðið tímabil, eins og hinn sjöundi dagur sköpunarinnar endaði sköpunarferlið. Sáttmálaþjóðin eins og Ísraelsmenn kölluðu sig tilbáðu Guð sinn á hinum sjöunda degi, sabbatinum eða hvíldardeginum. Fólkið gekk sjö hringi kringum Jeríkó á sjö dögum áður en múrar borgarinnar féllu og íbúar hennar urðu Ísraelum að bráð samkvæmt hinni fornu Jósúabók sem fjallar um innrás Hebrea í Palestínu. Í fararbroddi voru sjö prestar sem blésu í sjö lúðra. Salómon konungur var í sjö ár að byggja musteri sitt í Jerúsalem. Margarar hátíðir Gyðinga stóðu yfir í sjö daga og sjö vikur líða milli páska og hvítasunnu hjá kristnum mönnum, sem tengist helgidagaalmanaki Gyðinga. Ísraelsmenn ræktuðu landið í sex ár en hvíldu það hið sjöunda. Hringrás sjö sabbattsára stóð yfir í 49 ár, en eftir það kom eitt ár þegar öll vinna lá niðri. Þetta var hátíðar og þakkargjörðarár. Þá fengu allir þrælar frelsi, menn fyrirgáfu hver öðrum og gáfu upp skuldir og nýtt tímabil hófst. Jesús sagði að maður ætti að fyrirgefa óvini sínum ekki aðeins sjö sinum, heldur sjötíu sinnum sjö sinnum.
Talan sjö gengur aftur sem helgitala í kristnum sið og í sögu Evrópu. Á miðöldum þjónaði lærlingur meistara sínum í sjö ár. Sjö var talin tala eilífðarinnar og fullkomnunarinnar. Í grískri helgifræði tengdist talan gyðjunni Pallas Aþenu og Viskunni en varð í kristnum sið tala hins heilaga anda því gjafir hans eru sjö. Dyggðirnar eru sjö og dauðasyndirnar sjö sömuleiðis. Eins og erkienglarnir eru sjö, þá eru forystudjöflarnir sjö. Helgi tölunnar sjö nær einnig til austrænna trúarbragða. Þannig eru orkustöðvarnar sjö í hindúísku jóga og helgasta Mandala búddisman, sem táknar frækorn lífsins hefur sjö hringi.
Og svona mætti lengi telja.