Allra heilagra messa 2013.
Náð sé með ykkur og friður, frá Guði föður okkar og Drottni, Jesú Kristi. Amen.
Í dag höldum við upp á allra heilagra messu og minnumst ástvina sem látist hafa. Við tileinkum þeim ástvinum okkar sem hafa fallið frá, þennan dag og biðjum fyrir þeim. Öll eigið þið að hafa fengið steinvölu í hendurnar. Er hún tákn um fyrirbænir okkar þeim til handa. Veltið steininum smástund í hendinni og hugsið til ástvinar ykkar sem horfinn er. Í almennu kirkjubæninni, söfnum við steinunum saman, fyrirbænarefnunum og leggjum þau upp á altari og biðjum góðan Guð að taka á móti þeim og blessa þau.
Allra heilagra messa er haldin um víða veröld þar sem beðið er fyrir hinum látnu. Það er gott að biðja fyrir látnum ástvinum, það gerir ástvinamissinn auðveldari, það er alla vega mín reynsla. Eins og flestir hér vita, missti ég manninn minn í maí síðastliðnum og þá var það trúin á Jesú Krist, sem aldrei yfirgefur okkur og trúin á það að hann hjálpar okkur, sem gerði veikindi eiginmanns og andlát léttbærara. Kristur kom mér yfir þann erfiða hjall að sjá á eftir ástvini. Bænin hefur ótrúlega mikinn og magnaðan kraft. Það fundum við sem vorum í kringum manninn minn. Þeir sem biðja fyrir hinum veiku og deyjandi geta með bæninni veitt hjálp sem ekki bregst þegar öll önnur sund lokast.
Á hverjum morgni byrja ég daginn á því að kveikja á kerti og bið algóðan Guð að passa ástina mína þar til við hittumst á ný. Þetta hefur komið mér í gegnum erfiðustu stundir lífsins.
Það er ekki sama hvernig við förum í gegnum sorgina. Það að minnast hins látna, halda minningu viðkomandi lifandi, hjálpar okkur í gegnum sorgarferlið. Sum okkar þurfa meiri aðstoð til að komast yfir sorgina en aðra, það er bara eins og lífið er. Þau sem bera harm sinn í hljóði eiga oft erfiðara með að komast yfir sorgina, heldur en þau sem deila henni með öðrum. Ýmis samtök styðja einstaklinga og hópa í þeirra sorg. Samtökin Ný dögun, eða sorgarsamtökin eru í tengslum við flestar ef ekki allar kirkjur landsins og styðja þau sem það kjósa. Í dag fara aðstandendur út í kirkjugarð og kveika kerti á leiðum ástvina sinna. Starfsfólk kirkjugarðanna eru til taks og selja kerti á leiðin. Einnig er helgistund og tónleikar í Fossvogskirkju sem byrjar nú kl. 14.00 til kl. 16.00. Fólk getur komið og farið eftir eigin hentugleika.
Þegar krakkarnir mínir voru litlir og voru að fara í sínar fyrstu ferðir án okkar foreldranna, þá bað ég Guð að passa þau þar sem ég gat það ekki sjálf. Alltaf leið mér betur. Þegar ástvinur okkar leggur upp í langferð sem dauðinn er í okkar augum, er gott að vita að Guð fylgir honum. Um áfangastaðinn sem bíður ástvinar vitum við næsta lítið, nema það eitt að þar ræður ríkjum almættið, kærleikurinnn og allt það besta sem við getum gert okkur í hugarlund.
Ég man eftir því þegar krakkarnir mínir fóru í sumarbúðir á vegum KFUM og KFUK að ég fékk að hringja í sumarbúðirnar og heyra hvað væri að frétta. Ég mátti ekki heyra í þeim sjálfum því það gæti vakið heimþrána, en fékk fréttir af þeim og fékk að heyra að allt væri í góðu lagi og þau í góðum höndum.
Þannig er bænin mín á morgnana. Góði Guð. Blessaðu börnin mín, barnabörn og tengdabörn. Blessaðu ástina mína sem þú hefur kallað til þín og segðu honum að ég elski hann. Viltu gæta hans vel þar til þú leiðir okkur saman að nýju. Eftir bænina líður mér betur í hjartanu og ég er örugg og viss að ástin mín hefur það gott.
Það er gott bæði fyrir þá sem horfnir eru að við biðjum fyrir þeim, eins er það gott fyrir okkur sem eftir sitjum. Það er gott að kveika á kerti fyrir hinn látna, en í dag ætlum við að láta steinvöluna sem við öll höfum fengið, koma í stað kertisins og minna okkur á ástvini okkar. Steinvalan er áþreifanleg bæn þar sem við biðjum skapra okkar allra að vernda þann sem hann hefur kallað til sín til annrra verka.
Árið 1980 fór Guðmundur, maðurinn minn til Svíþjóðar til náms. Hann fór á undan mér og strákunum mínum sem þá voru litlir, tíu mánaða og tveggja ára. Hann fór og kynnti sér aðstæður úti og fann fyrir okkur húsnæði sem beið mín og drengjanna þegar við fórum út mánuði síðar. Guðmundur fór sem sagt á undan til að búa okkur stað. Í 14. kafla Jóhannesarguðspjalls 3. versi segir Jesús:,, þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er.
Kristur fór fyrstur og bjó okkur stað. Hann fór á undan og undirbjó komu okkar í himnaríki þar sem við munum dvelja í vistarverum Guðs sem eru margar og sennilega mismunandi. Óvissa okkar um það hvað tekur við að lífi loknu gerir það að verkum að við óttumst dauðann og óttumst um ástvini okkar þegar þeir hverfa héðan á braut. Lýkur lífinu við dauðann? Margir eru vissir um það að þegar við tökum síðustu andartökin þá ljúki þessu endanlega.
Ég er þess fullviss að Guðmundur minn er önnum kafinn í verkefnum sem honum hafa verið falin. Ég er þess líka viss að hann gerir allt klárt fyrir komu mína þegar þar að kemur. Ég er viss um að almættið sér til þess að við sameinumst að nýju að jarðvist minni lokinni. Ég treysti orðum Krists þegar hann segir að hann fari á undan og búi okkur stað. Öll erum við einstök í augum Guðs og ekkert getur gert okkur viðskila við kærleika hans. Jafnvel dauðinn fær ekki slitið okkur úr kærleiksríkum faðmi hans. Kristin trú boðar að þegar hinu jarðneska lífi lýkur, taki við hið eilífa líf með Guði.
Í guðspjalli dagsins í dag er Jesús að tala við lærissveina sína og lýsir þeim svo: ,,Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.” segir hann. Salt var gífurlega verðmætt á þessum tíma. Mörg dæmi eru um það að hermönnnum Rómarveldis hafi verið greidd laun með salti. Um þá hermenn sem ekki stóðu sig í starfi var sagt að þeir væru ekki saltsins virði. Ýmsar tilvísanir eru til um mikilvægi saltsins og má þá nefna að á ensku er sagt um sómafólk að það sé salt jarðar. Eins og við öllum vitum þá ýtir saltið undir bragðið í matnum og bragðbætir bragðlausan mat. En hvað á Jesús við með því að við séum salt jarðar? Hægt er að túlka textann á ýmsa vegu. Ef litið er á textann sem kemur á undan guðspjallinu, sem er sjálf fjallræðan og sælubooðin, þá fer málið ef til vill eitthvað að skýrast. Ef við förum eftir sæluboðunum og reynum að líkjast Kristi, reynum að feta í fótspor hans, þá getum við nálagumst það að vera salt jarðar.
Oft hefur verið spurt að því, hvernig salt geti dofnað. Salt er salt og getur aldrei orðið neitt annað en salt, ekki frekar en vatn geti orðið þurrt. Í raun var salt á tímum Jesú ekki hreint salt. Salt er sódíum klóríð, en á hans tíma var það blandað öðrum steinefnum, þannig að hreina saltið hreinsaðist oft frá og eftir varð efni sem skorti saltbragð. Við erum salt jarðar. Sem Guðs börn eigum við að halda í kryddið eða saltið og gleyma ekki uppruna okkar sem Guðs börn. ,,Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum!” segir Jesús. Á fyrstu öldinni þegar saltið missti salta bragðið, var því hent á gangstíga þar sem fólk vildi fá harðan jarðveg, því að saltið hafði þau áhrif á jarðveginn að hann harðnaði. Önnur útskýring á textanum getur verið sú að myndlíkingin þýði að Jesús ætli alls ekki að fleyja þeim sem misst hafa kraftinn, heldur á hann við að þeir eru gagnslausir í boðuninni og því hlutverki sem Jesús hefur kallað lærissveina sína til. Í raun á þetta við um kirkjuna alla og alla þá sem boða trú að þeir gefi forsmekkinn á því sem í vændum er sem fylgja honum.
Maður stóð á flóamarkaði og reyndi að selja gömul hljóðfæri. Sum voru heil, önnur léleg, jafnvel bara drasl. Enginn leit við þeim. Þá kom þar að roskinn herramaður, skyggndist um og kom auga á gamla fiðlu. Hún var ekki merkileg að sjá, meira að segja var stóllinn brotinn og strengirnir slitnir og horfnir. Leyfðu mér að líta á þessa fiðlu, sagði maðurinn. Hann tók hana í hönd sér og fór varfærnislegum höndum um hana, sneri henni á alla kanta, lyfti henni svo upp í ljósið og leit inn í hana. Fólkið á markaðinum nam staðar og varð starsýnt á alvörusvipinn á manninum. Grafarþögn sló á hópinn þegar maðurinn lagði fiðluna að hjarta sér eins og lítið barn og sagði við sölumanninn: Ég skal borga þér tvær og hálfa milljón fyrir þessa fiðlu. Þetta gat enginn skilið. Hann hefur mismælt sig, okkur hefur misheyrst, hugsuðu menn. En maðurinn endurtók með miklum alvöruþunga: Ég skal borga þér tvær og hálfa miljón fyrir þessa fiðlu. Þegar hann hafði borgað fyrir fiðluna og gekk burtu var hans spurður: Hvers vegna borgaðirðu svona mikið fyrir þetta fiðluskrifli? Vegna þess, sagði hann, að ég sá Stradivaríus-merkið í henni! En eins og við vitum eru Stradivaríus -fiðlur meðal allra bestu og dýrmætustu hljóðfærum heims.
Allt frá því að við fyrst lítum dagsins ljós erum við Guði merkt og nafn okkar hefur Guð ritað í hjarta sitt. Hann segir: ég frelsa þig. Ég kalla þig með nafni. Þú ert minn.(Jesaja 43.1)
Rétt eins og fiðlan erum við meira virði en við oft gerum okkur grein fyrir. Sérhvert okkar höfum í gegnum tíðina gert mistök í lífinu og velt því fyrir okkur hvort Guð elski okkur í raun og veru þrátt fyrir allt það sem betur mátti fara í lífinu. Ef til vill voru tækifæri í lífinu sem komu og við nýttum ekki. Erum við saltið sem hefur dofnað? Salt sem hefur misst verðmæti sitt? Fiðla sem man sinn fífill fegurri? Höfum við aftengt okkur Guði? Leitum við til hans þegar á móti blæs, á erfiðustu stundum lífsins?
Guð er engum nær en þeim sem syrgja og sakna. Styrkjum okkur í trúnni með því að leita til hans þegar við syrgjum ástvin. Styrkjum böndin við hann og treystum honum. Í 41. kafla Jesaja stendur: Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með sigrandi hendi minni.
Guð blessi minningu ástvinar þíns.