Þú ert svarið

Þú ert svarið

Hlutverk okkar eru misjöfn. Hver er á sínu sviði og í sínu hlutverki. Við berum gott fram úr góðum sjóði hjartans ef við erum þess meðvituð að allt okkar líf og allt okkar starf er þjónusta við náungann. Þið, kæru þingmenn, eruð til þjónustu reiðubúin fyrir land og þjóð. Ég óska ykkur til hamingju með kjörið og bið ykkur blessunar Guðs í vandasömum störfum.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
06. júní 2013
Flokkar

Komin í stólinn. #thingsetning

Einn úr mannfjöldanum sagði við Jesú: „Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.“

Hann svaraði honum: „Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?“ Og hann sagði við þá: „Gætið ykkar og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“

Þá sagði Jesús þeim dæmisögu þessa: „Maður nokkur ríkur átti land er hafði borið mikinn ávöxt. Hann hugsaði með sér: Hvað á ég að gera? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum. Og hann sagði: Þetta geri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.

En Guð sagði við hann: Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð og hver fær þá það sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé en er ekki ríkur í augum Guðs.“ Lúk 12.13-21

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Eftirvænting liggur í loftinu. Fyrsta þing nýs kjörtímabils er að hefjast. Þjóðin ber miklar væntingar til nýrrar stjórnar og þingheims alls og biður þess að blessun fylgi störfum ykkar fyrir land og þjóð. Það er þakkarvert að fólk gefi kost á sér til þingstarfanna. Fólk sem vill láta gott af sér leiða til heilla fyrir samfélagið og framtíð þjóðarinnar. Þeim er einnig þakkað sem þjónað hafa á vettvangi þings og stjórnar á liðnum árum.

Alþingi gegnir miklu hlutverki og því mikilvægt að þjóðin standi á bak við fulltrúa sína og styðji til góðra verka . Fyrir 1000 árum eða svo gerði Alþingi, þá samankomið á Þingvöllum sáttmála fyrir hönd þjóðarinnar. Þar var fest í lög „að allir menn skyldu kristnir vera og skírn taka.....“ Það var talin forsenda friðar í landinu að við hefðum „ein lög og einn sið“. Sáttmálanum var skipað í öndvegi og var gerður að upphafi laga vorra, eins og segir í hinni fornu lögbók Grágas. Sáttmálinn var grunnstefið sem öll önnur lagasmíð skyldi miðuð við. Síðan hefur kristni mótað menningu okkar og löggjöf.

Þátttaka þingheims og gesta í guðsþjónustu fyrir þingsetningu ár hvert minnir á þennan sáttmála er Alþingi gerði fyrir hönd þjóðarinnar á Þingvöllum forðum. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar stendur að íslensk þjóðmenning verði í hávegum höfð, en sú menning er sprottin úr þeim kristna jarðvegi er festur var á Þingvöllum forðum.

Við erum hluti af heild. Hlekkir í keðju sögunnar, sem var, er og verður. Það er ástæða fyrir öllu, fátt er bara af því bara. Það er merking á bak við atburði, hefðir myndast og siðir verða til. Þingmenn ganga inn í hefðir sem hafa orðið til fyrir margt löngu og tileinka sér siði sem þar tíðkast. Þar er borin virðing fyrir því sem var og verður.

Fáar stéttir hafa jafnmikil áhrif á daglegt líf og framtíð þjóðarinnar og þingmenn og ráðherrar. Það er því nauðsynlegt að standa á traustum grunni, en jafnframt vera meðvitaður um samtímann og möguleika framtíðarinnar. Almannahagur skal vera ofar í huga en einkahagsmunir.

* * *

Hann var ekki með þetta alveg á hreinu maðurinn sem fjallað var um í dæmisögunni í guðspjallinu sem lesið var frá altarinu áðan. Framtakssamur var hann, hann má eiga það. En samfélagslega var hann ekki þenkjandi. Hann var eitt stórt ég. Ég geri, ég segi, ég ríf, ég safna sagði hann. Hann hefði sennilega ekki tekið undir setninguna í nýja stjórnarsáttmálanum: „Samfélag er samvinnuverkefni þar sem öll störf skipta máli og haldast í hendur“. Hann var ríkur, átti land er hafði borið mikinn ávöxt og hafði ekki húsnæði fyrir alla uppskeruna. En hann fann ráð við því: „Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum“ sagði hann. Hann byggði ekki við gömlu hlöðurnar eða fjölgaði þeim, heldur reif niður og byggði stærri hlöður. Græðgin náði tökum á honum.

Þetta er auðvitað ein leið til að bjarga málum, að rífa niður og byggja nýtt. Sjaldnast er það þó í boði fyrir hinn venjulega mann. Nýtni hefur verið talin dyggð, en ekki græðgin. Enda verður sálinni ekki bjargað með veraldlegum auði, eins og fram kemur í guðspjallinu. „Gætið ykkar og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“

Ríki maðurinn í sögunni hafði margt til brunns að bera, en sjálfhverfa hans varð þess valdandi að hann fékk þungan dóm: „Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð og hver fær þá það sem þú hefur aflað?

Það eru margar hliðar á málunum. Þó ríki maðurinn hafi verið ánægður með hlutskipti sitt voru það ekki allir. Og þannig er það í sérhverju máli. Það vita þingmenn manna best að hægt er að líta málin frá mörgum sjónarhornum.

Viðhorf okkar og skoðanir byggjast meðal annars á reynslu okkar. Reynslan mótar okkur. Tveir menn geta litið sömu sýn á ólíkan hátt. Ég las gamla sögu af tveimur mönnum listmálara og timburkaupmanni, sem báðir stóðu og horfðu á sólarlagið, þar sem sólin hné í roða bak við marglitan haustskóginn. Eftir langa þögn mælti listmálarinn: "Dásamleg sýn, þetta er alveg dýrlegt". Og timburkaupmaðurinn, sem einnig var í þungum þönkum, svaraði og sagði: "Satt segir þú. Þetta er afbragðs timbur. Mér reiknast til, þegar áætlað er fyrir skógarhöggi og flutningi, að maður gæti selt það fyrir 3 krónur fetið".

Þessir tveir menn lifðu sinn í hvorum heimi, þótt þeir horfðu báðir til sömu áttar. Og þannig er það og verður í þingsal. Mörg sjónarhorn koma fram sem taka þarf tillit til þegar niðurstöðu er náð. Náttúran okkar getur til dæmis verið falleg eins og marglitur haustskógurinn en einnig getur hún gefið umtalsverð verðmæti. Það er mikilvægt verkefni Alþingis og stjórnvalda að finna jafnvægið milli náttúruverndar og náttúrunýtingar.

Tilefni þess að Jesús sagði dæmisöguna af gráðuga bóndanum er beiðni sem hann fékk. Sá er bað vildi að Jesús yrði skiptastjóri arfs. Jesús svaraði bóninni með varnaðarorðum: „Gætið ykkar og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“ Þessi orð Jesú eru okkur öllum holl áminning. Í framhaldi af þessum varnaðarorðum er sagan sögð af ríka manninum sem hélt að nú yrði sála hans róleg og lífið yrði auðvelt og ljúft. En hann gleymdi einu. Hann gleymdi því að stærri og fleiri eignir kalla á meiri vinnu og hann geymdi því að maðurinn lifir ekki á einu saman brauði. Fæða líkamans er eitt. Fæða sálarinnar annað.

Á sjúkrahúsi var prófessor nokkur, vísindamaður í heimsókn. Þar sem hann sat og spjallaði við starfsfólkið spurði einn hjúkrunarfræðingurinn: Hvað getur maður sagt þegar fólk spyr um tilgang þjáninganna? Fólk sem veit að það fær aldrei bata. Fólk sem getur ekki lifað án þjáninga. Fólk sem veit ekki til að nokkur hirði um það - ekki einu sinni Guð. Hvað get ég sagt þessu fólki?

Prófessorinn svaraði stilltur og fastmæltur: Þessi umhugsun lætur mig heldur aldrei í friði. Það sem ég kemst næst sanni og starfa eftir er það að þú ert svarið og ég er svarið. Þar sem þú veist að þín er þörf, þar ert þú svarið.

Sá sem er nærri er svarið. Sá eða sú sem er nálægur, sá sem sýnir umhyggju, hlustar, hjálpar - sá hinn sami er kærleikurinn holdi klæddur. Fólk sem er til staðar þegar annað fólk þarf þess með það ber gott fram úr góðum sjóði hjarta síns.

Hlutverk okkar eru misjöfn. Hver er á sínu sviði, sínum stað og í sínu hlutverki. Við berum gott fram úr góðum sjóði hjartans ef við erum þess meðvituð að allt okkar líf og allt okkar starf er þjónusta við náungann. Þannig erum við öll þjónar í einni eða annarri merkingu. Þið, kæru þingmenn, eruð til þjónustu reiðubúin fyrir land og þjóð. Ég óska ykkur til hamingju með kjörið og bið ykkur blessunar Guðs í vandasömum störfum.

Kirkjan hefur það hlutverk að gæta menningarverðmæta þjóðarinnar. Hún hefur það hlutverk að þjóna öllum þeim er til hennar leita. Hún hefur það hlutverk að boða kristna trú í orði og í verki og hún hefur það hlutverk að biðja fyrir þeim sem vandastörfum gegna í almannaþágu, forseta, Alþingi og ríkisstjórn sem og öllum öðrum. Kraftur Guðs er að verki í heiminum, hér mitt á meðal okkar. Við erum verkfæri hans hér á jörð, til að gera heiminn betri, heilli og öruggari. Til að svo megi verða þurfum við öll að leggja okkur fram í þjónustunni við Guð og menn, sama hvaða starf eða hlutverk við höfum. Guð blessi ykkur í lífi og starfi og þjónustu allri og gefi árangursríkt starf.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

The Answer is You - prédikunin á ensku