Græðgin

Græðgin

Græðgi er sá löstur að fá aldrei nóg, vilja sífellt meir og meir, hugsa um það eitt að skara eld að eigin köku, án þess að láta sig aðra skipta. Græðgin var til forna flokkuð sem ein af hinum sjö höfuðsyndum. Umræðan nú hefur að mestu snúist um ákveðin dæmi græðginnar sem hafa komið upp á yfirborðið.

Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs, komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem og sögðu: Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Vér sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu.

Þegar Heródes heyrði þetta, varð hann skelkaður og öll Jerúsalem með honum. Og hann stefndi saman öllum æðstu prestum og fræðimönnum lýðsins og spurði þá: Hvar á Kristur að fæðast?

Þeir svöruðu honum: Í Betlehem í Júdeu. En þannig er ritað hjá spámanninum: Þú Betlehem, í landi Júda, ekki ertu síst meðal hefðarborga Júda. Því að höfðingi mun frá þér koma, sem verður hirðir lýðs míns, Ísraels.

Þá kallaði Heródes vitringana til sín á laun og grófst eftir því hjá þeim, nær stjarnan hefði birst. Hann sendi þá síðan til Betlehem og sagði: Farið og spyrjist vandlega fyrir um barnið, og er þér finnið það látið mig vita, til þess að ég geti einnig komið og veitt því lotningu. Þeir hlýddu á konung og fóru. Og stjarnan, sem þeir sáu austur þar, fór fyrir þeim, uns hana bar þar yfir, sem barnið var.

Þegar þeir sáu stjörnuna, glöddust þeir harla mjög, þeir gengu inn í húsið og sáu barnið og Maríu, móður þess, féllu fram og veittu því lotningu. Síðan luku þeir upp fjárhirslum sínum og færðu því gjafir, gull, reykelsi og myrru. En þar sem þeir fengu bendingu í draumi að snúa ekki aftur til Heródesar, fóru þeir aðra leið heim í land sitt. Matt 2:1-12

Þá eru jólin á enda. Þrettándinn er liðinn og nú taka við á ný hversdagslegir dagar með hversdagslegu amstri. Við pökkum niður jólaskrautinu og slökkvum á jólaljósunum og reynum að drífa okkur í að hreinsa endanlega upp allt ruslið eftir gamlárskvöld. Skólarnir eru byrjaðir aftur eftir jólafrí og börnin komin í fasta rútínu. Og þó það hafi verið erfitt að mæta í skólann fyrsta daginn eftir jólafrí þegar börnin eru búin að snúa sólahringnum við, þá venst það fljótlega aftur. Allt er sem sagt orðið eins og það á að sér að vera, nema auðvitað Alþingi sem enn er í jólafríi.

Og í raun og veru þá er það hið besta mál að hvunndagurinn taki við á ný. Það væri víst lítið varið í hátíðahöld ef allir dagar væru jól. Hluti af því sem gerir hátíðina svona hátíðlega er einmitt það að hún er hátíð, sérstakur tími, frátekinn fyrir gleðina og góðar stundir. Þess vegna finnst mér hin miklu veisluhöld á aðventu að einhverju leiti skemma hátíðina. Sumir eru búnir að borða svo yfir sig á jólahlaðborðum þegar jólin loksins renna upp að þeir hafa varla list á jólamatnum.

Hvunndagurinn er nú heldur engin bölvun í sjálfum sér sem við verðum að þrælast í gegnum fram að næstu hátíð ef við hugsum út í það. Lífið allt getur verið fullt af gleði við hin hversdagslegu störf bæði í vinnunni og áheimilinu. Þannig loka kirkjur landsins til dæmis ekki eftir jólin og fram að páskum, þó sumir kannski haldi það. Nei, í kirkjunni göngum við áfram veginn með Jesú okkur við hlið og höldum áfram að skoða líf okkar og tilveru í ljósi hans frá degi til. Og það er einmitt það sem við ætlum okkur að gera í dag.

Jólaguðspjallið um fæðingu Jesú er aðeins upphafið að mikilli sögu. Í dag fengum við að heyra fyrsta kaflann af þeirri sögu sem í raun er ekki enn á enda, því við erum hluti af henni. Alla vega erum við framhaldssagan sem er skrifuð á hverjum degi.

Frá fæðingu var lífi Jesú ógnað eins og við heyrðum í frásögn guðspjallsins. Hann var af fátæku fólki kominn. En það er til þessa fátæka fólks sem vitringar frá austurlöndum koma til að hylla hann og veita honum lotningu sína. Guðspjallið segir okkur ekkert um hvaðan vitringarnir komu eða hversu margir þeir voru en í helgisögum eru þeir sagðir þrír og kallast þar Kasper, Baltasar og Melkíor. Í sumum kirkjudeildum, t.d. í sýrlensku kirkjunni, eru þeir taldir 12. Líklegast hafa þeir verið stjörnuspekingar frá Persíu þar sem nú er Írak og Íran. Þar búa margir kristnir menn enní dag þó það fari ekki hátt og telur kirkjan í Írak að vitringarnir hafi verið 24. Þeir eru greinilega stoltir af sínu fólki austur þar.

Hvað um það, þá leituðu vitringarnir til konungsins sem réði yfir Júdeu til að fá fregnir af hinum nýfædda frelsara heimsins sem þeir töldu sig hafa einhverja vitneskju um. Sá konungur hét Heródes og var kallaður hinn mikli. Heródes varð óttasleginn þegar hann frétti af fæðingu frelsarans og reyndi að plata vitringana til að koma upp um dvalarstað hans. En vitringarnir fengu viðvörun í draumi frá Guði og héldu heim á ný eftir að hafa vottað Jesú virðingu sína, án þess að segja til hans. Jósef fær líka viðvörun frá Guði í draumi og flýr með Maríu og Jesú yfir alla Sínaíeyðimörkina og til Egyptalands þar sem fjölskyldna fær skjól, efalaust meðal Gyðinga sem þá voru fjölmennir í Alexandríu.

Þegar Heródes fréttir af brotthvarfi vitringanna rennur á hann mikið æði og lætur hann myrða öll sveinbörn í Betlehem og nágrenni. Okkur þykir efalaust frásögn guðspjallsins af þessu atburðum næsta ótrúleg. En Heródes var hinn versti harðstjóri. Hann ríkti yfir Júdeu í umboði Rómverja á árunum 39 fyrir Krist og til 6 eftir fæðingu Krists og var hataður af heimamönnum. Til að halda fólkinu niðri beitti hann hervaldi og mikilli grimmd með fulltingi rómverska hersins. Græðgi hans í völd og gull var slík að hann eyrði engu. Þannig lét hann myrða eiginkonu sína og þrjá syni þeirra af því að hann óttaðist að drengirnir myndu ræna hann öldum þegar þeir yrðu fulltíða. Og skömmu áður en hann dó lét hann varpa dóttur sinni í dýflisu þar sem hún veslaðist upp. Hann hafði enga virðingu fyrir trú og siðum Gyðinga og rændi helgistaði landsins til að komast yfir fé. Mest af öllu óttaðist hann sögur um messías, frelsara mannanna. Því brást hann við frétt vitringanna eins og harðstjórar allra tíma, með morðum og blóðsúthellingum.

Þegar Heródes konungur féll frá 4- 6 árum eftir fæðingu Jesú gátu Jósef, María og Jesú snúið heim á ný frá Egyptalandi til Nasaret, þar sem Jesús ólst upp, elskaður af öllum. En það er af Heródesi konungi að segja að hann dó einn og yfirgefinn, fyrirlitinn meira að segja af hermönnum sínum, umkringdur engu nema gullinu sem hann elskaði svo mjög.

Við látum hér staðar numið í frásögn guðspjallsins af hinum dramatísku atburðum sem urðu í kringum fæðingu Jesú. Guðspjallið dregur ekki upp neina glansmynd af tilverunni frekar en fyrri daginn, heldur segir það sögu okkar mannanna á raunsannann hátt. Hún er því miður oft óhugguleg og sorgleg. Þar ræður valdafíknin og græðgin oftar en ekki för. Heródes konungur er ekkert einsdæmi.

Reyndar hefur græðgin verið heilmikið til umræðu hér á landi að undanförnu. Græðgi er sá löstur að fá aldrei nóg, vilja sífellt meir og meir, hugsa um það eitt að skara eld að eigin köku, án þess að láta sig aðra skipta. Græðgin var til forna flokkuð sem ein af hinum sjö höfuðsyndum. Umræðan nú hefur að mestu snúist um ákveðin dæmi græðginnar sem hafa komið upp á yfirborðið. Allir vita hver þau dæmi eru, en þar er ég að tala um hin ótrúlegu ofurlaun sem fortjórar ýmissa stórfyrirtækja landsins fá, og enn ótrúlegri starfslokasamninga sem þeir njóta. Talað hefur verið um 40-200 milljónir í árslaun þeirra og álíka upphæðir sem þeim eru greiddar fyrir að láta af starfi sínu. Þetta hefur verið réttlætt með því að um svo frábært fólk sé að ræða og að störf þeirra skipti sköpum. Eflaust má það til sanns vegar færa að umræddir forstjórar séu hinir mestu snillingar. En eitthvað hefur það gleymst í öllum þessum bollaleggingum að fyrirtækin eru ekki aðeins forstjórarnir, heldur yrði nú lítið úr verki ef ekki nyti við hins almenna starfsmanns. En engum dettur í hug að launa honum.

Það er reyndar sorglegt að sjá hversu mikil gjá er að myndast hér á landi milli stétta. Margir lifa við fátækramörkin á meðan fáeinir raka til sín ómældum gróða, skara eld að eigin köku. Á meðan sumir þéna frá 40 milljónum á ári, lifa aðrir af einni og minna en það. Og það er eins og hinir ríkari fái aldrei nóg. Græðgin heimtar alltaf meir og meir en það er einmitt einkenni hennar.

Í stað þess að deila ágóðanum milli starfsmanna ef rekstur fyrirtækis gengur vel, er fáeinum gefinn allur auðurinn.

Í stað þess að bæta kjör öryrkja eru laun æðstu embættismanna hækkuð.

En nú er það svo að þessi dæmi sem við öll þekkjum eru aðeins endurspeglun á því samfélagslega vandamáli græðginnar sem við búum við. Því græðgin er orðin aðalsmerki samtímans. Græðgin er alin upp í börnunum okkar, stöðugt er kynnt undir hana í fjölmiðlum, allt er í dag metið í ljósi þess sem hægt er að fá og eignast og græða. Og rétt eins og með forstjórana sem láta sér aðra og þeirra vandamál í léttu rúmi liggja, þannig komum við fram sem þjóðfélag. Því miður. Það er ekki gaman að horfast í augu við það. Dæmin eru mý-mörg. Við flytjum inn ódýrt vinnuafl og látum útlendinga þræla fyrir okkur á lúsarlaunum. Margir þeirra búa vil illan kost. Við misþyrmum landinu okkar sem okkur hefur verið falið, til þess að þéna á því. Virkjanir, vegir, verksmiðjur, mengun, ofveiði, allt ber þetta að sama brunni. Græðgin knýr okkur áfram. Og ef maður bendir á þetta er sagt að maður standi gegn framförum og uppbyggingu.

Græðgin elur af sér hinar gömlu höfuðsyndirnar, öfundina, reiðina, letina, hrokann, ofneysluna og fíknina í nýja fullnægingu fyrir eigingjarnar hvatir.

Sem kristnum einstaklingum, sem kirkju, ber okkur að berjast gegn þessu ástandi, gegn afleiðingum græðginnar. Hið kristna líf á að bera einkenni trúar, vonar, kærleika, umburðarlyndis, réttætis, hógværðar og hugprýði. Saga sérhvers kristinns manns, sgakirkjunnar, er framhald þeirrar sögu sem hófst í Betlehem í Júdeu við fæðingu Jesú. En það er líka eins gott að gera sér grein fyrir því að að er ekki auðvelt né góð leið til vinsælda að berjast fyrir réttlæti í dag. Að benda á græðgina. Því hógværð þykir ekki dyggð heldur eins og ég sagði afturhaldssemi. Og umburðarlyndi er túlkað sem veikleiki.

Því mun sundrungin vaxa í samfélaginu.

Því mun gjáin breikka milli ríkra og snauðra.

Því mun landið þjást meira.

Þangað til við vöknum, komust til vitundar á ný, augu okkar opnast og við sjáum afleiðingar gjörða okkar.

Eða eins og Jesús sagði, þangað til við iðrumst og trúum fagnaðarerindinu.

Guð gefi að sá tími komi fyrr en síðar. En þar til sú stund rennur upp kallar Kristur sérhvern kristinn einstakling og kirkjuna alla til að sýna hugprýði og staðfestu, til að berjast trúarinnar góðu baráttu og láta til sín taka í samfélaginu, gegn græðginni og afleiðingum hennar, í trú von og kærleika.

Guð gefi okkur styrk til þess á nýju ári og allar okkar ævistundir.

Í Jesú nafni, amen.

Matteus 2.