ÆSKÞ gengur í gleði

ÆSKÞ gengur í gleði

Að frumkvæði unglinga í æskulýðsfélögum Þjóðkirkjunar ætla samtökin ÆSKÞ að taka þátt í Gleðigöngu á Hinsegin dögum í Reykjavík á laugardag. Krakkarnir munu bera borða sem á stendur „Við trúum á fordómalausan Guð“
fullname - andlitsmynd Sigurvin Lárus Jónsson
08. ágúst 2014

Að frumkvæði unglinga í æskulýðsfélögum Þjóðkirkjunar ætla samtökin ÆSKÞ að taka þátt í Gleðigöngu á Hinsegin dögum í Reykjavík á laugardag. Krakkarnir munu bera borða sem á stendur „Við trúum á fordómalausan Guð“ og „Það sem Jesús sagði um samkynhneigð , ... '“.

Fordómar í garð hinsegin fólks birtast í sinni ljótustu mynd meðal trúarbragða og því vill Æskulýðssamband Þjóðkirkjunnar leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn þeim. Í Jesú nafni er hinsegin fólk fordæmt og því munu ungmennin halda á borða sem inniheldur allt sem Jesús sagði um samkynhneigð og játningu til fordómalauss Guðs.

Sín á milli halda þau síðan á bænabandi að sænskri fyrirmynd en hver perla á bandinu hefur merkingu. Sú svarta merkir iðrun og viljum við fyrir hönd trúaðra biðjast afsökunar á þeirri framkomu sem hinsegin fólk hefur mætt. Dýrmætasta perlan táknar þig, sem er fallegur og falleg, hvar sem þú stendur í regnbogalitrófi lífsins.

Æskan í kirkjum landsins ber ekki ábyrgð á því ofbeldi sem hinsegin fólk hefur verið beitt í gegnum árin í nafni kristinnar kirkju, hérlendis sem erlendis, en hún ber þá ábyrgð að segja sig frá fordómum. Biblían ber í þúsundum ritningartexta vitni um kærleiksríkan Guð og fjölbreytta sköpum manneskjunnar en 6 vers hafa verið af kirkjunnar þjónum túlkuð sem vopn til að berja á hinsegin fólki.

Það er réttnefnt trúarlegt ofbeldi og Jesús frá Nasaret helgaði líf baráttunni gegn slíku ofbeldi. Að hans fyrirmynd er baráttuhugur í ungmennum kirkjunnar að ganga í gleði, útrýma fordómum og trúarlegu ofbeldi, og standa með ástinni sem okkur er af Guði gefin