Jesús sagði við lærisveina sína að fara út um allan heim. Starf kristinnar kirkju í 20 aldir hefur mótast af þessum orðum hans. Fyrst notuðu menn aðallega fætur, þ.e. „hesta postulanna“. Síðan hafa menn notað hesta, kerrur, báta, skip, lestir, bíla, hjól og mótorhjól, bíla, rútur, þyrlur og flugvélar. Sumir kristniboðar búa við aðstæður þar sem enn þarf að ganga mikið eða nota hjól því bílar komast ekki um eða rekstur dýrra tækja er þeim um megn.
Síðustu öld og áratugi hafa menn í vaxandi mæli nýtt sér fjölmiðlun til að koma fagnaðarerindinu áfram til annarra. Dagblöð og tímarit, símar, vefsíður, útvarp og sjónvarp eru allt miðlar sem hafa hjálpað til við útbreiðslu kristinnar trúar. Þessa dagana fagnar til dæmis kristilega útvarpsstöðin Lindin 19 ára starfsafmæli sínu hér á landi.
Kristniboðssambandi tekur þátt í beinu fjölmiðlastarfi með stuðningi við útvarpssendingar til Kína sem einkum miðast við fólk á landsbyggðinni. Þannig berst fagnaðarerindið inn á landsvæði þar sem hefðbundið kristniboð er í rauninni bannað.
Kristniboðssambandið er einnig samstarfsaðili sjónvarpsstöðvarinnar Sat7 sem hefur í rúm 15 ár sjónvarpað kristilegri dagskrá á arabísku, farsi og tyrknesku til Norður-Afríku og Mið-Austurlanda frá Kýpur. Fimm rásir eru í gangi allan sólarhringinn og ein þeirra eingöngu með barnaefni. Dagskráin er að mestu leyti framleidd á svæðinu m.a. í myndverum í Egyptalandi og Líbanon. Allra síðustu árin hefur stöðin lagt áherslu á að miðla von með sáttar- og friðarboðskap á tímum upplausnar og átaka. Dagskráin er fjölbreytt. Má þar nefna viðtalsþætti, spurningaþætti, sápuóperur, fræðsluþætti og kvikmyndir.
Sat7 er samkirkjulegt verkefni fólks úr mörgum kirkjudeildum. Grundvallarhugsun Sat 7 er að vera kirkjum svæðisins til uppörvunar, hvatningar og stuðnings enda er kristið fólk víðast hvar í mjög miklum minnihluta og hefur farið fækkandi vegna ofsókna sem leitt hafa til brottflutnings. Þar fyrir utan nær dagskrá stöðvarinnar til svo miklu fleiri og fólk fylgist með henni í milljónatali. Boðskapurinn um kærleika Guðs í Jesú Kristi berst víða. Sat 7 er öflugt verkfæri kirkju hans enda alls kyns aðferðum er beitt til að halda vitnisburðinum um Jesú á lofti.