Af fátæku fólki og ríku

Af fátæku fólki og ríku

Kristin trú er ekki puntstrá, heldur hey.
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
21. ágúst 2011
Flokkar

Í sumar upplifði ég í fyrsta sinn á ævinni að ferðast um Vestfirði og skoða kyngimagnaða náttúru þess landshluta og anda að mér söguloftinu með aðstoð annars frábærrar ferðahandbókar Páls Ásgeirs Ásgeirssonar sem greinir frá fjölförnum ferðastöðum allt frá Látrabjargi og Rauðasandi til smærri staða sem eru sannkallaðar perlur í fáförnum eyðifjörðum. Bókin segir frá fyrsta kartöflubóndanum í Sauðlauksdal, séra Birni nokkrum Halldórssyni sem gerðist svo framsýnn um miðja 18 öld að setja niður fyrstu jarðeplin hér á landi og mælir bókarhöfundur með því að ferðalangar staldri við í þessum sönduga dal sem minnir helst á litla eyðimörk og opni svona eins og einn kartöfluflögupoka til að tengja saman tímana tvenna og votta Birni virðingu sína. Ég gæti sagt ykkur margt og mikið af ferð okkar fjölskyldunnar í júlímánuði en þið gætuð nú orðið dálítið þreytt á slíkri “myndasýningu” samt get ég ekki látið hjá líða að mæla með þessari bók 101 áfangastaður, það gefur ferðinni aukið gildi að hafa upplesara í framsætinu sem greinir frá staðháttum og sögu milli þess sem afkvæmin í aftursætinu gera kröfu um pylsu og pissustopp,það þarf auðvitað líka að styrkja Olíufélögin og Sláturfélag Suðurlands. Ég má líka til með að segja ykkur frá því að þegar við ókum inn Vatnsfjörðinn þar sem við höfðum næturstað, sáum við tvo haferni sitja spaka á kletti og vissi ég þá ekki hvort geðshræring mannsins míns hafði meiri áhrif á mig en sjálf sýnin enda ókum við snarlega út í kant og skiptumst svo á að munda kíkinn til að virða fyrir okkur þetta sjaldséða undur sem sat líkt og réttborinn konungur við sjávarsíðuna.

Mér finnst alltaf svo merkilegt að vera Íslendingur þegar ég ek um þetta land, ekki af því að ég hafi persónulega átt nokkurn þátt í að skapa það heldur vegna þeirrar staðreyndar að ég tilheyri svona fámennri þjóð í svona líka stóru og mikilfenglegu landi. Af hverju urðum við svona fá í öllu þessu landrými? Það liggur auðvitað í augum uppi að landið er ekki byggilegt nema að hluta en samt sem áður er það mun stærra en við þurfum nokkru sinni á að halda eins fá og við erum. Það hlýtur að vera einhver tilgangur með þessari ráðstöfun, við erum ekki bara lítil þjóð í stóru og tilkomumiklu landi, punktur, við hljótum að þurfa að draga ályktanir af þessari ráðstöfun skaparans. Hefurður hugsað um það hvað hver og einn einstaklingur hér hefur mikið rými fyrir líkama sinn og sál? Og hvað það er ótrúlega auðvelt að komast, já hvar sem þú ert staddur á þessu landi, út í ósnortna náttúru þar sem þú getur hlýtt á þinn eigin andardrátt í kyrrðarrúmi fjallanna eða legið í mosaþúfu og horft upp í svo heiðan himin að þú greinir næstum því önnur sólkerfi með augunum einum. Við búum við svo mikið frelsi í umhverfi okkar og ytri aðstæðum að það er ekkert annað sem getur hneppt okkur í álög en við sjálf. Um þetta sannfærðist ég enn frekar við lestur bókarinnar Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson, æviminningar úr Eyjafirði og Öxnadal, sem ég las í þessu ágæta sumarfríi, þar lýsir Tryggvi aðstæðum og lífsafkomu sem erfitt er fyrir mina kynslóð að meðtaka og stéttskiptingu í fámenninu sem maður upplifir nánast súrrealíska, eins og þegar kaupmaðurinn tekur einu kúna af heimili barnmargrar fjölskyldu upp í skuld sem honum munar raunar ekkert um, eða er það kannski gömul saga og ný og jafnvel til í stærra samhengi ef litið er til samskipta vesturlanda og þróunarríkja í gegnum árin. Að ég tali nú ekki um vinnuálag á börnum þess tíma, tíma sem í árum talið er ekki svo fjarri okkur í dag, þegar litlir drengir voru sendir á vetrum tvær jafnvel þrjár dagleiðir að draga björg í bú og biðjast bónar í kaupstað eða fóru upp á heiði að leita fjár og hrossa. En þrátt fyrir þennan harða veruleika sem í bókinni er lýst þá er hún full af óumræðanlegri fegurð sem endurspeglast í djúpstæðu þakklæti drengsins fyrir þetta land, þessa náttúru og lýsingarnar eru ekki bara undur ljóðrænar heldur blátt áfram draumkenndar og samt er hann að lýsa umhverfinu í kringum bæinn Bakkasel sem hefur sjaldan minnt mig á annað en leiðinlega brekku og draugalegt hús. Drengurinn umræddi sem orðinn er öldungur þegar hann lýsir æsku sinni, sér hins vegar Guð í hverju strái, snjótittlingarnir eru þakklátur félagsskapur sem hann yrkir til og meira að segja hagamúsin á stað í hjarta hans, hún fangar athygli hans í elju sinni við að leita ætis. Og samt er heimili hans ekkert annað en moldarhjallur óþiljaður að innan með örsmáum ljóra á baðstofulofti til hleypa dagsljósinu inn. Hvort næmi hans fyrir náttúrunni varð fyrir vikið meiri en ella, skal ósagt látið en þó er engri rómantík sveipað um fátæktina í þessari bók enda væri það ekki rétt, fátæktin er og verður alltaf þröskuldur hamingjunnar en hitt stendur þó eftir að yfir lífi þessa fátæka manns Tryggva Emilssonar hefur verið mikil reisn þó hann hafi hvorki hlotið viðurkennda menntun né starfstitla, hann lifði í takti við sköpunina alla, bæði menn, dýr og náttúru.

Þannig lifði líka hún Katrín Kolka Jónsdóttir sem við minntumst hér í kirkjunni í gær og tónleikarnir á eftir eru tileinkaðir, hún var barn annars tíma en Tryggvi Emilsson og ólst upp við góðar aðstæður hér á Hólum í Hjaltadal í faðmi sterkrar og góðrar fjölskyldu og var hamingjubarn en hún átti líka þetta næmi fyrir náttúrunni og eftir að krabbaófétið kom sér makindalega fyrir í líkama hennar sótti hún kraft sinn og styrk ekki hvað síst í ósnortna náttúru og síðasta sumarið sem hún lifði,voru þau Eiríkur maður hennar og Valdimar litli mest upp á fjöllum og í kyrrð fjalla og dala landsins. Katrín lifði líkt og Tryggvi heitinn í jafnvægi við menn og náttúru og þess vegna var hún líka mjög natinn og góður hjúkrunarfræðingur, elskuð eiginkona,móðir, dóttir og systir, mágkona og vinkona. Já þetta mikla land, þessi stórbrotna náttúra sem virðist bíða þess að mæta okkur og næra er til þess fallin að tengja okkur við Guð og menn og vekja okkur til vitundar um dýpstu gildi lífsins, til þess fallin að draga fram það besta í mannlegu eðli, hún getur umsnúið neikvæðri hugsun og bölmóði, hvernig getur þú verið reiður og bitur þar sem þú stendur við fossinn Dynjanda í Arnarfirði eða í Ásbyrgi á sólríkum sumardegi? Hvernig er hægt að vera vanþakklátur í skagfirskri kvöldsól ágústmánaðar þegar Drangey verður eins og skuggamynd í landslaginu? Okkur Íslendingum er svo sannarlega mikið gefið bæði í umhverfi og tækifærum og einmitt þess vegna berum við líka meiri ábyrgð en ella, við erum kölluð til að deila af gæðum okkar. Og nú horfum við til meðbræðra okkar og systra í Austur - Afríkuríkinu Sómalíu, meðal þess sem hefur áhrif á líf íbúanna þar eru stríðsátök, hátt matarverð, verðbólga og þurrkar og nú eru það þurrkarnir sem hrella helst enda þeir mestu í manna minnum. Fréttirnar greina okkur frá börnum sem verða hræætum að bráð í máttleysi sínu vegna hungurs og maður heldur að slíkt geti ekki gerst í sömu veröld og maður vaknaði til í morgun. Í svona ástandi fara farsóttir af stað, fólk neytir mengaðs vatns með fyrrgreindum afleiðingum og dugmiklir bændur og hirðingjar horfa á hræ dauðra húsdýra af því að ekkert korn vex til að fóðra í gegndarlausum þurrkum. Íslensk þjóð hefur samt sem betur fer vaknað og litið upp úr eigin ranni og brugðist við ástandinu með mataraðstoð og lyfjum enda gefum við af gnægtum okkar en ekki skorti, við erum nefnilega rík í svo margvíslegum skilningi og getum án efa gert enn betur í framlagi okkar, hjálparstofnanir landsins, Rauði Krossinn og Unicef eru okkar farvegur til hjálpar og er eflaust hægt að fá góð ráð hjá þeim um hvernig einstaklingar og samtök geta lagt sitt að mörkum.

Guðspjall dagsins er áskorun um að vera á vaktinni, að vera virkur í kristinni afstöðu, Kristin trú er ekki puntstrá, heldur hey, fóður til að næra mannlega tilveru. Kristin kirkja á kannski ekki að vera háð dægursveiflum eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þingmaður kom inn á í ræðu sinni á Hólahátíð, en hins vegar verður Kristin trú alltaf samferða dægusveiflum eigi hún að bera nafn með rentu, því hvað eru dægursveiflur annað en lífið sjálft í hnotskurn, lífið sem er stöðugt á hreyfingu og sveiflast til og frá. Kristin trú er trú á lífið og lífið er réttlæti og kærleikur sem birtist í mismunandi viðfangsefnum allt eftir því hvar við erum stödd á þessari vegferð, kannski eins og landslagið fyrir vestan, heiðarnar hrjóstrugu sem fá mann til að súpa hveljur og dalirnir fögru og firðirnir friðsælu sem vekja með manni djúpstæða gleði og undrun. Guðspjall dagsins er hvatning um að halda vöku sinni og vera lífinu samferða, hvatning um að setja ekki trúna upp á hillu til hliðar við mávastellið sem dregið er fram við hátíðleg tækifæri, heldur vera þar sem hlutirnir gerast hverju sinni, bæði í gleði og raun en ekki síst þar sem lífið ber mann áfram.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.