Opinber umræða á það til að fara fram í frösum. Eitt af því sem þá gerist er að menn nota orð og hugtök án þess að gefa því gætur hvað raunverulega er í þeim fólgið.Um helgina las ég viðtal við kunnan prest sem var tíðrætt um að Þjóðkirkjan væri að verða "stofnanavædd". Umræddur prestur hefur líka oft talað um "kirkjustofnunina". Þegar svona er tekið til orða er verið að gefa í skyn, undir rós að sjálfsögðu, að stofnun hljóti að vera fremur neikvætt fyrirbæri. Hugtakið er notað eins og skammaryrði. Þetta eru ísmeygileg stílbrögð, að nota hugtak eins og það hljóti að vera slæmt, án þess að gera nokkra grein fyrir því hvers vegna.
Stofnanir eru náttúrlega ekkert endilega slæmar. Engan hef ég til dæmis amast við Stofnun Árna Magnússonar vegna þess að hún er stofnun. Eða Umhverfisstofnun.
Ef til vill má orða það þannig að stofnun sé ákveðið skipulag sem menn setja á laggirnar til að mæta ákveðnum þörfum. Það er auðvitað ekkert slæmt heldur hlýtur það þvert á móti að teljast gott, takist stofnuninni að mæta þeim þörfum sem upphaflega voru forsenda hennar. Stofnanir geta því verið mikil Guðs blessun.
Ef við höldum okkur við ofangreinda skilgreiningu á stofnunum þá er Þjóðkirkjan að sjálfsögðu stofnun. Þar er á ferðinni skipulag sem er ætlað að sinna tilteknum þörfum. Skipulag Þjóðkirkjunnar er ekki einfalt. Þegar um hana er rætt gleymist oft að Þjóðkirkjan er ein stærsta stofnun samfélagsins. Við erum að tala um fjöldahreyfingu sem hefur innan vébanda sinna um 80% þjóðarinnar. Afgreiðslustaðirnir (ef þannig má að orði kveða) skipta hundruðum. Þarfirnar sem þessari stofnun er ætlað að mæta eru margar, sumar óljósar og bæði umdeildar og viðkvæmar. Það er því ekki einfalt að skipuleggja Þjóðkirkjuna og enn erfiðara getur verið að meta hversu vel hefur til tekist við það skipulag.
Þegar stofnanir eru metnar liggur beinast við að skoða þær í ljósi þarfanna sem voru kveikjan að þeim. Hversu vel gengur stofnuninni að vera skipulag sem á að mæta þessum þörfum? Eru þarfirnar kannski ekki lengur til staðar?
Sagan kennir okkur líka að stofnanir geta í tímans rás kúplast frá þörfunum sem lágu þeim upphaflega til grundvallar. Þá gengur skipulagið ekki lengur út á að mæta þörfunum, heldur að viðhalda sjálfu sér. Allar stofnanir þurfa að spyrja sig slíkra spurninga.
Þjóðkirkjan er stofnun og það að hún sé stofnun er að sjálfsögðu ekki slæmt í sjálfu sér. Önnur trúfélög eru líka stofnanir. Þau starfa samkvæmt ákveðnu skipulagi.
En auðvitað á Þjóðkirkjan (og önnur trúfélög) að vera meira en stofnun eða skipulag. Þjóðkirkjan er líka ákveðið félagslegt umhverfi og í þriðja lagi er hún trúarlegt samfélag. Það er áhyggjuefni ef Þjóðkirkjan hættir að vera annað en stofnun og það er líka áhyggjuefni ef skipulag hennar er þannig að það mætir ekki þeim þörfum sem því var ætlað að sinna.
En sé skipulagið þannig, að þar sé þörfunum mætt, þá er stofnunin blessun, líka þótt hún heiti Þjóðkirkja.