Í einni af sínum óborganlegu frásögnum lýsir Þórarinn Eldjárn því þegar hann, árið 1970, gekk inn á þekkta krá í Kaupmannahöfn á flótta undan nöprum vetrarkuldanum þar í borg.
Erfið ævi
Staðurinn var þéttsetinn og mikið skrafað eins og gengur. Hann hafði setið þar skamma stund er hann tók eftir konu, ógæfusamri að sjá, sem sat ein úti í horni og talaði sleitulaust við sjálfa sig. Enginn gaf sig að því sem hún hafði að segja og bar ekki á öðru en að fólkið hefði heyrt þessa sögu margsinnis áður. Sjálfum fannst honum endilega eins og hann kannaðist við konu þessa – hann gat bara ekki munað hvar. Hann lagði því við hlustir. Þetta reyndist vera barnið úr sögunni um Nýju fötin keisarans. Það bar ekki á öðru en að það hefði átt erfiða ævi.
Ég man ekki hvenær ég las þessa örsögu fyrst en hún hefur oft leitað á mig. Hún er í raun nöpur ádeila á samfélagið allt. Í ævintýri H.C. Andersen er það auðvitað keisarinn sem situr í súpunni, já og allir hans jábræður og jásystur sem hann hafði safnað í kringum sig. Í sögunni er um það fjallað hvernig sakleysi barnsins afhjúpar sýndarmennsku, snobb og tildur. Barnið bendir á það sem allir hefðu mátt sjá og vita – keisarinn var ekki í neinum klæðum. Enginn annar gat hins vegar bent á þessar staðreyndir hinir fullorðnu voru allir fastir í vef ósannindanna.
Síðan hefur þetta tilsvar óspart verið notað þegar einhver hefur afhjúpað það sem ekki mátti ræða og fjalla um. Og því miður eru tilefnin til þess mörg og ærin. En í þessari frásögn sem hefur yfirskriftina „Ævintýri“, er okkur gefin ímynduð innsýn í líf þeirrar manneskju sem sagði það sem þurfti að segja – eða sagði það sem ekki mátti segja. Já, hún hefur átt erfiða ævi!
Sannleikurinn er dýr
Þótt hér sé vissulega boðið upp á frumlega sýn á málið eins og við er að búast má samt líta á boðskapinn í sögulegu ljósi. Örlög þess sem er hreinskilinn og fytur mál sannleikans hafa verið mönnum hugleikin lengi. Heimspekingurinn Platon segir frá tveimur gerólíkum mönnum í inngangi að ritinu Ríkið – sem fjallar einmitt um réttlætið. Annar þeirra er sannsögull og kann raunar ekki annað en að fara rétt með. Hinn er óheiðarlegur og sífellt hallar hann réttu máli. Platon sýnir svo hvernig þeir öðlast ólíkt hlutskipti í lífinu. Sá heiðarlegi verður stöðgt skotspónn svikahrappa sem koma á hann allri sök og endar hann allslaus og yfirgefinn í fangelsi.
Lygalaupurinn kann hins vegar að hagræða sannleikanum og nýtur hann bæði vinsælda og virðingar og tekur að lokum við stjórnartaumum í landinu. Platon rökstyður það svo og raunar helgar hann alla umfjöllun bókarinnar í að ræða – hvernig sá ógæfusami en heiðarlegi, átti þrátt fyrir allt betra líf en hin söguhetjan. Sannleikurinn hafi gildi í sjálfu sér.
Barnið í musterinu
Guðspjall dagsins geymir minningarbrot úr lífi sem helgað var sannleikanum og kærleikanum til náungans. Sá háttur var hafður á í musterinu þar að hinir fróðu menn sátu í sætum og svo voru lærlingarnir á gólfinu og drukku í sig spekina. Lúkas gefur til kynna með orðalaginu að þeir hafi verið nokkrir fræðimennirnir og að pilturinn hafi farið frá einum til annars til þess að reyna þekkingu sína.
Það geymir líka ákveðin líkindi við ævintýrið góða. Þarna situr æskumaður og hlýðir á visku hinna eldri. Sumt af því sem frá vörum þeirra streymir stenst þó ekki gagnrýni þótt staða þeirra og virðing hafi verið slík að þeir heyrðu sjaldan annað en lofsyrði um þekkingu sína og visku. Já, í frásögninni er það barnið sem kemur fram á sjónarsviðið – sama barnið og hóf ævi sína hér á jörðu úthýst úr mannabústöðum og leitaði ásjár í fjárhúsi. Þarna heyrum við í fyrsta skiptið rödd Jesú – eða svo öllu sé rétt til haga haldið – þarna mælir hann í fyrsta skiptið í guðspjalli Lúkasarar. Áður hafa borist spádómar um fæðingu hans, hann var borinn í heiminn en nú er þessi frásögn af honum tólf ára gömlum.
Þetta er bernskufrásögn og rétt eins og sagan sem Þórarinn Eldjárn vísar í segir hún frá atburði þar sem barn hefur meiri þekkingu en hinir fullorðnu. Hvað skyldi hann hafa rætt við fræðimennina? Hvað var það í spurningum hans sem kom þeim í bobba? Opinberaði hann einhverjar glufur í þekkingu þeirra? Á hvað benti barnið?
Barnið í fagnaðarerindinu
Fagnaðarerindið er í raun og veru óður til þess sem einlægt er og saklaust. Boðskapurinn er jafnan sá að þekking okkar á Guði sprettur ekki af úthugsaðri skynsemi okkar eins dásamleg og hún er nú til síns brúks. Nei hún sprettur fram af hreinu hjarta þar sem ríkir sannur kærleikur til þeirra sem í kringum okkur standa og þess sem skapar heiminn og okkur sjálf.
Sjálfur talaði Kristur um sjálfan sig með margvíslegum hætti. Hann minnti á skyldur okkar í þessu lífi og dró ekkert undan þegar hann útlistaði fyrir hlustendum sínum þá ábyrgð sem því fylgir að vera maður. Þar er ekkert gefið.
En samlíkingin við barnið er hins vegar ætíð nálæg í lífi hans, þótt boðskapurinn sé ekki alltaf eins og menn myndu . Hann kallaði barnið fram í miðjan lærisveinahópinn þegar þeir voru að metast um það hver þeirra væri æðstur – og sagði þeim að barnið yrði fremst allra í ríki Guðs. Og eins og við rifjum upp á aðventunni sagðist hann vitja okkar í lífi okkar og störfum – já sem einn af okkar minnstu bræðrum. Kjarninn er sá að tengsl okkar við Guð eru persónuleg og þau eru grundvölluð á kærleika en ekki yfirfullum sjóðum þekkingar sem kunna að vekja aðdáun en standast svo kannske ekki prófraun barnsins.
Undirtónn sögunnar
Saga Krists er að sama skapi frásögnin af því hvernig heimurinn getur leikið þá sem ganga hreint fram og segja það sem þarf að segja og vinna sín kærleiksverk án þess að skeyta um úreldar reglur og siði. Já, það var einmitt eitt helsta hugðarefni hans eftir að hann „þroskaðist að visku og vexti hjá Guði og mönnum“. Þegar Kristur birtist næst er það sem hinn fullþroskaði Messías sem kom til þess að frelsa mannkyn undan oki syndar og helsis.
Þrátt fyrir að sagan hafi yfir sér þetta yfirbragð æsku og sakleysis er undirtónninn alvarlegur. Hún lýsir vissulega angist foreldranna en sá ótti átti eftir að endurtaka sig í lífi Jesú. Hlutskipti þess sem hlotið hefur mikilvæga köllun er hér til umfjöllunar. Sagan er upptakturinn að þvi þegar Kristur býður yfirvaldinu byrginn og þeirri þekkingu sem viðurkennd var. Hann vísar fram til þeirra tíma þegar boðskapurinn sem vakti jú undrun og furðu, átti eftir að kalla fram hatur og ofsóknir í hans garð. Hann bauð valdinu byrginn. Hann rækti óhræddur köllun sína og hlutverk.
Hlutskipti þess sem er hreinn og sannur er sjaldan eins auðvelt og hlutskipti þess sem reynir í sífellu að hagræða sannleikanum og komast undan öllum átökum. Sannleikurinn er dýrmætur og hann getur krafist fórna. Fornir hugsuðir hafa hugleitt þessa stöðu og hið íslenska skáld segir þá sögu einnig á sinn hátt. Saga Þórarins Eldjárns hefst á veðurfarslýsingu þar sem hann segir frá því er hann hröklast undan nöprum vindunum inn á þessa krá þar sem hann hittir þessa ólánsömu konu. Kaldhæðnin verður þó enn meiri í lokaorðunum þegar því er lýst hvernig heimurinn átti eftir að leika hana – já sjálft barnið úr ævintýrinu um nýju fötin keisarans.
Lúk 2.41-52