Hver ber ábyrgðina?

Hver ber ábyrgðina?

Á undanförnum vikum hefur þráfaldlega verið spurt hverjir beri ábyrgð á efnahagsástandinu sem upp er komið. Aðspurðir, útrásarmenn, stjórnendur gömlu bankanna, eftirlitsaðilar og stjórnvöld, hafa flestir hoppað inn í söguþráð Litlu gulu hænunnar og vísað frá sér. Sumir hafa lagst á það lúalag að spyrja: Berum við ekki öll, þjóðin, ábyrgðina?
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
24. nóvember 2008

Á undanförnum vikum hefur þráfaldlega verið spurt hverjir beri ábyrgð á efnahagsástandinu sem upp er komið. Aðspurðir, útrásarmenn, stjórnendur gömlu bankanna, eftirlitsaðilar og stjórnvöld, hafa flestir hoppað inn í söguþráð Litlu gulu hænunnar og vísað frá sér. Sumir hafa lagst á það lúalag að spyrja: Berum við ekki öll, þjóðin, ábyrgðina?

Slíkt svar er rangt. „Góðærið“ fór framhjá mörgum sem ýmist gátu ekki eða vildu ekki taka þátt í kapphlaupinu sem háð var. Það fólk ber ekki ábyrgð á ástandinu. Svo er um ýmsa aðra. Fullyrðingar um að þjóðin beri ábyrgðina merkir enda raunar að enginn beri ábyrgð né ætli að axla hana.

Hér verður ekki reynt að útdeila ábyrgðinni né leiða getum að því hverjir hafi helst brugðist. Það mun allt koma í ljós þegar stund sannleikans rennur upp. Og sá tími mun koma. Þangað til er rétt að bíða.

Við berum ekki öll ábyrgð á ástandinu en við berum öll ábyrgð í ástandinu. Hver sú ábyrgð er, hvernig hún birtist og hvernig okkur ber að bregðast við henni er með ýmsu móti og fer eftir aðstæðum okkar hvers og eins og er enda breytilegt frá einum tíma til annars. Til að þekkja ábyrgð okkar verðum við að hlusta eftir okkar innri rödd og vera næm á það umhverfi sem við hrærumst í. Allir þurfa til dæmis uppörvandi viðmót, næmt eyra sem hlustar og innihaldsríka samveru. Oft getum við verið veitendur í þessu efni. Grípum þá tækifærið. Það breytir því þó ekki að öll erum við í sporum hinna þurfandi. Nú gildir að gefa bæði og þiggja.

Til að þekkja til fulls ábyrgð okkar í ástandinu sem ríkir og raunar almennt í mannlegu félagi er mikilvægt að njóta leiðsagnar Guðs, uppsprettu alls kærleika og allrar huggunar. Það er hann sem leggur okkur í brjóst visku og næmni til að greina ábyrgð okkar og góðan vilja til að bregðast við henni. Þessarar leiðsagnar njótum við í lestri Guðs orðs og bæn, hljóðri íhugun frammi fyrir Guði eða í helgihaldi – við allar þær aðstæður sem opna huga okkar fyrir boðskapnum sem kemur lengst að innan eða lengst að utan eftir því hvernig við skynjum ávarp Hins heilaga, Guðs.

Ábyrgð okkar í ástandinu felst því ekki síst í því að vera hlustandi og opinn. Hlustandi eftir leiðsögn Guðs og opin fyrir þörfum og væntingum þeirra sem við lifum með eða verða á vegi okkar. Ábyrgð okkar nær þó einnig til okkar sjálfra. Við erum endanlega ábyrg fyrir líðan okkar sjálfra. Líði okkur illa getum við ekki stutt aðra. Því verðum við fyrst og síðast að gaumgæfa stöðu okkar sjálfra, vinna að vellíðan okkar og styrkja okkur þannig til góðrar nærveru og verka. Ábyrgð okkar í ástandinu hvílir því á tvöfalda kærleiksboðinu:

Þú skalt elska Drottinn, Guð þinn, að öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og af öllum huga þínum. Þetta er hið mikla og fyrsta boðorð. En hið annað er líkt, þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. (Mt 22. 37-39)