Í austri rís upp ársól skær

Í austri rís upp ársól skær

Sú lífsins sól sem ljómaði í myrkrum á jólunum fyrstu, og missti birtu sinnar á föstudaginn langa braust fram úr skýjum ógnar og dauða á páskunum fyrstu og markar stundirnar fram til sumars sem aldrei hverfur.
fullname - andlitsmynd Einar Sigurbjörnsson
07. apríl 2008

Páskasálmur séra Valdimars Briem, númer 148 í Sálmabókinni, hefst á versinu:

Í austri rís upp ársól skær, í austri sólin, Jesús kær, úr steinþró djúpri stígur, sú páskasólin björt og blíð, er birtist öllum kristnum lýð og aldrei aftur hnígur. Jesús, Jesús, sigu'r er unninn, sól upp runnin sannrar gleði vina þinna grátnu geði.

Þessi páskasálmur séra Valdimars er sennilega ekki jafn kunnur og jóla-, áramóta- og hvítasunnusálmar hans. Það eru engin jól hér á landi án sálmanna „Í Betlehem er barn oss fætt“ og „Í dag er glatt í döprum hjörtum“, engin hvítasunna án sálmsins „Skín á himni skír og fagur, hinn skæri hvítasunnudagur“, hvað þá áramót án sálmsins „Nú árið er liðið í aldanna skaut“.

Í öllum hátíðasálmum sínum líkir Valdimar Briem Jesú við sól: „Í myrkrum ljómar lífsins sól,“ og: „Í niðamyrkrum nætur svörtum upp náðar rennur sól,“ segir í jólasálmum hans. Hvítasunnudagur dregur nafn af Drottins sól og í páskasálminum líkir hann Jesú enn við sól.

Þetta myndmál séra Valdimars er gagnsætt og öllum auðskilið. Um leið er það ríkt að merkingu.

Sólin er skilyrði lífs á jörðu.

Það hafa menn alltaf vitað og þess vegna hafa menn á öllum öldum sungið sólinni lof, blessað komu hennar að morgni og kvatt hana með söknuði að kvöldi. Sumar þjóðir hafa tilbeðið sólina sem guð. Þannig var um margar fornþjóðirnar sem töldu sólina guð. Um leið álitu þær að sólin væri sama marki brennd og annað líf og þyrfti að hvíla sig um nætur. Það áleit líka að á hausti drægi sólin sig í hlé og legðist í eins konar dvala í híði sínu. Það áleit jafnvel að menn gætu ráðið gangi sólar og frjósemi jarðar með breytni sinni.

Trú Biblíunnar er annars konar og hún boðar trú á skaparann sem allt hefur skapað, sólina líka. Þegar Þorkell Máni allsherjargoði í Reykjavík sá að heiðinn siður feðra hans dugði ekki lengur, lét hann á banadægri bera sig út í sólargeisla og fól þar sál sína þeim guði sem sólina hafði skapað.

Sólin er ekki guð sem heimti þjónustu okkar. Sólin er sköpuð vera eins og við og allt annað í veröldinni og sem sköpuð vera er sólin einnig þjónn Guðs.

Hún er svo sannarlega voldugur þjónn og við mennn þurfum að hegða okkur gagnvart henni með tilhlýðilegri virðingu. Þjóðirnar í heitu löndunum vita að nauðsynlegt er að skýla sér fyrir ofurbirtu sólar þegar hún er hæst á lofti. Þegar við sólarþyrstir Íslendingar förum í sólarlandaferðir fáum við miklar aðvaranir um nauðsynlegar varnir fyrir sólinni og sannfærumst fljótt um að of mikið sólskin geti reynst líkamanum hættulegt ekki síður en of mikill kuldi og frost.

Þannig sjáum við að í öllu er jafnvægi nauðsynlegt, rétt innsæi, rétt breytni.

Höfundar Biblíunnar nota sólina og önnur fyrirbæri náttúrunnar í myndmáli sínu til að benda á skaparann og vald hans og líka til að útskýra líknarverk hans. Í fótspor höfunda Biblíunnar hafa kristin skáld og kristnir kennimenn gengið og minnt okkur á að náttúran öll er gjöf skaparans. Hún ber öll vitni höfundi sínum. Við finnum lögmál í heiminum, getum flokkað þau og reiknað út og ástæða þess er sú að heimurinn er hugsaður. Það er hugsuður sem hefur hugsað tilveruna og sett mark hugsunar sinnar á hana. Við mennirnir erum skapaðir í mynd Guðs og það merkir að við erum útbúnir hugsun sem er fær um að lesa hugsun skaparans og tileinka sér lögmál hans. Með hugsun okkar að vopni höfum við lært að gera okkur náttúruna undirgefna. Stundum höfum við gengið of hart fram, það vitum við og þegar það gerist þá ofbjóðum við náttúrunni. Við verðum þess vegna ætíð að vera okkur meðvitandi um að okkur er nauðsynlegt að hlíta ákveðnum reglum í umgengni okkar við náttúruna og hvert við annað. Annars fer illa. Þannig er náttúran þjónn Guðs, skaparans. Hann veitir gjöfum sínum til okkar í gegnum hana og hann vill að við miðlum gegnum hana gjöfum Guðs hvert til annars. Hann vill að við umgöngumst hana og önnumst í kærleika.

Þess vegna er hlutverk okkar mannanna að vera þjónar bæði í umgengni okkar við náttúruna og í samskiptum okkar hvert við annað. Það sem við eigum og njótum er gjafir Guðs sem nýta ber Guði til dýrðar og hvert öðru til blessunar.

Páskarnir minna okkur á þetta.

Í Jesú Kristi vitjaði Guð okkar mannanna sem einn af okkur. Hann kom inn í myrkur veraldar sem ljós á jólum. Hann óx upp og lifði í baráttu við öfl myrkurs sem leituðust við að kæfa ljósið, flýja birtu þess. Þannig var tilvist þess óljós fram að jafndægri þegar myrkraöflin létu til skarar skríða gegn ljósinu og reyndu að slökkva það.

Þá varð myrkur í heiminum. Píslarsagan lýsir því svo að sólin hafi misst birtu sinnar þegar Jesús kvaldist á krossinum og Hallgrímur útleggur þann atburð þannig í einum Passíusálminum er hann segir:

Sólin blygðast að skína skær þá skapara sinn sá líða.

En skaparinn varð ekki deyddur. Jesús reis upp frá dauðum, steig upp sem sól að morgni fyrsta dags vikunnar til að bera veröldinni eilífa birtu.

Sú lífsins sól sem ljómaði í myrkrum á jólunum fyrstu, og missti birtu sinnar á föstudaginn langa braust fram úr skýjum ógnar og dauða á páskunum fyrstu og markar stundirnar fram til sumars sem aldrei hverfur. Sá sem fæddist á jólum til að bera mannkyni eilífa birtu eilífrar sólar auglýsti sjálfan sig á páskum sem sigurvegara, ljósið eilífa, sem þá sól sem aldrei hnígur.

Sólin er skilyrði lífs á jörðu. Það er páskasólin líka.

Páskasólin er skilyrði vonar um framtíð ljóss og kærleika, birtu sem aldrei dvín.

Sú sól er Jesús.

Hann sigraði dauðann og alla kvöl.

Sakir hans megum við horfa óhrædd og ókvíðin til framtíðar þar sem vald dauðans er brotið á bak aftur. Sakir hans megum við takast á við lífið og ógnir þess í trausti til þess að hann berst með okkur. Vald dauðans blasir hvarvetna við í eyðingu hvers konar og líka þeirri lífssýn sem gengur út frá eigingirni og elur á öfund, græðgi, metingi og þráttan.

Það vald sigraði Jesús í dauða sínum og upprisu.

Og sigurinn vann hann ekki sjálfs sín vegna heldur okkar vegna.

Allt hans líf var fyrir aðra.

Dauði hans var líka dauði fyrir aðra.

Og upprisa hans!

Einnig hún er fyrir aðra.

Það tjáir séra Valdimar í páskasálmi sínum þegar hann í lokaversinu segir:

Sem upp rís sól um árdagsstund og upp rís blóm á þíðri grund úr köldum klakahjúpi, svo upp rís síðar eilíft ljós og óvisnanleg himinrós úr dauðans myrkradjúpi. Jesús, Jesús, þótt ég deyi', eg óttast eigi, æðri kraftur leiðir mig til lífsins aftur.