Hvað er svo í pakkanum þínum?

Hvað er svo í pakkanum þínum?

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi AMEN.

Jólin eru komin, sú hátíð, sem hjartanu er skyldust. Þegar kyrrð færist yfir hugann þá leitar hann til minninga. Við eigum öll sömul minningar um jól, um atvik og stundir sem hafa festst í minni og hafa merkingu fyrir manni sjálfum.

Lífsreynslan mótar mann og óútskýranlega návist þess góða, fagra og sanna skynjar maður á stundum. Veruleiki okkar er á margan hátt óskiljanlegur. Hann er skynjun og athafnir sem við túlkum fyrir okkur sjálf og eignumst þannig skilning á því hvað það er að vera manneskja.

Einhver eftirminnilegasta jólagjöfin sem hef fengið, fékk ég jólin 1975. Ég sat í gráa og svarta stólinum inn í stofu heima hjá mér. Pabbi kom með nokkuð stóran pakka, ferkanntaðan. Það var gjöfin frá foreldrum mínum sem ég opnaði í skyndi. Það var kassi undir pappírnum. Ég opnaði kassann, þar ofan í var annar kassi sem þurfti líka að opna. Þegar kassarnir voru orðnir níu, hver ofan í öðrum var ég alveg kominn að því að bresta í grát. Þetta var eiginlega of mikið af því góða mitt í alvörunni. Og þegar í tíunda kassann var komið, blasti við rauður lítill kassi og þegar hann opnaðist þá sá ég skeiðklukku sem var vafinn í hvítan bómull.

Betri gjöf gat ég ekki fengið og í raun var þetta dýrast jólagjöfin sem ég hef fengið um dagana. Nú gat ég mælt tímann. Þessi klukka var mér ótrúlega verðmæt –sem ég fór vel með og ætti sjálfssagt enn hefði ég ekki lánað sundþjálfara klukkuna sem ekki hafði sömu sýn á skeiðklukkuna og ég. Hann týndi henni –passaði ekki upp á hana sem skyldi. En gjöfin sjálf geymdi leyndan boðskap jólanna sem hefur tekið mig mörg ár að átta mig á.

Jólin eru ekki ósvipuð þessari jólagjöf frá árinu 1975. Jólin eru í mörgum lögum, hvert vafið inn í annað. Og þegar leyndardómur lýkst upp, blasir annar dýpri við uns komið er að kjarnanum sjálfum eftir langa leit. Og eftir honum þurfum við að sækjast og tileinka okkur. Við þurfum þannig að opna hvern kassa umbúðanna á fætur öðrum, til að komast að innihaldi og merkingu jólanna og þeirrar hátíðar sem við höldum. Kassana þarfa að opna, það þarfa að rífa umbúðirrnar utan af jólahaldinu okkar, þannig að við komumst að þeim kjarna sem jólin eru okkur hverju og einu en um leið ætti að uppljúkast kjarninn um okkur sjálf: handan við ásýnd hlutananna og röklegt samhengi hversdagsins. Þetta er hagnýt sókn og leit trúarinnar. Og það sem þú munt finna snýr að sambandi þínu við sjáflan Guð, að sjálfsvirðingu þinni og sálarró, að óendanlegu gildi mannssálarinnar og ekki síst að sjálfum ljósgjafa lífs þíns.

Það sem kassar og pakkar jólanna og allar umbúðirnar geyma undir yfirborði sínu, er þrá mannsins fyrir frið og umhyggju, að það sé óhætt að vera til.

Fjölskyldur koma saman en um hvað er talað? Leitar hún saman tilgangs skilingarlífsins vitsmunalega eða er ófrið að finna hjá henni, árekstra og óskin um að jóladagarnir líði hratt, því þetta er svo erfitt allt saman? Lífið breytist ekki þrátt fyrir fyrirheitið, stríð haldast, brotnar fjölskyldur verða, vitundin um tilgangsleysi knýr á hjá mörgum og fólk flýr rangsnúin jólin því það heldur ekki sársaukann út. -Hátíðina sem er hjartanu skyldust.

Það sem gerist í kirkjunni á jólum, snertir við öllum og vitjar allra, það er þetta að eiga hlutdeild í helgisögn jólanna. Og sá sem ekki kemur jötu Jesú barnsins, finnur ekki leiðina þangað. Leiðina sem vitringarnir fóru og sömuleiðis hirðarnir. Þeir fóru að jötunni og hræðu hana. Vitringarnir og hirðarnir voru þeir fyrstu að jötunni. Þeir skynja að í þessu barni er Guð. Guð og allur lífskraftur er þaðan kominn, v.þ. að vegna þess að þeir upplifa Guð þarna í sinni eigin sál. Megin málið er að hér og nú, er þessi fæðing í hjarta mannsins. Guð fæðist í hjarta mannsins. Tilgangurinn er að fæðast þar. Yður er í dag, frelsari fæddur. Orðfærið tjáir, að það sem Vitringarnir og hirðarnir sáu í Jesú, gat orðið í hjarta þeirra sjálfra.

Því sjá, sagði engillinn, og höfðar þannig til augananna, til skynjunarinnar. Að sjá og skynja möguleikan til að finna mennsku sína í því að Jesús barnið er með hverjum og einum. Og ekki aðeins með, heldur í hjarta þeirra sem búa því barni samastað sér hjá. Þannig endurnýjumst við með þessari sögu. Við skynjum ljósið eitt augnalbilk á jólum, þá hverfur óttin smá stund. Setningarnar mörgu sem veita okkur hlutdeild helgisögninni mætum við í orðum Guðspjallsins og þær þekkjum við mæta vel.

En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi.

Þér gjöri' eg ei rúm með grjót né tré, gjarnan læt ég hitt í té, vil ég mitt hjartað vaggan sé, vertu nú hér, minn kæri. :,: Með vísnasöng ég vögguna þína hræri. :,: Sálmur 72

Hátíðin er hjartanu skyldust.

Jólin boða sífelda endurfæðingu Jesú í hjarta mannsins. Vaktu minn Jesús, vaktu í mér- orti Hallgrímur Pétursson, - vaka láttu mig eins í þér. Enda hlýtur það, að eiga að heita tilgangur þeirrar hátíðar sem yfirstandandi er, að VITUND Krists fæðist í hjörtum okkar.

Um þetta yrkir Jakob Jóhannesson Smári í sálmi 75

Ó, Jesúbarn, / þú kemur nú í nótt, og nálægð þína / ég í hjarta finn. Þú kemur enn, / þú kemur undra hljótt, í kotin jafnt / og hallir fer þú inn.

Kotin og hallirnar birtast okkur í næsta versi sem manneskjurnar en ekki húsakynni:

Þú kemur enn / til þjáðra í heimi hér með huggun kærleiks þíns / og æðsta von. Í gluggaleysið geisla inn þú ber, því guðdómsljóminn skín / um mannsins son.

Sem ljós og hlýja í hreysi dimmt og kalt þitt himneskt orð / burt máir skugga' og synd. Þín heilög návist helgar mannlegt allt - í hverju barni / sé ég / þína mynd.

Það er fullástæða til að trúa á umhyggju Guðs og vænta alls hins besta fyrir heiminn okkar. Framtíðin er opin, við erum ekki ein. Sá sem skynjar sig í umhyggju Guðs, metur lífið sitt á þeim grunvelli. Fagnaðarerindið býður því upp á merkingarfullt líf sem birtist þér sem möguleiki aftur og aftur þangað til þú tileinkar þér þann mörguleika og veruleikinn breytist og þú verður annar.

Jólaguðspjallið er innihaldsþrungin frásögn sem talar beint til okkar, hún á erindi við það dýpsta í vitund og vilja mannsins, hún talar til drauma hans um frið og fegurð.

Fjárhirðum fluttu, fyrst þann söng Guðs englar, unaðsöng, er aldrei þver: Friður á foldu, fagna þú maður, frelsari heimsins, fæddur er.

Frásögnin er samofin andstæðum sem hver maður þekkir án frekari skýringa og á þeirri stundu sem hann heyrir söguna veit hann hvar hann á að standa í þessum heimi. Sagan vekur hann til vitundar um hið góða, fagra og fullkomna. En við vitum jafnframt að sagan er tímalaus, hún er enn að gerast, hún gerist á hverjum degi í ýmsum myndum, m.a. þegar hið góða, fagra og fullkomna er fótum troðið, þegar veldin –stór og smá, hvert af öðru eira engu í blindri eftirsókn eftir meiri auðlegð og meiri yfirráðum.

Jólaguðspjallið afhjúpar hið fegursta sem til er í veröld mannsins þegar birtu af veröld Guðs leggur inn í heim hjarta mannsins

Hugleiðum á þessum jólum eins og María gerði, en María geymdi og hugleiddi það allt sem hún hafði heyrt og séð um barnið sitt.

Geymum það líka, hugleiðum það og látum háttarskiptin verða í lífi okkar hvers og eins.

Að ást Guðs og umhyggja Guðs og kærleikur verði burðarás í lífi okkar.

Að Jesús fæðist í hjarta okkar og vitund hans verði okkar vitund.

Gleðileg jól og Friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðveiti hjörtu og hugsanir yðar í Jesú Kristi. AMEN

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. AMEN